29. júlí 2009

Menn sem hata konur



Smávaxið títanikk-æði er brostið á vegna Manna sem hata konur. Biluð lyfta hefur gert Millenium-trílógíuna að enn stærra æði en annars hefði orðið. Larsson hafði ekki pumpu í stigana á vinnustað sínum og datt niður dauður.

Það var aðeins eitt sem angraði mig við kvikmyndina. Blómkvist var gerður aðeins of góður við konur. Hin aðalpersónan, Salander, er rækilega skilyrt af illsku heimsins – og ekki síst karlaillsku – og það er algjörlega nauðsynlegt til að halda í grunneðli sambands hennar og Blómkvists. Hann fer ekki vel með konur. Er með margar í takinu og oft gegn betri dómgreind.

Í myndinni er hann laus við þann kvilla.

En það fyndna er að plottið virðist hafa gefið einhverjum kúlulánakónanum góða hugmynd. Án þess að gefa of miklar upplýsingar um myndina þá má geta þess að Blómkvist er hardkor rannsóknarblaðamaður, þyrnir í augum stærsta útrásarvíkingsins. Sá bregður á það ráð að mata Blómkvist á fölskum upplýsingum sem virðast vera algjör bomba. Blómkvist birtir þær og er dæmdur í fangelsi fyrir vikið.

Og hvað gerist svo?

Hið sama gerist á Íslandi nokkrum dögum eftir frumsýningu. Einhver matar fréttamann á upplýsingum um helstu auðjöfra Íslands. Þær reynast falskar. Auðjöfrarnir ætla sannarlega að nýta sér sýnar 15 mínútur af sakleysi til fulls og allt stefnir í dómsmál.

Skondið.

1 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Tjah. Er ekki langsótt að halda því fram að allt stefni í dómsmál? Ég held að þetta sé bara þetta klassíska: Ég-er-að-íhuga-réttarstöðu-mína sem er orðin einhver vinsælasti frasi Íslands eftir hrun.