15. júlí 2008

Halldór Magnússon og tilvist Guðs


Ég tók fyrir nokkru persónuleikapróf á netinu og reyndist vera INTP. Óli Sindri tók sama próf og var ENTP, sem samkvæmt minni túlkun er næsta þrep í goggunarröð vitsmunanna neðan við INTP (sem er toppurinn). Birkir hefur ekki enn tekið prófið enda með meinloku gagnvart prófum yfirleitt.

Eitt af því sem fylgir INTP-persónuleika er sjúklegur áhugi á eðli og gerð heimsins. Maður hefur meiri áhuga á mannkyni í heild en einstaka manneskjum. Að vissu leyti er það fötlun. En langi mann að vera eðlisfræðingur eða prófessor er ekkert betra í boði.

Ein aukaverkana þessa persónuleika fyrir mig er fullkomin tortryggni gagnvart greiningunni sem slíkri. Önnur aukaverkun er aðdráttarafl röksemdafærslna eins og þessarar um tilvist guðs.

Halldór Magnússon, Mofi, sannar tilvist guðs þannig.

1. Heimskulegt er að trúa því að náttúrulögmálin ein geti framkallað tákn eða mynstur sem virðast fela í sér hugsun.

2. Jafnvel hið einfaldasta í lífríkinu er gríðarlega flókið og risavaxið að burðum þegar það er borið saman við mannanna verk.

3. Hvernig geta náttúrulögmálin framkallað svona flókna hluti þegar þeim er um megn að framkalla þá einföldu?

4. Það er stóra spurningin sem darwinistar verða að svara, en geta ekki svarað.

5. Sköpunarsinnar og darwinistar hafa mismunandi skoðanir á tilurð lífsins. Báðir geta ekki haft rétt fyrir sér. Aðrir hljóta því að hafa rangt fyrir sér en hinir rétt.

6. Hægt er að finna margt í vísindunum sem a) bendir til þess að þau séu vanmáttug um að útskýra þennan uppruna svo fullnægjandi sé og b) bendir til þess að vísindamenn telji glóru í náttúrunni.

Í ljósi 1., 5. og 6. sést að ástæða er til að efast svo mikið um árangur þróunarsinna að rétt er að halda sig við sköpunarsinna.

Það sem stekkur á sæmilega rökvíst fólk við þessa röksemdafærslu er stóri, stóri gallinn í skrefi 5. Hann einn gerir allt sem á eftir kemur marklaust. En geymum það og skoðum hvert skref fyrir sig.

1. Þótt það virðist í fljótu bragði heimskulegt að telja að hending geti raðað seríóshringjum þannig að þeir myndi skilaboð eða rist upphafsstafi elskenda í tré þá er auðvelt að finna hendingar út um allt sem gætu virkað sem merki um hugsun.

Fátt er tilviljanakenndara en pí með öllum sínum aukastöfum. Þrátt fyrir að reglu hafi verið leitað þá finnst hún ekki. Talan er óræð. Samt kemur símanúmerið mitt fram í henni. Ef þú ferð að 2.227.934. aukastaf þá finnurðu símanúmerið mitt. Þú þarft ekki að fara lengra inn í pí en 13.768 aukastafi til að finna töluna 59.787 sem í alþjóðlegu símnúmerakerfi stendur fyrir JESUS. Ef þú ferð aftur að aukastaf númer 30.422.235 finnur þú rununa 76.663.463, eða SON OF GOD. Við aukastaf nr. 11.581.553 birtist nafnið DAWKINS og rétt áður en kemur að aukastaf númer 300.000 þá færðu SATAN. ICELAND kemur líka fyrir sem og allt annað sem er nógu stutt.

Það er því ekkert mál að finna fyrirbæri og finna þar með góðum vilja vísbendingar um hugsun sem þó er ekki til staðar ef betur er að gáð. Eitt af því mikilvægasta í vísindum er að vera ekki of ginnkeyptur fyrir slíkum sannindamerkjum.

Vísindi snúast um að finna merki um hið raunverulega gangverk náttúrunnar. Þau merki eru oftast grófar nálganir, eins og formúlan ((M x m) x G) / r x r sem Newton taldi að lýsti aðdráttaraflinu.


2. Þótt það geti kostað húsfylli af bókum að lýsa amöbu svo vel sé þá er ekki þar með sagt að hugverk manna eins og þróunarkenningin muni aldrei geta fundið grundvallaratriði í skapnaði amaba. Trúaður maður getur enda ekki haldið neinu slíku fram á sama tíma og hann leitast við útskýra veröldina alla með einni einustu bók.


3. Hér er grundvallar rök- og hugsunarvilla á ferð. Náttúran er undursamleg, mannanna verk eru vesæl. Náttúrulögmálin geta ekki einu sinni stælt mannanna verk, hví ættu þau að geta framkallað undur náttúrunnar?

Til að byrja með þá gera vísindin engan stigsmun á mannanna verkum og náttúrunni. Allt er ofurselt sömu reglunum. Þú getur eins sagt að til sé sérstakur flokkur náttúrulögmála sem býr til blóm og annar sem býr til steina. Og þar sem lögmálin sem búa til steina geti ekki búið til blóm þá séu steinar augljóslega ófullkomnari. Það er ekkert vit í því.

Þessi punktur snýst um sköpun. Menn geta skapað. En þeir geta ekki skapað náttúruna eins og hún er og náttúran virðist ekki stæla sköpunarverk manna.

Þó getur náttúran vissulega stælt sköpunarverk manna, sbr. 1 hér að ofan. En þó gerist það nógu sjaldan til að hægt sé að tala um sjálfstæða sköpunargáfu manna. Allir vísindamenn vita þó að sköpunargáfa manna er vafasamt hugtak til að byrja með og alls ekki neinn upphafspunktur í vísindalegri umræðu. Sköpunargáfan er í grunninn ekkert annað en náttúrulögmálin þrungin þeirri merkingu sem menn geta gefið lífi sínu og sem þeim hættir til að lesa of mikið í. Hún er eins og skýjaborg, sem í raun er ekki annað en borg á fjallstoppi í þoku. Íbúarnir reyna sumir að ímynda sér að þeir standi ekki á fjallinu heldur skýinu. Af því þeir sjá ekki fjallið, bara skýið. En svo ganga þeir út í borgarjaðarinn og sjá grilla í dökkt undirlagið. Listir og öll sköpun þekkir þennan jaðar vel. Þar sem menn hætta að geta trúað í einlægni að um sköpun sé að ræða heldur eingöngu hefðbundna framvindu viðburðanna. Þessi jaðar er oft á tíðum frjóasti angi listaheimsins. Eitt slíkt verk gæti verið að ég setti upp gegnsæjan ramma utan um Geysi og skrifaði nafnið mitt niðri í hornið á hverri höfuðátt.


4. Darwinistar geta vissulega svarað þessari spurningu en svarið er langt, tæknilegat og leiðinlegt. Og spurningin er ekkert grundvallaratriði í líffræði. Hún er hálfgert pönk manna sem vilja skekkja sjónarhornið. Hún er eins og skýjaborgaríbúar að spyrja: Af hverju segir þú okkur búa á fjalli þegar við sjáum bara gufu? Sumar einfaldar spurningar krefjast langra svara og stundum eru svörin ofvaxin skilningi spyrjandans. Ertu hættur að berja börnin þín, já eða nei? er eins spurning, hverrar ígildi margir spyrja sem ekki hafa burði til að skilja skynsamleg svör við henni.


5. Þessi fullyrðing er fráleit. Og dauðagildra fyrir trúaðan mann. Henni má snúa á alla kanta og segja t.d. að múslimar og bahæjar hafi mismunandi skilning á eilífðarmálunum. Þannig hljóti annaðhvort íslam eða bahæjatrú að vera rétt.


6. Það er rétt að náttúran er flókin og lífríkið gríðarlega flókið. Þróunarsinnar leita að einföldum reglum sem geta útskýrt þetta flókna fyrirkomulag. Það gera trúaðir líka. Munurinn er á því, hvaða reglur eru teknar gildar.

Vísindin setja fram reglur sem verða að uppfylla þau skilyrði að geta vikið ef þær standast ekki. Trúarbrögðin setja fram reglur sem erfitt eða ómögulegt er að afsanna. Af og til blandast þessi mannanna verk eins og allt annað í mannlífinu. Stundum fara trúarbrögðin að fikta í vísindum og öfugt.


Það sem vantar í grein Halldórs er að hann geri það sem hann lagði upp með. Fyrirsögnin er: „Sönnun fyrir tilvist Guðs“. Hann reynir ekki einu sinni að sanna hana. Greinin er um hve vísindin eigi erfitt uppdráttar auk hugleiðinga um gagnvirki náttúrunnar almennt. Hann gefur sér, eins og margir trúaðir, að trúin á Jesú og allt sem honum tengist sé eins og kuðungur sem aðrir þurfa að toga mann út úr. Inni í þessum kuðungi er hlýtt og notalegt en vandinn verður að maður kemst ógnarhægt yfir og skríður aðeins um á láglendinu í stað þess að reyna að komast ógreiðfæru og upp á tinda.

Síðan situr Halldór inni í kuðungnum sínum og bendir á ýmsar raunverulegar og ímyndaðar hrakfarir fólksins í kringum sig. Segir: „Sjáið þennan, honum er kalt?“ eða „Þessi datt.“ Og skilur ekki að sumir vilja hreinlega frekar vera kalt en hlýtt ef hlýindin kosta slíkt ok sem kuðungurinn er og að sumir vilja frekar hrapa til bana við að reyna en að sitja í andlegum hægindum allt sitt líf.

Hér með er skorað á Halldór að ganga alla leið og gera það sem hann ætlaði sér. Sanna tilvist Guðs án þess að tala um darwinista. Enda ættu þeir og brestir þeirra ekki að koma málinu við.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á ekkert að fara að þruma inn spurningu ???

Júlli sagði...

Þegar þú minnist á þennan "mofa" fæ ég hroll. Ég er mikið á mbl.is og mitt mat er að gaurinn gengur ekki á öllum.

Skil ekki guðafólk(marga). Þurfa að reyna að troða trúnni á fólk á meðan okkur sem trúum afar littlu nema kannski þeim staðreyndum sem blasa við okkur viljum ekkert láta troða þessu á okkur.

Ef guð er í raun til af hverju þarf þá að vera að tönglast á honum sí og æ.
Eru trúarfólk ekki bara með áhyggjur af þessu öllu saman enda ekki snefill, ekki ein sönnun til um það að biblían sé sönn. Fyrir mér er hún eitt merkasta skáldrit sögunar og sá sem samdi hann er sennilega búinn að endurfæðast milljón sinnum en deyr jafnan úr hlátri yfir því hvað hann hefur blekkt marga. Hahaha.

Segi svona! Langaði bara að koma inná þetta ;)