Ég var staddur í teiti í fyrirtækinu sem ég vinn hjá sl. laugardagskvöld. Það var allt saman mjög fínt (lengst af), flestir skemmtu sér mjög vel og allir frekar hressir og ánægðir með skemmtunina.
Hjá fyrirtækinu vinna nokkrir einstaklingar ættaðir frá öðrum löndum — þeirra á meðal nokkrir Pólverjar. Ég er nú ekki sterkur í pólskunni, en kann að segja t.d. „góðan dag” og „skál” á pólsku. En það er eitt orð sem ég heyri Pólverjana segja nokkuð oft — meira að segja oft á dag suma daga — það er „kurva”. Ég hef aldrei vitað hvað það þýðir nákvæmlega en virtist það vera svona svipað og er við segjum t.d. „helvítis” eða „fjandinn” eða eitthvað í þá áttina. Sem sagt ekkert mjög skítlegt á íslenskan mælikvarða.
En sem sagt aftur á skemmtunina — stemmningin fín og allt að gerast, ég að skjóta inn smá gríni og svona, eins og gengur, búinn að skála við Pólverjana og konurnar þeirra, allt í góðum gír. Þá dúndra ég inn einu gríni og segi (rétt svona til að sýna kunnáttu mína í útlensku): „KURVA, KURVA, KURVA!” Ég hafði varla sleppt orðunum þegar allar pólsku konurnar ruku á fætur, gripu með sér allt lauslegt sem þær höfðu haft meðferðis á staðinn og strunsuðu á braut, bara beina leið út. Mennirnir þeirra máttu hafa sig alla við að fylgja þeim eftir. Fyrst hélt ég að þau væru svona „stabíl” — vera komin heim kl. 02:00, búin að hringja á bíl eða eitthvað svoleiðis. En svo kom annað á daginn, þetta skemmtilega orð (kurva), sem pólsku karlarnir nota daginn út og daginn inn, má bara alls ekki heyrast í návist kvenna. Aldrei hefði mér dottið það í hug, enda ekki vanur að þurfa að halda eitthvað sérstaklega aftur af mér í að bölva þó konur séu á vettvangi. Auk þess þekki ég margar konur sem bölva miklu meira en ég.
Meiningin var alls ekki að móðga neinn, en ég sá svo í gær (sunnudag) að ég hefði betur horft á Laugardagslögin á laugardaginn, því þar fór Jón Gnarr á kostum eins og fyrri daginn, og sagði, meðal annars, frá þessu tiltekna orði og hvað það þýðir. Sem sagt: kurva þýðir hóra. Ef ég hefði sagt „hóra, hóra, hóra,” bara svona út í loftið án þess að beina því til neinnar sérstakrar, efast ég um að íslensku konurnar á staðnum hefðu rokið út stórmóðgaðar, eða hvað?
Þetta var hálf vandræðalegt, en þeir sem eftir voru á staðnum voru fljótir að komast yfir það, og margir höfðu orð á því að þetta væri stórsniðug aðferð til að rýma staði sem væru fullir af Pólverjum.
Ég er mættur til vinnu og um fátt annað rætt en skemmtiatriði mitt fyrir Pólverjana. Þeir hins vegar, þ.e. Pólverjarnir, líta mig hornauga og eru skrítnir á svip — eða kannski held ég það bara, þeir eru kannski bara alltaf svona á svipinn.
Hafi ég móðgað einhvern þykir mér það leitt, en mér heyrist nú helst að flestir geri bara grín að þessu.
Þetta segir manni að það er eins gott að horfa á Laugardagslögin á réttum tíma.
Ólafur Ragnar Hilmarsson
1 ummæli:
Einu sinni var ég að monta mig við Pólverja yfir því hvað ég kynni að mikið í pólsku og sagði meðal annars Kúrva. Hann varð frekar spenntur og spurði á móti: "How much?"
Skrifa ummæli