9. október 2008

Davíð Oddsson leiddur til aftöku

Enginn stjórnmálamaður hefur verið lagður jafn heiftarlega í einelti síðustu misserin og Davíð Oddsson. Og nú vofir aftaka hans yfir.

Sú krafa, sem ómar iðulega, þegar þjóðin er ósátt um að einhver axli ábyrgð er ekkert annað en ringlandi uppvakningur úr frumkristni í bland við heiðnar mannfornir. Það er nákvæmlega ekkert bætt með því að reka fólk í stríðum straumum, nema eitthvað betra komi í staðinn.

Hver er glæpur Davíðs?

Hann jók hér efnahagslegt frelsi. Hann sat í Seðlabankanum þegar allt fór til fjandans.

Það var ekki hann sem stýrði þjóðinni í þrot. Það var ekki hann sem tók risavaxin lán á lán ofan án þess að eiga möguleika á að endurgreiða þau nema með enn stærri lánum.

Skeytasendingar milli hans og varaformanns Sjálfstæðisflokksins eru athygliverðar þegar haft er í huga að Þorgerður Katrín hefur ríka hagsmuni bundna við einn bankanna. Hún hefur notið eldanna margfalt á við Davíð, þótt hann hafi keypt eldspýturnar. Hvort þeirra skyldi fjalla um málið með ómengaðri dómgreind. Hve miklu af fé almennings hefði Þorgerður verið tilbúin að verja í að vernda fjármálastofnanirnar? En fjármálaráðherrann?

Getur verið að Davíð hafi forðað þjóðinni frá áratuga skuldbindingum með því að neita bönkunum um fyrirgreiðslu? Getur verið að Davíð hafi metið stöðuna rétt og vitað að sjóðunum yrði betur fyrirkomið með öðrum hætti?

Það var fullkomið aðgerðarleysi stjórnvalda sem dró Davíð aftur inn í stjórnmál. Hann hefur einn fárra flotið vakandi að þessum feigðarósi. Hann varaði við árásum á gengið á meðan bankarnir mokuðu fé í eigin sjóði í blöndu af örvæntingu og græðgi.

Og hvað sagði Davíð svona óskaplega rangt í Kastljósinu? Hefði hann átt að gefa í skyn að þjóðin myndi borga þessar skuldir sem rætt var um? Hefði hann átt að haga orðum sínum þannig að froðusnakkurinn Gordon Brown gæti ekki notað þau sem átyllu til sakbendingar?

Davíð er yfir það hafinn.

Það má ekki láta hatur andstæðinga hans blinda fólkinu sýn. Hvað hefðu þeir sjálfir gert? Ausið fé í Glitni? Landsbankann? Kaupþing?

Ég er andskoti hræddur um það.

4 ummæli:

hilary sagði...

Já, við erum merkilega sammála um þetta mál, þó að ég hafi ekki hugsað út í vinkil Þorgerðar, sem er vissulega góð athugun hjá þér. Ég er að reyna að átta mig á hlutunum án þess að dæma of harkalega og bregst einfaldlega við þegar mér sýnist illa verið vegið að einhverjum, sama hver á í hlut.

Nafnlaus sagði...

Það sem skiptir máli í þessu er ekki hvort Davíð hafi grætt eitthvað á þessu og hvort hann hefði átt að segja þetta eða hitt á vissum tímapunktum. Davíð hefur vissulega verið kennt um hluti sem hann hefur ekki stjórn á. Það var ekki hann sem skuldsetti bankana í topp í taumlausri útþenslu. En það var hann sem skapaði þær aðstæður, á Íslandi, sem voru þess valdandi að það var mögulegt.

Þetta skiptir þó ekki í raun og veru máli þegar talað er um að víkja eigi seðlabankastjórum frá störfum. Sú hávaxtastefna sem rekin hefur verið hefur ekki virkað, þvert á móti hefur hún aukið á vandann. Tiltrú fjárfesta á krónunni og því hávaxtakerfi sem hún er í er engin núna. Það sem enginn vill kaupa er einskis virði. Því þarf að skipta um stefnu, lækka vexti og skipta um seðlabankastjóra sem misst hafa trú almennings sem og fjárfesta. Þetta þarf að gerast óháð persónu Davíðs Oddssonar. Stundum er í lagi að skipta um hest í miðri á.

Nafnlaus sagði...

hálf tussulegur pistill þetta.

Nafnlaus sagði...

En það var Davíð sem opnaði kerfið. Man ekki betur en að það hafi verið hann sem sat sem forsætisráðherra þegar bindiskylda bankanna var afnuminn. Í stjórnartíð hans var bönkum sleppt lausum og við erum að súpa seyðið af því núna.
Furðulegt að skipta um stól og vera þá í hróplegu ósamræmi við sjálfan sig eins og hann er.