19. ágúst 2008

Sjálfstæðisframsóknin

Eins lengi og ég man, (ég er kannski ekki meðal elstu manna en man þó sitt af hverju,) hefur verið talað um Framsóknarflokkinn sem; eiginhagsmuna-, einkavina-, framapots-, lyga-, svindl- og sveitaflokkinn í íslenskri pólitík, vafalaust er margt til í því sem sagt hefur verið um þann ágæta flokk, en nú er öldin önnur, Sjálfstæðisflokkurinn sem er ,að sögn flokksmanna, flokkur festu, öryggis, framfara, frjálslyndis, einstaklingsfrelsis, séreigna og hagsmuna allra stétta, hefur tekið við af Framsóknarflokknum og er núna sá flokkur sem vinnur markvisst að því að verða, eiginhagsmuna-, einkavina-, framapots-, lyga-, svindl- og sveitaflokkur Íslands. Dæmin eru fjölmörg t.d. skipanir í opinberar stöður síðustu misseri, „einkavæðing“ á ýmsum sviðum og margt fleira, bæði í sveitarstjórnum og í landsmálum. Ég ætla ekki að fjalla um landsmálin að þessu sinni, en borgarmálin eru mér ofar í huga þessa stundina.

Ólafur F. Magnússon, náungi sem ég sjálfur hef aldrei haft mikið álit á, og í seinni tíð hef ég ekki haft neitt álit á manninum, í raun tel ég hann algjörlega óhæfan til að vera í stjórnmálum og því síður borgarstjóri, en Sjálfstæðismenn höfðu aðra skoðun á því og húkkuðu hann uppí til sín til að geta sest sjálfir í þægilegri stóla í Ráðhúsinu, „Heyrðu Óli, við erum til í hvað sem er fyrir góða stóla“, sögðu þau í janúar, og í kjölfarið gerðust ýmsir undarlegir hlutir, svo að segja öll áhugamál Ólafs F. urðu allt í einu helstu áhugamál Sjálfstæðismanna, svolítið einkennilegt hvað stefna flokks getur gjörbreytst á skömmum tíma, ég man að minnsta kosti eftir því, að eftir kosningar fyir rúmum tveimur árum, gat Sjálfstæðisflokkurinn alls ekki farið í samstarf með Ólafi F. vegna málefnaágreinings sem ómögulegt var að leysa þá, en það eru auðvitað tvö ár síðan.

Fyrsta verk Ólafs og Sjálfstæðismanna var að kaupa tvo handónýta kofa við Laugaveg á þokkalega háu verði, þá var látið í það skína að Ólafur hefði barist fyrir þessu og Sjálfstæðismenn látið undan, en nú kemur á daginn, samkvæmt Ólafi og Sjálfstæðismenn hafa ekki neitað því, að það voru þeir sem vildu kaupa kofana, aðallega til að ná Menntamálaráðherra sínum úr klípu, enn eitt dæmið um vinnubrögð Sjálfstæðismanna. Hver andskotinn er eiginlega að í Sjálfstæðisflokknum ? Og ætlast þeir svo til að einhver hafi áhuga fyrir að kjósa þá ?

Mannskapurinn sem situr í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd Sjálfstæðismanna er náttúrulega ekkert hæfari en Ólafur F. og ætti þess vegna að fylgja honum úr Ráðhúsinu, og helst ekki að vera mikið á ferli opinberlega, Menn eins og t.d. Vilhjálmur Þ. Sem hefði átt að sjá sóma sinn í því að drullast burt úr þessu brasi fyrir löngu síðan, hann er langt frá því að vera hæfur, hann virðist alls ekki gera sér grein fyrir því sjálfur, og það sem verra er; félagar hans og vinir í flokknum virðast bara ekki átta sig á því heldur. Er hægt að taka mark á svona fólki ? Og Kjartan M. Hvað er eiginlega með hann ? Hvað er hann að vasast í pólitík ? Ömurlegt að hlusta á bullið í honum. Flokkurinn hlýtur að geta fundið einhverja aðra þægilega innivinnu handa honum. Gísli Marteinn, er að fara í skóla, (ekki í hverfinu, heldur erlendis) en ætlar samt að sitja áfram á meðan, ekkert mál að fljúga bara á milli, segir hann, eru laun borgarfulltrúa einungis fyrir fundasetu ? Þurfa þeir ekki að gera neitt annað en að mæta á fundi aðra hvora viku ? Restin af þessu liði er, því miður, lítið skárra, og eiginlega furðulegt hvað þau fá að leika lausum hala í Ráðhúsinu, án afskipta Geirs og félaga, þau eru allavega ekki að búa í haginn fyrir flokkinn.

Kannski verður Sjálfstæðismönnum að ósk sinni og allir verði búnir að gleyma þessu við næstu kosningar, en borgarfulltrúar flokksins eru nú ekki líklegir til að geta starfað án vandræða út kjörtímabilið.
Ef ég væri sjálfstæðismaður ennþá, myndi ég ekki vilja taka áhættuna. Hver veit nema kjósendur verði minntir á þetta aftur fyrir kosningar.

Er til of mikils ætlast að það sé tiltölulega heilbrigt fólk sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir okkur almúgann, og gætir hagsmuna okkar á opinberum vettvangi? Það er nú ekki eins og þetta lið sé sjálfboðaliðar, sem fá ekki greitt fyrir vinnu sína, og þegar allt kemur til alls, eru þau að vinna fyrir okkur. Það hlýtur að vera nokkuð sanngjörn krafa, að þau vinni, að minnsta kosti, fyrir kaupinu sínu, mér finnst ekki farið fram á mikið.

Ólafur Ragnar Hilmarsson

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég á erfitt með að trúa að þú hafir verið sjálfstæðismaður.
Kominn tími til að þú sjáir ljósið.
Betra seint en aldrei.

Kveðja, Hálfbauni.