2. júlí 2008

Um trú og annan ára




Trúarbrögð njóta fámunalegrar verndar í lögum vestrænna þjóða. Ef geðsjúklingur stekkur á mig í Austurstræti og skammar mig og aðra vegfarendur fyrir að traðka á strumpum er ekkert sem bannar mér að gera sjúkleika mannsins að skemmtiefni fyrir mig og viðhlæjendur mína. Það væri smekklaust og líklega vottur um djúpstætt karakterleysi mitt að gera það, en það væri löglegt.

En langi mig að gera grín að þeirri hugmynd sumra kaþólskra að brauð og vín geti bókstaflega breyst í mannakjöt og blóð í meltingarfærum manna, þá er ég að stíga yfir ákveðin mörk. Og hægt að refsa mér.

Hvaða rugltrú sem er nýtur verndar frá háði og spotti.

Þessi vernd kostar þó sitt. Og án slíks kostnaðar er hin sérstaka vernd óverjanleg. Kostaðurinn er fyrst og fremst sá að trúnni má ekki þröngva upp á neinn, og sérstaklega ekki geðsjúklinga, fatlaða og börn.

Því miður eru þessar skyldur trúaðra ekki eins vel skilgreindar í lögum og réttindin. Það er til dæmis augljós misnotkun að kippa blönkum, köldum og vonlausum útigangsmanni upp í dýran lúxusjeppa, keyra hann langt út í sveit, setja hann í hlý og góð föt, klæða hann og fæða, gefa honum húsaskjól og öryggi - og hóta síðan að svipta hann öllu aftur nema hann játi eitt tiltekið guð. Slíkt er ekki hægt að kalla annað en mannsal.

Misnotkun Guðmundar í Byrginu á eiturlyfjaneytendum byrjaði löngu áður en Lille ven slóst í hópinn.

Einhverjir kristnir trúmenn halda því fram að til séu trúleysingjar sem vilji ekki að beðið sé í kirkju ef þar eru börn. Með slíkum fullyrðingum, og skyldum, er verið að hæðast að trúleysisskoðunum. Það er löglegt. Það má smána og hæða skoðanir trúleysingja út í eitt. Skoðanir þeirra njóta ekki verndar. Fyrst og fremst vegna þess að þær þurfa ekki á vernd að halda. Enda sést sjaldan hörundssár trúleysingu vegna einhvers sem sagt hefur verið um skoðanir hans. Trúleysingjum sárnar yfirleitt þegar þeim eru gerðar upp skoðanir. Þeir eru raunar óvenju hörundssárir að því leyti. Nokkuð sem andstæðingar þeirra nýta sér auðvitað óspart.

Að halda því fram að trúleysingjar vilji ekki að bænalestur fari fram þegar börn eru í kirkju er álíka ósanngjarnt og að fullyrða að til sé fólk sem haldi því fram að það vilji ekki að munnmök fari fram í vændishúsum að börnum ásjáandi. Það er vissulega rétt að öllu heilbrigðu fólki er slík iðja andstyggð. En það gerir mann ekki sjálfkrafa að sérstökum andstæðingi munnmaka. Þvert á móti getur maður verið sérstaklur baráttumaður fyrir munnmökum og jafnvel vændishúsum. Flestum finnst börn einfaldlega ekkert erindi eiga í slík hús.

Og áður en einhver vælir yfir því að það sé ósanngjarnt að líkja saman bænahaldi og munnmökum, hvað þá vændishúsum, þá skal ég hnika dæminu til án þess að breyta merkingu þess og segja að þetta sé eins og finnast að börn hafi ekki átt að búa í Byrginu.

Flestir trúlausir og margir trúaðir ættu að geta tekið undir það.

Sjálfur hef ég ekkert á móti bænum barna eða kirkjusókn. Ég fer með dætur mínar í kirkju nokkuð reglulega. Biðji þær mig um að biðja með þeim bænirnar (eins og stundum gerist) geri ég það. Mitt hlutverk er hvorki að innræta né uppræta trú þeirra. Ég fæ engan skjálfta í hnén þótt ég sjái þær trúa á eitthvað sem ég þykist vita fyrir víst að sé ósatt. Á ákveðnum aldri héldu þær að jólasveinninn væri til. Ég tók glaður þátt í þeim blekkingarleik. Þegar við bjuggum í Þingeyjarsýslu sá sú yngri endalausar raðir af tröllum í hrauninu og við keyrðum oft að Dettifossi, sem ég sagði henni að væri baðstaður tröllanna. Ég hef lesið fyrir þær bæði ævintýri og draugasögur. Og svarað spurningum um líf eftir dauðann þannig að annað hvort sofni maður sársaukalausum svefni eða haldi áfram að vera til.

Ég hef aldrei tekið afstöðu til trúmála þegar nemendur mínir eru annarsvegar. Kristin trú gerir börnum og unglingum miklu meira gott en vont. Maður verður ekki heimskari af því að hafa rangt fyrir sér um sumt. Ég hef miklu meiri áhyggjur af börnum sem eru alin upp í ískaldri skynsemi þar sem sannleiksástin er miklum mun sterkari en ástin á furðum og ævintýrum. Það er hluti af uppvextinum að gera uppreisn gegn því sem manni var kennt. Ef ég tryði á hegelska framvindu vitsmunaþroskans eða maóíska trú á átök andstæna, þá myndi ég segja að fólk sé miklu líklegra til andlegra framfara sé það alið upp í ákveðinni villu. Barn, sem er sagt að jólasveinninn sé ekki til strax og það hefur aldur til að skilja slíkan dauðadóm, en fær jafnvel ennþá í skóinn, bara upp á praktísku hlið hlutanna - held ég að fari grandalausara út í heiminn en barnið sem leggur gildrur fyrir sveinka og tekur virkan þátt í að taka hann af lífi sjálft. Ég held það sé líka fordómafyllra.

Uppeldi snýst um lygar að mikilsverðu leyti þótt við reynum flest samvisku okkar vegna að hafa lygarnar hvítar sem oftast eða ljúga með þögninni.

Lykilhlutverk uppalanda er að gera barnið sem hæfast um að taka upplýstar, sjálfstæðar ákvarðanir. Með jafnri áherslu á báða liði. Börn trúleysingja sem neita í hópum að láta ferma sig eru kannski upplýstari en börn trúaðra sem fermast langflest. En er ákvörðunin sjálfstæð?

Brennt barn forðast eldinn og ég þekki fjölmarga trúleysingja sem drifnir eru áfram í andlegri vegferð sinni fyrst og fremst vegna samviskubits yfir að hafa látið fermast til fjár. Hefðu þeir aldrei fermst gæti vel verið að vantaði í þá allt umpf.

Kristinfræðikennsla í skólum er afar gagnleg og þyrfti að vera miklu meiri. Bæði sem þáttur í greinum eins og náttúrufræði og sögu, en líka ein og sér. Argasti trúleysinginn er sammála því. Börn eiga að læra um kristni ekki síður en kynsjúkdóma.

Skólinn þarf líka að vakna og kenna börnum um kaþólskan sið og islam.

Stundum sitja börn frammi á gangi þegar verið er að kenna kristinfræði. Það eru yfirleitt börn fólks í sértrúarsöfnuðum, öðrum trúfélögum eða trúleysingja. Í raun er slík útskúfun algjörlega öfugsnúin. Það er miklu frekar að foreldrar kristinna barna ættu að biðja um að börn þeirra væru undanþegin kristinfræði. Því skólinn getur aldrei tryggt sömu nærgætnina gagnvart trúarbrögðum og lagaramminn krefst.

Þú fræðir ekki börn um strumpatrúna, þar sem hverjum manni fylgir ósýnilegur verndarstrumpur sem krefst enskis í laun annars en að fá að borða einstaka stakan sokk, án þess að einhver segi -oj, asnalegt eða -þetta er heimskulegt. Börn eru ekki ábyrg að sumum lögum.

Það er engin ástæða til að óttast trúarbrögð svona óskaplega. Meira að segja heilaþvegið Byrgisfólk tapar trúnni hraðar en það getur sagt -Ég er dottinn í það aftur. Og það þrátt fyrir að sjá óskaplega eftir henni. Trú gerir fæstum illt og raunar flestum gott. Sé fólki annt um sannleikann og upplýsingu getur því verið mikill fengur að hafa þó trú til að kasta.

Neikvæðir fylgifiskar trúar eru tilkomnir vegna breyskleika og heimsku manna og eru í engu eðlisólíkir öllum öðrum fylgifiskum allra annarra athafna.

Gegn þeim á að berjast.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ja hérna, ..vel skrifað.
Muchas.