Eftir að hafa fengið hjálp þá er niðurstaða mín sú að hér fari á eftir markverðustu röksemdir með og á móti Icesave.
Á móti Icesave:
1. Það er mikil óvissa hve reikningurinn er hár og í versta falli er töluverð óvissa á hvort landið ráði við reikninginn.
2. Endurskoðunarákvæðið er ótryggt.
3. Gjaldfellingarákvæðin eru áhættusöm.
4. Icesave-krafan byggir ekki á lögfræðilegum úrskurði heldur pólitískum þrýstingi. Við undirritun samnings verður hún ómótmælanleg.
5. Vextirnir eru sérstaklega óhagstæðir, m.a. þar sem þeir eru ekki forgangskröfur.
6. Bretar hafa sjálfir brugðist samskonar lagatilskipun og neitað að borga.
7. Þjóðin er á móti Icesave.
8. Framkoma Íslendinga í málinu einkennist af óheiðarleika og græðgi fyrir hrun og vangetu og -kunnáttu eftir hrun.
9. Ástæða þess að Fjármálaráðherra vill samþykkja Icesave er að hluta til útskýrð í leyniskjölum sem enginn má opinbera. Að taka stærstu ákvörðun Íslandssöguna án þess að opinbera forsendurnar er andlýðræðislegt.
10. Þótt samningnum verði hafnað hafa samningsaðilarnir enga hagsmuni af því að berja á Íslandi. Þeirra hagur er að ná besta samningi sem þeir geta náð. Það hlýtur að gilda nú, ekki síður en ef endurskoðunarákvæðið verður virkt.
Með Icesave
1. Það var á ábyrgð FME og stjórnvalda á Íslandi að takmarka áhættu þjóðarinnar af bankaútrásinni. Innlendar stofnanir brugðust. Ábyrgðin lá fyrir.
2. Með því að bjarga andliti evrópska fjármálaheimsins fær landið velvilja erlendis.
3. Ef Ísland ræður við samninginn er hann nærtækasta leiðin út úr vandanum. Og getur orðið harla auðveld ef mikið fæst fyrir eignir Landsbankans.
4. Ef ESB og AGS ákveða að fara í hart formlega eða óformlega getur ástandið á Íslandi snarversnað.
5. Trúverðuleiki þjóðarinnar er að veði.
6. Ef málið verður ekki klárað fyrir október fellur öll skuldbindingin á Ísland nú þegar en ekki eftir 7 ár eins og samningurinn segir til um.
7. Eftir sjö ár verða komnir nýir pólitíkusar hér heima sem og í Bretlandi og Hollandi. Farið verður að fenna yfir hörmungarsögurnar af bresku líknarfélögunum og hollensku bæjunum sem fóru á hausinn - auk þess sem Íslendingar verða kannski búnir að draga a.m.k. 1-2 bankagúbba fyrir dómara. Ef planið er að höfða til meðaumkunar umheimsins gæti verið betra að bíða í lengstu lög.
8. Ábyrgð íslenskra stjórnvalda (amk hvað varðar hollenska hluta Icesave) er meiri en að einhver "eftirlitskerfi hafi brugðist". Í Hollandi var frekar um að ræða meðvitaðan ránsleiðangur stjórnenda Landsbankans sem fór fram með vitund og stuðningi íslenskra ráðherra. Viðvörunarorðum Hollendinga var svarað með skætingi, þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands ræddi á sama tíma hættuna á krassi bankans.
9. Mikil óvissa er uppi um hvað tekur við, felli Alþingi samninginn.
10. Með því að fella samninginn eykst pólitískur óstöðugleiki á Íslandi og hætta er á nýrri hægristjórn.
Í framhaldi af því væri fróðlegt að setjast í spor Alþingismanna og horfa aðeins til eigin samvisku. Hvað myndi maður kjósa?
1 ummæli:
Ég leyfi mér að efast um niðurstöðurnar í könnun sem hægt er að taka aftur og aftur.
Skrifa ummæli