21. febrúar 2008

Vísir.is

Það vakti athygli mína þegar ritstjórauppstokkanir urðu hjá 365 hvað Vísir.is virtist ferskur á eftir. Mikilvægar fréttir birtust fyrst þar ítrekað og þeir sögðu t.d. frá síðustu borgarstjóraskiptum áður en Dagur Bé vissi af þeim.

Ég skil þó ekki fréttamatið sem felst í því að hundelta barnaníðingsræfilinn Ágúst Magnússon um allar trissur.Ég veit ekki hvað þetta vefræna öklaband sem Vísir er orðinn Magnúsi mun eiga að áorka. vafalaust telja Vísismenn að sannað sé að Ágúst sé hættulegur börnum og líklegur til að taka upp þráðinn.

Það má vel vera að Ágúst eigi enn erfitt með að hemja barnagirnd sína. En eigi hann einhvern möguleika á endurhæfingu þarf hann að fá olnbogarými og aðstoð sérfræðinga. Einelti, eins og það sem Vísir stundar, getur gert vafasama menn enn hættulegri. Vísismenn eru einfaldlega krossfararpapparazzar.

Þetta hlýtur að vekja spurningar um rétt manna til einkalífs. Mér vitandi hefur Ágúst þegar tapað ákveðnum rétti til þess. Hann má ekki eitt og annað – eins og tíðkast um menn á reynslulausn. En grundvallarréttindi hans eru þó þau sömu og annarra.

Hvernig tækjum við því ef t.a.m. sturlaður fyrrverandi eiginmaður tæki upp á því að elta fyrrum eiginkonu sína á röndum. Fólk gæti farið á síðuna www.hvareranna.is og fengið rauntímaupplýsingar um ferðir konunnar. Hann tæki myndir af bílnum hennar, segði frá því að hún hefði hitt Stínu vinkonu frá 13:45 til 15:40 og síðan farið í sund til hálf sex. Nú væri hún heima á Brávallagötu 23 og nýbúinn að taka á móti Dominos-pítsu.

Ég veit ekki hvort slíkt athæfi væri ólöglegt. En mér finnst það ætti að vera það. Og líka í tilfelli fyrrum glæpamanna. Ef talin er sérstök ástæða til að vara við mönnum eins og Ágústi á hið opinbera að gera það eftir formlegum leiðum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er gott framtak af vísi að láta vita hvar maðurinn er staddur. Ágúst Magnússon hefur fyrirgert rétti sínum til einkalífs að mínu mati.

Hugmyndin um Önnu síðuna er góð hjá þér. Nema að það mætti halda svoleiðis síðu úti um hvar barnaníðingar væru staddir svo það væri hægt að vera á staðnum og taka í lurginn á þeim.

Endurhæfingu, er Ágúst nokkuð byrjaður í henni, er hann ekki í Hringferð um landið (samkvæmt Vísi)

Nafnlaus sagði...

Er rétt að kalla manninn ræfil? Eins og hann sé í raun bara eitthvert karlgrey, róni? Nei! Köllum hann það sem hann er, níðingur barna og kynferðisafbrotamaður.
Refsingar eru í raun ákveðin útrás fyrir hefnigirni og ekki er laust við að sú tilfinning geri vart við sig þegar níðst er á börnum. Að ekki sé nú talað um ef maður ímyndar sér í eitt augnablik að það væru nú manns eigin börn.
Hvaða formlegu leið hins opinbera mælir þú svo með eiginlega? Birting í lögbirtingarblaðinu kannski?
Og þú talar um hann sem fyrrum glæpamann, af hverju? Af því hann hefur afplánað refsivistina? Hann er ekki minni glæpamaður fyrir það, eða hvað?
Vangaveltur mínar í fljótu bragði

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála pistlahöfundi að þessu sinni, og finnst bæði kommentin hér að ofan svo fáránleg að ég hefði frekar trúað því að þau hefðu verið skrifuð inná barnaland.is en hér.

"Refsingar eru í raun ákveðin útrás fyrir hefnigirni og ekki er laust við að sú tilfinning geri vart við sig þegar níðst er á börnum."

Refsingar hafa ekkert með hefnigirni að gera á Íslandi. Við erum löngu búin að gera upp við okkur að refsivist eigi að vera leið til betrunnar,ekki hefnd eins og þú vilt kalla það.

"Að ekki sé nú talað um ef maður ímyndar sér í eitt augnablik að það væru nú manns eigin börn."

Sem betur fer þá getur réttarkerfið ekki leyft sér að hugsa svona. Auðvitað vill enginn að svona komi fyrir börnin manns, en umræðuefnið er ekki hvernig eigi að taka á þeim vandamálum sem þetta skilur eftir sig gagnvart þolendunum...umræðuefnið er gerandinn í þessu máli, og hvernig á að taka á þeim vandamálum sem eru til staðar þar. Framdi maðurinn svo hræðilegan glæp, að hann eigi aldrei afturkvæmt út í þjóðfélagið ? Ef svarið er já, þá átti bara aldrei að hleypa honum úr fangelsi...ef svarið er á þann veg að hann geti einhvern tímann átt afturkvæmt út í þjóðfélagið, þá verður að gefa manninum séns á því að fóta sig þar.

Afhverju heldur nr#1 að hann sé á "hringferð um landið" ? Flótti kanski ??
Það er alveg rétt að það er á könnu hins opinbera að hafa eftirlit með svona mönnum, en ekki fréttablaðsins eða Vísis.is ! Það er fátt annað svaravert í þessum kommentum hér að ofan.
Svo er þjóðráð að setja a.m.k stafina sína fyrir neðan þessi nafnlausu komment, svo maður geti í það minnsta greint þau í sundur,þó svo að menn vilji ekki skrifa undir nafni.
kv, Bóla

Nafnlaus sagði...

Láttu ekki eins og krakki Bóla og verða reiður þegar menn velta fyrir sér hinu og þessu, eins og réttilega var skrifað undir í lok pistilsins. Barnalandsgagnrínin þín er líka þreytt og til þess fallin að koma í veg fyrir mögulegar og líflegar umræður, ekki rifrildi.
Hvað varðar refsingar þá er það nú einu sinni svo að víst eru þær ákveðin útrás hefnigirninnar. Samfélagið krefst þess að tekið sé þannig á málum og því er til þessi fangelsisvist. Að tala um betrun eru fátækleg rök enda sjaldséð hjá þeim sem eiga afturkvæmt í samfélagið, ekki skoðun heldur mælanleg staðreynd.
Þá er einnig grundvallarréttur rétturinn til tjáningar. Hitt er svo annað að menn bera ábyrgð á orðum sínum og hafa verið dregnir til hennar, skemmst frá Bubbamálinu að segja. "Bubbi fallinn"
fyrirsögnin.
Bóla það er rétt, réttarkerfið getur ekki leyft sér að hugsa svona, enda er það ekki réttarkerfið sem þarna eltir Ágúst heldur fjölmiðill. Fjölmiðillinn verður sjálfur dreginn til ábyrgðar ef hann gerist saknæmur um brot gegn grundvallarréttum Ágústs.
kv. Rostungur

Nafnlaus sagði...

það skildi þó ekki vera að upplýsingar í visi séu ekki alltaf réttar og varhugavert að fara eftir þeim. Staðreyndir sem eru farnar vittlaust með. Skildi ekki vera að maðurinn hafi ekki húsnæði til að eiga heima í. Allir sem brjóta af sér eiga rétt á því að fóta sig í samfélaginu, og er ekki maðurinn undir eftirliti fangelsismálastjórn. Það á þá ekki að hleypa mönnum út aftur en þá verða þeir að byggja fleiri fangelsi ef við ætlum að loka alla til eilifar inni.