3. júlí 2009

SJS um...

Innræti Breta:

Hefur okkur verið sýnd sanngirni? Er ástæða til að ætla að „innréttingin“ í þeim snúist við allt í einu og þeir verði voðalega góðir og sanngjarnir, mennirnir sem hafa beitt okkur þeim þvingunarkostum sem raun ber vitni? Því að auðvitað eru það ekkert annað en ofboðslegir afarkostir og nauðungarkostir sem ríkisstjórnin gekkst inn á að samþykkja.


Stefnu og tilgang AGS:

Þegar búið var að pína Ísland eða ríkisstjórnina til uppgjafar í Icesave-deilunni var græna ljósið sett á hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Menn voru svo langt leiddir að ýmsir tóku því fagnandi, gott ef þeir héldu það ekki hátíðlegt þegar prógrammið var samþykkt hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En er það eitthvað til að gleðjast sérstaklega yfir, það sem hér á að fara að gera? Það er ekki bara lántakan sem skiptir máli, það eru ekki bara þessir fimm milljarðar bandaríkjadala rúmir sem tilheyra Alþjóðagjaldeyrissjóðspakkanum, það eru skilmálarnir sem Ísland á þar með að undirgangast, sem eru kannski af tvennu enn alvarlegri en lántakan sjálf vegna þess að hendur okkar verða mjög bundnar. Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á. Það er það alvarlega í þessu máli.

Hvað blasir við okkur nú þegar hvað varðar skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hækkun vaxta, og meira að segja er frekari hækkun vaxta boðuð í skjalinu ef á þarf að halda. Vonandi kemur ekki til þess, vonandi getur hið gagnstæða gerst fljótlega að vextir fari að lækka enda annað algert óráð. En prógrammið er þetta og það segir sína sögu um hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að hugsa, hvernig hann er forritaður og þar hefur því miður nánast ekkert breyst. Þegar kemur að kjarnanum í stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hún áfram sama harða peningahyggjan, harða frjálshyggjustefnan, sem þar hefur verið rekin um árabil. Sjóðurinn hefur sætt mikilli gagnrýni, sérstaklega vegna framgöngu sinnar og útreiðar margra þróunarríkja sem orðið hafa að leita á náðir hans. Og hvernig hefur hann brugðist við því? Með því að breyta stefnu sinni í grundvallaratriðum? Nei, hann hefur brugðist við því á þann veg að fá sér andlitslyftingu og setja deildir svona utan um sem líta voðalega fallega út og láta sér þykja vænt um umhverfið og jafnvel félagsleg mál. En hin eiginlega stefna sjóðsins birtist í skilmálum hans í efnahags- og peningapakkanum. Hún er nákvæmlega sama harðlínuniðurskurðarstefnan og sjóðurinn hefur alltaf beitt með skelfilegum afleiðingum fyrir mörg þau lönd sem lent hafa inni í prógrammi hans, eins og Argentínu, Suður-Kóreu og mörg fleiri. Það væri fróðlegt fyrir þingmenn að kynna sér og heyra í þeim sem hafa reynslu af þessum samskiptum. Og hver hefur niðurstaðan orðið í hverju landinu á fætur öðru sem lenti inni í prógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Það varð að forgangsatriði í viðkomandi löndum að komast þaðan út aftur, að borga sig út úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með blóði, svita og tárum. Þá leið valdi Suður-Kórea, þá leið valdi Brasilía og fleiri lönd reyndu það með misjöfnum árangri.

Þau sem hins vegar voru hlýðnust, eins og Argentína, fóru verst út úr því — borguðu og borguðu og borguðu samkvæmt prógrammi sjóðsins og enduðu á hausnum.

1 ummæli:

Hnakkus sagði...

Hann hlýtur að vera geðklofi. Er ekki hægt að svipta hann sjálfræði bara?