1. janúar 2009

Árið í 12 tilvitnunum

Janúar

„Það furðulega er, að fólkið sem hamast hvað mest við að dæla persónuupplýsingum sínum inn á Feisbúkk, það er fólkið sem líklegast var til að vera á móti Díkód, Kára og -hnjúkum. Tiltölulega vel gefið fólk með nokkra menntun og gott upplýsingalæsi. Manni gæti dottið í hug að andstaðan við annað og nær gegndarlaus stuðningur við hitt sé hvorttveggja runnið af einni rót, hégóma yfir meðallagi.“

Febrúar

„Málfrelsi snýst ekki um velsæmi. Það þarf ekkert málfrelsi til þess að tjá sig um það sem engan stuðar. Málfrelsi snýst um umburðarlyndi gagnvart þeim sem fara á svig við velsæmi. Umburðarlyndi sem réttlætt er með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með hverfandi skaðsemi og í öðru lagi með mikilli gagnsemi.“

Mars

„Því miður hefur nokkuð stór hópur fólks einstakt yndi af mótmælum. Þetta yndi er ógeðfelldur velmegunarsjúkdómur. Þau mótmæli sem þetta fólk miðar öll mótmæli við eru sprottin upp úr kúgun og örvæntingu. Mótmæli eru lokaúrræði þess undirokaða en fyrsta útrræði lýðskrumarans. Mótmæli sem drifin eru áfram af sömu tilfinningum og grípa menn á kappleikjum eru viðbjóðsleg skrílslæti og gera lítið úr raunverulegum mótmælum undirokaðs fólks.“

Apríl

„Hægt en örugglega dragast þjóðir heims inn í enn eitt kalt stríð. Það er erfitt að standa gegn spennufíkninni sem vill viðhalda stöðugu ógnarástandi. Spennan er ævinlega byggð upp til höfuðs einhverju ranglæti og fær útrás í táknrænum eða efnislegum aðgerðum sem nær aldrei skila bótum.

Refsiaðgerðir, uppþot, leynimakk, njósnir, byltingar, fangelsanir, hleranir og hunsanir eru miklu oftar sjúkdómseinkenni samfélagsmeina en lækningar. Lækningarnar koma ekki fram fyrr en létt er á spennunni og menn horfast í augu.“

Maí

„Eina skynsamlega ástæðan sem ég sé fyrir því að Hillary heldur áfram í kosningabaráttu er sú að hún treystir á það að Obama verði skotinn. Og þá helst af hvítum manni.“

Júní

„Stærsti hluti Íslendinga skuldar einum eða fleirum af þremur bönkum sem nemur tveimur vinnudögum í viku næstu áratugina. Nú bendir allt til þess að bankarnir skirrist ekki við að fjölga þessum dögum í þrjá til að geta hreykt sér framan í vini sína í fjármálafrímúraraheiminum.

Bankarnir virðast ekki hika við að beita óvönduðum meðölum í þessari viðleitni sinni. Á kontórum bankanna sitja menn við stóra glugga með útsýni yfir þrælana sem hökta upp sísifossarfjallið með grjótið. Þegar gestir koma á kontórinn segja bankastjórarnir sposkir: „Sjáið hvað ég get gert.“ og með einni handarbendingu eru svipurakkar búnir að skipta steinunum út fyrir stærri steina. „Sjáið hvað ég er voldugur.“ Segir jakkafataláfurinn og trúir því pínulítið sjálfur. Allt í kringum hann eru koffeinhæpuð handbendi sem klappa og klæða sig í boli sem á stendur „2 tonn“ – það er hlassið fyrirheitna.“

Júlí

„Gosi er mjög góður en frammistaðan er of veigalítil til að þola stærra hlutverk. Hann varð vandræðalega einhæfur á köflum. Það er ekki nóg að gjóta augunum endalaust upp til vinstri og smjatta sig í gegn um heila mynd, og reyna að tala eins og Jack Nicholson. Hann fær samt Óskarinn.“

Ágúst

„Þegar tónleikunum lauk voru kirkjugestir hreint ekki á því að sleppa organistanum heim. Lófaklappið ómaði um alla Brekkuna. Eyþór brást við aukalagakrísunni á stórkostlegan hátt. Á ógnar tilfinningaþrungin hátt spilaði hann svo undir tók bandaríska þjóðsönginn. Það var meira en þjóðernissinnaðar, norðlenskar taugar þoldu. Hálf hikandi klappaði hópurinn dauflegar en áður (þó ofur kurteislega) og svo hlupu allir út.“

September

„Á fjögurra mánaða fresti legst þjóðin nauðug viljug á árarnar með bönkunum til að koma þeim í gegn um næsta brimskafl. Fari svo að banki fari illa er það auðvitað þjóðin sem blæðir.“

Október

„Nú reynir á að standa vörð um lýðræðisleg og siðferðileg gildi. Og verja þau jafnvel þótt það kosti okkur peninga eða neyð. Það er auðvelt að teikna digurbarkalegar myndir í dönsk blöð, það er erfiðara að sýna stillingu og gera það sem er rétt þegar maður á ekki fyrir mat. Fólk svalt til að skila okkur þessum gildum. Það dó. Það drap.

Nú þarf að skrúfa fyrir hatrið og reiðina.

Það verður enginn leiðitamur múlasni þótt hann stilli sig. Það er miklu frekar að maður ani á foraðið í blindri heift. Sá sem er vitur þegir, þótt honum sé sagt að halda kjafti, hafi hann ekkert sérstakt að segja.“

Nóvember

„En þegar andúð þjóðarinnar tekur á sig mynd uppþota þá hefur þjóðin kiknað. Geðið hefur gefið sig. Þjóðarsálin er kominn með geðröskun.

Þá erum við ekki lengur pirruð og ósátt. Þá erum við veik. Og þá fara að gilda önnur lögmál. Þá er nærtækast að tefla riddaraliði Bjössa gegn fólkinu á meðan pólitíkin heldur áfram á bak við tjöldin.

Það sviptir enginn tjöldum frá með ofbeldi.

Það er merkilegt hve þjóðin er blind á eigin heift, gremju og nær sjúklegan pirring en um leið og þess sama fer að gæta hjá Geir Haarde þá fabúlera menn upp frumspekilegar kenningar um eilífar endurbirtingar mannvonskunnar.

Ofbeldi nú þvælist bara fyrir. Þjóðin ber líka ábyrgð á að halda samskiptaleiðinni á milli sín og stjórnvalda opinni.“

Og loks:

„Bloggheimar eru staglkenndir og staðnaðir. Þeir eru samt óskaplega spennandi og vænlegir. Þeir geta orðið stórkostlegir. En þeir eru það ekki.

Ég nenni ekki að blogga svona.“

Bless.

Engin ummæli: