Það er hart í ári hjá fleirum en verðbréfplebbunum. Nú þegar það er búinn að vera stanslaus snjór og viðbjóður hérna fyrir norðan í 37 mánuði, þá finna smáfuglarnir eflaust fyrir því að það er erfiðara að sjá sér fyrir farborða, en yfir sumarmánuðina. Á meðan bankabubbarnir verða að láta sér nægja V.S.O.P koníak í stað X.O, og geta bara farið einu sinni á dag út að borða, þá verða smáfuglarnir að treysta á að við gefum þeim í svanginn,eða éta úr rassgatinu á sér ella.
Þar sem ég er nú hjartahlýr með afbrigðum, og þar af leiðandi ólíkur bræðrum mínum að hvað það varðar, þá hef ég stundum keypt fuglafóður í Bónus til að gleðja þessi litlu kríli. Fyrir stuttu síðan fórum ég og sonur minn svo út í garð og gáfum fuglunum úr tveimur heilum pokum. Eftir að hafa haldið langa ræðu yfir syni mínum um mikilvægi þess að hjálpa þessum greyjum, og að hann þyrfti alltaf að hugsa um þá sem minna mega sín, þá sturtuðum við þessum 2kílóum ofan á snjóinn. Af einskærri góðmennsku þá ákvað ég að dreyfa lítið úr þessu, svo greyjin þyrftu ekki að skakklappast um alla lóðina til að leita að nokkrum kornum.
Síðan þetta gerðist eru liðnar rúmar 3 vikur og snjórinn að mestu farinn. Helvítis fiðurfénaðurinn hefur hinsvegar ekki snert við korninu og ég sé ekki fram á annað en að þrufa að þrífa þennan andskotans óþrifnað upp aftur !! Hver vill vera með tveggja kílóa, hálffrosna kornhrúgu fyrir utan dyrnar hjá sér, svo mánuðum skiptir ? Á hverjum morgni, áður en haldið er í leikskólan, spyr sonur minn sömu spurninganna; afhverju vilja fuglarnir ekki matinn sinn ? Afhverju borða þeir þetta ekki...finnst þeim þetta ekki gott ?
Næst þegar ég fæ þessa spurningu, þá ætla ég ekki að draga neitt undan og slengja framan í barnið bláköldum sannleikanum; þetta eru viðbjóðslegar og vanþakklátar skeppnur sem eiga það ekki einu sinni skilið að þeim sé gefið að éta !
Ef þær vilja frekar frjósa í hel og drepast úr hungri í næsta garði, þá geta þeir bara átt sig.
Ég ætla að kenna syni mínum að fara vel með peningana sína, og ekki að eyða honum í svona vitleysu. Að hugsa um smáfuglana, er voðalega fallegt, en viðskiptalega séð, þá ætla ég að leggja það til við hann að hann láti sér nægja að HUGSA bara um þá..ekki eyða í þá.
p.s: á morgun ætlum við að fara og gefa öndunum brauð, og sparka í hesta.
2 ummæli:
Snilldar póstur
Góður Birkir !
kveða frá DK þar sem snjóar núna
Friðrik
Skrifa ummæli