5. september 2008

Dagbækur Matthíasar




Ef þjóðin hefði eitthvað auga fyrir drama væri löngu búið að fylla þjóðargrafreitinn á Þingvöllum af andans jörlum tuttugustu aldarinnar. Þar lægju þeir í fjórum þyrpingum. Ein næst kirkjunni, efst í krossinum (þar sem Jónas og Einar eru nú)*, önnur beint á móti henni, neðst í krossinum. Þyrpingarnar myndu vísa hvor móti annarri. Það sama myndi gilda um þyrpingarnar í hægri og vinstri armi krossins. Á öllum steinunum stæði eitt og sama orðið: „Víst!“

Bráðum deyr Matthías Johannessen. Einn af þessum gáfuðu mönnum sem tuttugasta öldin gerði heimska. Einn örfárra sem aldrei varð fyllilega heill í heimsku sinni. Kannski of ungur.

Hann hefur kosið að opinbera ævi sína og störf áður en hann deyr.

Og allt verður vitlaust.

Það eru bara grunnir menn sem lítið þekkja til fjölbreytileika mannlífsins sem taka dagbókunum illa.

Bækurnar eru einlæg játning manns sem ber ábyrgð á eigin lífi þrátt fyrir að vera ósammála sér í mörgu. Hann lýsir lífinu eins og það er hjá okkur öllum. Líka hlutunum sem við eigum að hafa vit á að þegja yfir. Dagbækur Matthíasar eru merkilegur viðburður í stjórnmála- og dægurmálasögu þjóðarinnar. Viðburður af svipuðum toga og þegar fyrstu kynlífslýsingarnar rötuðu í bækur.

Það vita allir hvaða fyrirvara ber að gera við bækurnar. Samt kjósa margir að látast ekkert vita. Og hneykslast. Eins og teprurnar sem þeir eru.

Dagbækur Matthíasar heilaþvo enga nema þá sem hafa lítinn þvott.

Og Matthías er enn á lífi til að bera ábyrgð á þeim.

Það er ekki honum að kenna að sumt af því fólki sem hann fjallar um er það ekki.

Og það er eina syndin.

*Það þarf varla að taka fram að þar væri herra Sigurbjörn í öndvegi. Enda merkur maður, sem réri að því öllum árum að hægja á hjóli tímans síðasta spottakornið í jarðvistinni. Og honum tókst það.

Engin ummæli: