30. júní 2008

Bankar, krónan og fjölmiðlar.


Það er undiralda í samfélaginu. Stigvaxandi streita einkennir opinbera umræðu. Einn fylgifiskur þess er að það vantar sárlega alla festu í umfjöllun fjölmiðla, jafnvel um stór mál.

Sú aldagamla hefð á íslenskum bæjum að draga blæju yfir raunverulegt heimilislíf þegar gesti bar að garði var dressuð upp sem dyggð og kölluð gestrisni. Hún var auðvitað ekkert annað en mild gerð af hræsni. Um leið og gesturinn var farinn hélt bóndinn áfram að berja niðursetninginn og misnota dætur sínar. Kannski varð það síðan á allra vitorði í sveitinni en, þar sem það var aðeins fjálglega rætt undir hræsnisblæjunni, sagði aldrei neinn neitt opinberlega. Hvað þá kom á staðinn og stakk á kýlið.

Nú ganga fjöllum hærri kjaftasögur um einkalíf eins ráðherra ríkisstjórnarinnar. Sögurnar eru þess eðlis að ef þær eru sannar væru þær löngu komnar upp á yfirborðið í fjölmiðlum annarra landa, ef þær eru lognar eru þær til marks um eitthvað miklu verra en að berja niðursetninga undir huliðnshjálmi.

Í dag er dygðin gestrisni dauð. Hún klofnaði í tvö undirhugtök, virðingu fyrir einkalífinu og kappsfullan meting. Við bjóðum nú fólki heim, annað hvort til að eiga með þeim frímúrarlegt einkasamkvæði eða til að hreykja okkur af nýjustu græjunum.

Stærsti hluti Íslendinga skuldar einum eða fleirum af þremur bönkum sem nemur tveimur vinnudögum í viku næstu áratugina. Nú bendir allt til þess að bankarnir skirrist ekki við að fjölga þessum dögum í þrjá til að geta hreykt sér framan í vini sína í fjármálafrímúraraheiminum.
Bankarnir virðast ekki hika við að beita óvönduðum meðölum í þessari viðleitni sinni. Á kontórum bankanna sitja menn við stóra glugga með útsýni yfir þrælana sem hökta upp sísifossarfjallið með grjótið. Þegar gestir koma á kontórinn segja bankastjórarnir sposkir: „Sjáið hvað ég get gert.“ og með einni handarbendingu eru svipurakkar búnir að skipta steinunum út fyrir stærri steina. „Sjáið hvað ég er voldugur.“ Segir jakkafataláfurinn og trúir því pínulítið sjálfur. Allt í kringum hann eru koffeinhæpuð handbendi sem klappa og klæða sig í boli sem á stendur „2 tonn“ – það er hlassið fyrirheitna.

Daginn sem feitasta bankarottan fréttir að Rauði krossinn sé væntanlegur með ókeypis matarpakka handa þrælunum , tæmir hann birgðalagerinn af gömlum matvörum og selur þrælunum. Lætur síðan sem það sé tilviljun hve margir eru saddir þegar krossinn mætir á svæðið.

Bankarnir eiga að heita í samkeppni en kjósa af einhverjum ástæðum að eiga saman samtök þar sem þeir hittast og bera saman bækur sínar.

Þrælarnir hafa tvö ráð. Annað er að hætta að striti fyrir bankana. Ef nógu margir gera það hljóta þeir að rúlla yfirum. Það er vond hugmynd en einhver hluti örvæntingarfullra gæti hrifist af henni. Hin hugmyndin er svo augljós að hún hlýtur að koma til álita.

Bankarnir eru búnir að kafsökkva krónunni. Þeir sitja á henni á sínum feitu rössum rétt á meðan þeir þurfa á því að halda. Krónan getur ekki annað en skoppað upp aftur.

Nú þurfa góðir menn að benda erlendum aðilum á stöðuna. Síðan þurfa erlendir bankar að opna hérna útibú. Þrælarnir færa veðin sín yfir á erlendu bankanna, borga upp lánin hjá rottunum og fylgjast síðan með krónunni hækka og greiðslubyrðinni lækka. Gjaldeyrir kæmi inn í landið.
Eins og stemmningin er orðin væri vopnunum kippt úr höndunum á rottunum á nokkrum dögum. Krónunni væri kippt undan rössunum á þeim og þær þyrftu að synda í land. Þá kemur sér vel að rottur eru næstum jafn góð sunddýr og ísbirnir.

5 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þetta mætti líklega kalla kjaftasögu um að í gangi sé kjaftasaga.

Nafnlaus sagði...

Hvaða kjaftasaga? Ekki hef ég heyrt neina kjaftasögu ... þannig að varla gengur hún fjöllunum hærra.

Nafnlaus sagði...

Eitt örstutt augnablik þegar ég sá myndina á Google Reader hélt ég að þetta væri færsla frá Nönnu Rögnvaldardóttur.

Herra Jón sagði...

Eitt orð - Heyr

Nafnlaus sagði...

parf ad athuga:)