3. júlí 2008

„Ég vill...“

Yfirmaður greiningardeildar banka kom í sjónvarp og spáði um framtíðina. Hann byrjaði á að segja „Ég vill...“ Það þykir varla lengur saga til næsta bæjar þótt formælendur bankanna ráði ekki við einföldustu grundvallaratriði íslensks máls. Það hefur komið í ljós að áhafnir íslenskra banka þjást af djúpstæðum, almennum menntunarskorti sem væri hægt að fyrirgefa ef þær væru ofsalega góðar í því að reka banka. En í því eru þær bölvaðir amatörar ef marka má þá sem vit hafa.


Fyrir nokkru opnaði núverandi blaðamaður á Fréttablaðinu vettvang þar sem hægt er að nöldra yfir okri og dýrtíð. Nú er líka hægt að nöldra á prenti. Nöldrinu er nokkur upphefð af því. Það þykir eðlilegt og sjálfsagt að nöldra yfir verði á prenthylkjum, rafhlöðum og tveggja lítra kók. Slíkt nöldur er þó ekkert annað en hrein tímasóun í hinu stóra samhengi hlutanna.


Það er ekki bara málfarið sem er lakt hjá íslensku bönkunum um þessar mundir. Siðferðið er verra.


Í undanfara síðustu kreppu hreinsuðu vanhæfir lánafulltrúar skrifborðin sín með því að ljúga því að fólki að það væri meiri áhætta að kaupa ekki í Decode en að kaupa. Í undanfara þessarar hlupu menn um og otuðu að fólki myntkörfum eins og páskakanínur á amfetamíni. Myntkörfurnar reyndust litlir trójuhestar. Í gegnum þær gat bankinn seilst í peningabuddu eigandans eftir þörfum í framtíðinni.


Fjöldi fólks situr nú með sárt ennið vegna skítlegs eðlis vankunnandi og fégráðugra bankamanna. En það skrifar ekki á okursíður eða í Velvakanda. Það má enginn vita að maður er í kröggum. Peningavandræði eru einhvernveginn alltaf manni sjálfum að kenna. Annað hvort er maður heimskur eða í einhverri óreglu.


Samfélagið er fullt af ófangelsuðum kynferðisbrotamönnum. Þeir ganga lausir vegna þess að fórnarlömbunum þykir skammarlegt að segja frá. Og óþokkarnir kunna að hagnýta sér þetta. Í staðinn fyrir að játa hörmungarnar verða fórnarlömbin þunglynd og skapstygg. Nöldra yfir smámunum.


Á sama hátt kvartar enginn yfir bankanum sínum. Það er svo skammarlegt. En menn tryllast þegar menn sjá að kaupmaðurinn á horninu rukkar 300 krónur fyrir flösku af tómatsósu þegar hægt er að fá hana á íbei fyrir 150.

Engin ummæli: