27. júlí 2008

Leðurblökumaðurinn


Fór að sjá Batman á dögunum. Aðallega til að meta frammistöðu Ledgers sem Gosans. En líka til að sjá hvort rétt væri að hér væri komin besta mynd síðan menn fóru að sneiða brauð.

Myndin er góð. Afar góð. Því handritið er gott. Og leikararnir.

Hún er sam ekki frábær því hvorttveggja er gallað.

Byrjum á leikurunum.

Systir-hans-þarna-sem-lék-í-Jarhead leikur kvenhnossið sem Kata Hólms lék í síðustu mynd. Hún er hvorki nógu sæt né aðlaðandi að öðru leyti til að geta skipt því máli sem hún á að gera. Kata var miklu sætari.

Batman sjálfur er leikinn af leikara sem notað hefur síðustu misserin til að sýna að De Niro er bölvaður amatör þegar kemur að því að vera kvikmynda-kameljón. Afleiðingin er sú að hann fyllir ekki alveg jafn vel út í bungurnar á batman-búningnum og síðast. Það passar þó bara ágætlega við söguþráðinn svo allt um það. Hitt er einkennilegt að velja þennan leikara í klassískt laumuhlutverk þar sem allt sem gæti komið upp um persónuna eru líkamsburðir, munnsvipur og talandi. Við eigum svo að trúa því að enginn í Gotham setji saman tvo og tvo og átti sig á því að smámæltu vöðatröllinn tvö með gogglaga munnana eru einn og sami maðurinn.

Gosi er mjög góður en frammistaðan er of veigalítil til að þola stærra hlutverk. Hann varð vandræðalega einhæfur á köflum. Það er ekki nóg að gjóta augunum endalaust upp til vinstri og smjatta sig í gegn um heila mynd, og reyna að tala eins og Jack Nicholson. Hann fær samt Óskarinn.

Söguþráðurinn er flottur. Hann er risavaxið uppgjör við hið meinta siðferðilega gjaldþrot sem BNA hafa orðið fyrir í forsetatíð Bush. Persónunjósnir, pyntingar, hryðjuverk, fangabúðir – allt er þetta í myndinni – misvel dulbúið.

En myndin er ekki ádeila. Hún nálgast póltíkina með sömu varfærni og ofbeldið. Myndin skyldi leyfð eldri en 12 ára í fleirum en einum skilningi.

Höfundarnir leika sér að eldinum en gæta þess að brenna engan. Hún er epísk dæmisaga þeirra sem vilja trúa á göfugan tilgang með þriðju heimsstyrjöldinni, þeirri sem enn stendur.

Ég er ekki hissa á að Björn Bjarnason fíli batman. Hún er fílgúdd-mynd fyrir hans líka.

Engin ummæli: