23. október 2008

Vinna meira

Nú er bjart yfir, eða þannig, skilaboðin til almennings á Íslandi frá ríkisstjórninni núna, svona undir rós, eru: Nú þurfum við, þ.e. VIÐ, ekki ríkisstjórnin, að bretta upp ermar og vinna aðeins meira, verst að það er frekar lítið um atvinnu núna, og hjálpast að við að greiða niður sukk síðustu ára. Það mun þurfa að hækka skatta, á almenning að sjálfsögðu, ekki fyrirtæki, því þau verða að lifa svo við höfum vinnu, svo þarf að skera niður í þjónustu hins opinbera, líklega þá í rekstri sjúkrahúsa, skóla, og annara slíkra stofnana, ekki sendiráð eða svoleiðis. Þannig að við munum fá minni þjónustu fyrir meiri pening, það er svo sem ekkert nýtt.

Það er reyndar örlítill hængur á þessu og hann er að, við þ.e. almenningur í landinu, höfum unnið eins og vitleysingar, aukavinnu og auka-aukavinnu síðustu ár , aðallega til þess að reyna að taka þátt í góðærinu góða, en þrátt fyrir mikla vinnu og góðan vilja, höfum við einhvernveginn alveg misst af þessu öllu saman, haldið að nú færi að koma að okkur, að fá þó ekki væri nema smá brot af dásemdunum, en aðrir hafa notið ávaxtanna og þegar við erum loksins að nálgast ávaxtaskálina, þá er hún galtóm og ekki nóg með það, helvítin eru búin að selja skálina, farnir með peningana og skilja eftir ógreidda reikninga, sem við eigum núna að greiða. Og nú kemur liðið í stjórnarráðinu og ætlast til að við reddum öllu, bara vinna aðeins meira, standa saman, horfa til framtíðar, ekkert vera að reyna að finna sökudólga, við höfum nú lent í öðru eins áður og staðið það af okkur með okkar heimsfræga dugnaði og vinnusemi.

Ég bara nenni þessu ekki enn eina ferðina, ég segi bara alveg eins og er. Það er ekkert útlit fyrir að aðal sökudólgarnir í málinu, muni taka neina ábyrgð, þeir hamast við að tína saman peningana „sína“ og flýta sér úr landi, og við eigum að sitja uppi með allt helvítis ruglið.

Það verða engar launahækkanir á næstunni hjá okkur, að vísu voru alþingismenn og ráðherrar að fá launahækkun, við erum að tapa lífeyrisréttindum og séreignasjóðum, en að vísu halda alþingismenn og ráðherrar öllum sínum lífeyrisréttindum, við erum að missa atvinnuna, nema að sjálfsögðu alþingismenn og ráðherrar, vegna þess að sömu hálfvitarnir og komu okkur í þessi vandræði, segjast núna ætla að bjarga okkur úr þeim. Trúir því einhver ? Ekki ég.

Ef einhverntímann hefur verið þörf fyrir að „VIГ almenningur stöndum saman, þá er það núna. Hættum að láta ljúga að okkur og plata okkur endalaust, nú er bara komið að því að gera kröfur til þessa fólks sem á að sjá um að sinna okkar málum á Alþingi, nú er komið að þeim að bretta upp ermar og vinna meira, og ef þeir eru ekki færir um að sinna því sem til er ætlast, geta þeir komið sér út og við setjum nýtt fólk í málið. Nú verða fjölmiðlar líka að ganga í lið með okkur, láta menn svara og ekki láta þetta lið komast lengur upp með að bulla einhverja vitleysu við fréttamenn endalaust.

Ég vil svör og aðgerðir, NÚNA, ekki einhverntímann seinna.

Ólafur Ragnar Hilmarsson

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki gera ekki neitt!
Laugardagur kl. 15—Austurvöllur