Þegar einhver einstaklingur eða einkafyrirtæki fara í framkvæmdir og fá tilboð í verkið, reyna menn yfirleitt að standa við gerða samninga, að sjálfsögðu geta komið upp ófyrirséð atriði sem hugsanlega hækka kostnaðinn og eru þá svokölluð „aukaverk“, en að það skuli aldrei vera hægt að byggja eða kaupa neitt fyrir opinbert fé, án þess að kostnaðurinn rjúki upp úr öllu valdi og jafnvel tvöfaldist, eða meira, frá upphaflegum áætlunum.
Þetta gerist þrátt fyrir að; það sé búið að gera samninga um verkið, það hafi verið skipuð nefnd eða jafnvel nefndir, sérstaklega til að fylgjast með að allt gangi eðlilega fyrir sig, það hafi verið ráðnir sérstakir eftirlitsaðilar til að gæta hagsmuna hins opinbera, það eru yfirmenn stofnana sem eiga að halda utan um framkvæmdir og verkefni sinna stofnana, og gæta þess að vera innan fjárhagsáætlunar.
Hver á eiginlega að passa þetta í raun? Það er byggt og byggt, keypt og keypt, við borgum og borgum og öllum er alveg skítsama, RÍKIÐ BORGAR bara og enginn ber ábyrgð á neinu.
Er ekki alveg eins gott að sleppa bara öllum þessum nefndum og eftirlitsmönnum og hvað þetta heitir nú allt ? Hringja bara í næsta verktaka og biðja hann að byggja það sem okkur vantar, svo kemur hann bara með reikninginn; 1 stk. Skóli, 1 stk. Ferja, 1 stk. Stúka, 1 stk. Orkuveituhús, osfrv. Verðið er aukaatriði.
Það virðist nefnilega ekki skipta nokkru máli hvað samið er um í upphafi, eða hve margir sjá um að fylgjast með verkinu, þetta endar alltaf í tómu rugli, aftur og aftur.
Annaðhvort eru eintómir vitleysingar sem annast þetta fyrir okkur, eða þeim er alveg nákvæmlega sama. Hvor sem ástæðan er þá er þetta auðvitað löngu orðið nóg, menn verða einfaldlega að breyta þessu.
Það væri afskaplega þægilegt, bæði fyrir heimilisrekstur og rekstur einkafyrirtækja, ef menn gætu byggt og keypt allt sem þá langar í, án þess að hafa nokkrar áhyggjur af kostnaðinum, það kemur bara einhver annar og reddar því.
Nei, þessi andskotans vitleysa og kæruleysi, gengur bara ekki lengur. Eða hvað?
Ólafur Ragnar Hilmarsson
2 ummæli:
Já,en var þetta ekki svona VIP-stúka?
Ég meina: VIP!
Jú,,,, auðvitað, ég sé það núna, þá er þetta allt í lagi, fyrirgefið.
Skrifa ummæli