3. október 2008

Skuldir

Erlendar skuldir þjóðarinnar, ég hafði ekki gert mér nokkra grein fyrir stöðunni, enda hafa ráðamenn þjóðarinnar, auk bankasérfræðinganna, verið alveg óþreytandi undanfarið við að segja okkur hvað þetta er allt í góðum málum, hér eru nú ekki vandræðin, við erum alveg sér á báti hvað varðar fjármálin, allt eins og best verður á kosið.

Svo fór ég í smá skoðunarferð á internetinu, þurfti ekki að eyða miklum tíma í það, á nokkrum mínútum, með því að heimsækja heimasíður Seðlabankans, Hagstofunnar og nokkrar aðrar, komst ég að því að skuldir þjóðarinnar við útlönd voru í ágúst 2008 tíu þúsund milljarðar, já segi og skrifa, tíu þúsund milljarðar, (ég skrifa það með bókstöfum því ég var ekki viss um að vera með passlega mörg núll í tölunni) þær, skuldirnar, hafa að sjálfsögðu hækkað dálítið síðan í ágúst, þó ekki sé nema bara vegna gengisbreytinga, af þessum tíu þúsund milljörðum, skulduðu bankarnir og fjárfestingasjóðir átta þúsund og fimm hundruð milljarða. Ekki furða að afborganirnar séu frekar háar.

Fyrst fannst mér fínt að Ríkið tæki Glitni yfir, en nú er ég ekki eins viss, því að þessir áttatíu og fjórir milljarðar sem Ríkið borgar fyrir 75% í bankanum fara bara í eina afborgun af láni, sem þarf að greiða í næstu viku, síðan þarf að greiða nokkra milljarða í viðbót á næstu mánuðum, hvar eigum við að fá aura fyrir því, hingað til hafa bankamennirnir góðu, bara tekið lán til að borga og svo bara annað lán þegar þarf að borga meira, en nú er staðan orðin þannig að það er bara ekki hægt að fá lán, og ekki er nú of mikið til af aurum í Seðlabankanum, auk þess er líka orðið erfitt fyrir hann að fá lán. Og hvað þá ? Jú Ríkið er þá orðið eigandi af meirihluta Glitnis, og verður þá sennilega að gera einhverjar ráðstafanir til að borga, hvernig farið verður að því veit ég ekki, en ekki finnst mér mjög bjart yfir þessu.

Er kannski jafn gott, eða betra að láta bara Glitni fara á hausinn ? Ég get ekki svarað því, en eflaust er einhver sem getur það, í öllu falli held ég að nú væri ráð að leita til enhvers sem hefur vit á þessu, og fá ráðleggingar um hvað best er að gera í stöðunni. Það er að minnsta kosti löngu ljóst að hvorki bankastrákarnir né Ríkisstjórnin hafa nokkurt einasta vit á þessu, og kallarnir í Seðlabankanum eru alls ófærir um að gera nokkuð af viti.

Möguleikar á að geta borgað skuldirnar, vergar þjóðartekjur eru uþb. níu hundruð milljónir á ári, ef við myndum setja það allt í að greiða af erlendum lánum næstu árin, þá gætum við, ef við erum mjög heppin, kannski greitt megnið af vöxtunum af lánunum okkar í útlöndum, en ekkert af lánunum sjálfum, það getur varla endað vel. Nú bara verður að fá einhverja með viti til að finna út úr þessu, nú eða bara dúndra okkur í gjaldþrot. En það er auðvitað það sem við erum, GJALDÞROTA.

Að lokum, öll útrásin, öll fjármálasnilli íslensku viðskiptajöfranna síðustu árin var bara tekin að láni, ég meina, meira að segja ég gæti látið líta út fyrir að ég væri moldríkur, í einhvern tíma, svo lengi sem ég fengi alltaf nýtt og nýtt lán fyrir öllu sem mig langaði í, alveg þar til ég þyrfti að fara að borga af þessum lánum, þá er hætt við að eitthvað myndi klikka. Andskotans rugl er þetta alltsaman.

Ólafur Ragnar Hilmarsson.

Engin ummæli: