12. júní 2008

Svartstakkar og -hausar

Meinhornið í mér hafði gaman af Svarthöfða í prestalestinni. Smáborgarinn í mér var ekki eins hrifinn, fannst þetta óþroskað og óþarft. Vitsmunaverunni mér tókst að kveða smáborgarann í kútinn með því að þetta væri eftir allt saman ógalið andóf. Það er raunar heilmikil glóra í gjörningnum.

Bloggið er búið að afhjúpa trúmálaumræðu landans sem það sem hún er. Kjarninn í umræðunni er eins og ókaraður og vaselínsmurður selkópur sem kjaftaskar í líki hrumra og gigtveikra ísbjarna reyna árangurslaust að festa hramm á. Mörklattinn, kópurinn, skýst og skoppast um svellið þvert og endilangt undan fálmkenndum en þeim mun ákafari sóknum bjarnanna.

Ég hef t.a.m. fylgst með töluverðri kátínu á viðureign trójuhestanna Stefáns og Teits. Sú deila er skemmtileg fyrir þær sakir að báðir eru flugumenn í vígi hins. Dálítið dularfullir kónar sem stunda skæruhernaði á milli stofa í aðalbyggingu Háskólans. Annar dregur guð inn í vistarverur heimspekinganna og hinn gerir sitt besta til að klára það sem Nietzsche byrjaði á guðfræðimegin.

Sú deila varð mjög harðvítug og snérist á endanum um smáatriði. Að hve miklu leyti Teitur hefði orðið meðvirkur í helgisiðum og húllumhæi guðfræðinema og hvort Teitur hafi viljað gera partísnittur úr brauði handa börnum í Bíafra.

Deila Bjarna Harðarsonar og Vantrúar er önnur álíka vitleysa. Vantrú hefur aldrei lagst gegn trúfræðslu í skólum og mun aldrei gera það því vegurinn til trúleysis er lýstur upp af þekkingu á trúarbrögðum. Það sem Vantrú var að mótmæla var sú hugmynd að skólastarf ætti að vera í kristnum anda. Í fyrsta lagi vegna þess að í skóla á fólk að vera í skjóli frá trúaráróðri en einnig vegna þess að sá almenni, góði og kærleiksríki andi, sem trúmenn kalla kristilegan, hefur álíka mikið með Krist að gera og Hekla hefur með fegurð að gera. Þetta eru stök í sama mengi en ekki mengið sjálft.

Inn í deiluna við Bjarna rataði frændgarður þingmannsins (þó ekki Harpa, sem komin er í langþráð netstraff) og þar tók Máni Atlason nokkuð hressilega atskák við guðleysingjana og hafði næstum betur.

Máni benti réttilega á að rökvísi er dálítið ófrjór hluti mannskapnaðarins. Sumt sé hreinlega ekki hægt að styðja með rökum. Litlir sókratesar geti þess vegna alltaf beygt hvern sem er í duftið með því að þráspyrja.

Elskarðu konuna þína?
Já.
Hvers vegna?
Því hún er bæði góð og falleg.
Myndirðu elska hana áfram ef hún yrði ljót í slysi?
Já.
Hvers vegna?
Hún er falleg að innan sem utan.
Myndirðu elska hana ef hún fengi ljótt krabbamein í ristilinn?
Já.
Hvers vegna?
Því hún er falleg í anda og það er andinn sem ég elska.
Myndirðu elska hana ef hún yrði geðveik - og vond?
Já.
Hvers vegna?
Því ég elska hana, sama hvað kemur fyrir hana?
Hvers vegna elskarðu hana?
Ég er búinn að segja það.
Nei, ég meina, hvers vegna hana? En ekki einhverja aðra nú eða karl?
Svona er ég bara gerður.
Hvað er ást?
Það er kærleikur gagnvart annarri manneskju.
Hvað er kærleikur?
Að vilja öðrum vel.
Hvers vegna vill maður öðrum vel?
Það er hluti af skapgerð manna.
Hvernig þá?
Okkur líður vel við að sjá öðrum líða vel, hugsa ég.
Hvað lætur okkur líða vel?
Efnaboð frá kirtlum í líkamanum mestmegnis.
Hvernig þá?


Og það er sama hve lipur maður er að svara, á endanum er ekki hægt að rökstyðja ást eða nokkuð annað. Það er hægt að útskýra hana niður í smáatriði en á endanum vantar alltaf lokaorsakasamhengið. Hume benti á þetta fyrir löngu.

Þannig má rökræða allt niður í óvissuna.

Og þannig sjá margir trúaðir (og stríðnir) vantrúaða. Sem villuráfandi sauði á lendum rökvísinnar sem eru svo eitraðir að grasið sölnar undir fótum þeirra og ský dregur fyrir sólu.

Brandarinn er síðan sá að trúleysingjar eru upp til hópa bæði rómantískar og hrifnæmar sálir, sem láta heillast af fótboltaliðum, matargerð og fegurð - allt án þess að geta rökstutt það.

Og þeir heillast af málstað trúleysisins. Og geta ekki rökstutt það.

Þar með halda margir trúaðir að þeir séu búnir að nappa trúleysingjana í gildru. Þeir trúi víst. Trúi á trúleysi, fótbolta, vín og víf.

Og það er rétt. Allt líf sem öðlast tilgang batnar með trú á þann tilgang. Það trúa því allir heilsteyptir menn.

Þar með er þó að sjálfsögðu ekki sagt að rétt sé að trúa hverju sem er. Og trúarbrögð, t.a.m. kristni, er langt frá því að vera hafin yfir rök. Hún þykist ekki einu sinni vera það. Hún snýst um rök. Rök sem sumum þykja góð en önnur vond.

Þú átt Jesú skuld að gjalda því hann fórnaði sér fyrir syndir þínar. Þetta er röksemdafærsla. Ef þú ekki hlýðir verður þú grillaður á teini í víti, svo það er hollara fyrir þig að hlýða. Þetta er líka röksemdafærsla. Eina leiðin til að tryggja tilvist skylduboða (þ.e. setninga sem byrja á „Þú skalt...“) er tilvist Guðs. Allt eru þetta röksemdir. Og þær eru allar vafasamar.

Þörfin á trú gerir góð rök örlítið lélegri. Hún gerir ekki léleg rök góð.

Í því felst stóri misskilningur margra trúaðra.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að trúa á fótbolta? það vantar íslenskt orð yfir "belive".
Faith og belive er ekki það sama tel ég.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég á bróður sem trúir á Liverpool - þrátt fyrir að hafa enga raunverulega trú á árangri á stundum.

Fótbolti er trúarbrögð.

Nafnlaus sagði...

Enda fullkomnlega eðlilegt að "trúa" á fótbolta. Hann er svo sannarlega til staðar. Því sem ég vildi koma fram er munurinn á belive og faith.
Hinsvegar er það stórfurðulegt að trúa á liverpool hvað sem tautar og raular. Ég held að bróðir þinn "voni" á liverpool, eins og einn af ykkar slekti kom skemmtilega með fram einhverntímann.
Góð heimildarvinna ha?

Teitur Atlason sagði...

Sælir góðu menn. Ég átta mig ekki alveg á hvor ég er.

>Annar dregur guð inn í vistarverur heimspekinganna og hinn gerir sitt besta til að klára það sem Nietzsche byrjaði á guðfræðimegin.

Er ég að draga guð inn í vistarverur heimsp, eða er ég sá sem gerir sitt besta til að klára þar sem N byrjaði á guðfærðimegin?

Teitur

Teitur Atlason sagði...

http://teitur-teitur.blogspot.com/2008/06/maurildismenn.html