13. febrúar 2008

Um stjórnmál


Áhugi fólks á þátttöku í stjórnmálastarfi er yfirleitt tilkominn af tveimur meginástæðum: annað hvort er um að ræða einstaklinga sem hafa áhuga fyrir bættu samfélagi og vilja reyna að láta gott af sér leiða með störfum sínum fyrir samfélagið, hinsvegar einstaklinga sem fara í stjórnmál til þess að skara eld að eigin köku og „vina sinna” (komast í þægilega innivinnu).


Því miður virðist það oftar en ekki gerast að þeir sem fóru af stað með góðum hug og áhuga á að láta til sín taka í vinnu að bættu samfélagi, uppgötva fyrr eða síðar að þannig virkar þetta ekki í stjórnmálum. Þess vegna gerist óhjákvæmilega annað af tvennu: annað hvort hættir þetta góða fólk afskiptum af stjórnmálum eða, og það er öllu verra, verður einfaldlega eins og allir hinir. Það sem máli skiptir er þá að hafa það bara sem huggulegast sjálfur og hafa það helst þannig sem allra lengst. Sennilega er þetta eina málið sem er alveg þverpólitískt, þ.e. þetta á við um alla starfandi stjórnmálaflokka á Íslandi, enginn er öðrum betri í þessum efnum.


Ég veit svo af eigin reynslu að það er ekki hörgull á hæfileikaríku fólki, sem gæti svo sannarlega gert frábæra hluti fyrir samfélagið, fengi það tækifæri til þess. Því spyr ég: er hugsanlegt að hægt sé að virkja fólk til samkenndar og gera gangskör í að breyta þessu samfélagi til betri vegar?


Það er nefnilega fullreynt með alla þá stjórnmálaflokka sem eru til staðar í dag, það skiptir nákvæmlega engu máli hvað flokkurinn heitir, það er sama rassgatið undir þeim öllum, því miður, allt snýst um að hygla sér og sínum. Þeir eiga allir sína einkavini. Við eigum eftir að fylgjast með mörgum REI-málum, mörgum héraðs- og hæstréttardómaraskipunum, mörgum forstjóraskipunum og allskonar áframhaldandi sukki og svínaríi, að óbreyttu.


Það skiptir aldrei máli hverjir hafa meirihluta, á þingi nú eða í sveitarstjórnum, því að strax að loknum kosningum hætta kjósendur að skipta nokkru einasta máli, heldur fer allt að snúast um spena fyrir stjórnmálamennina til að leggjast á.


Helvíti fúlt sýstem!


Ólafur Ragnar Hilmarsson

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er kannski ljótt að segja það en þessi pistill minnir mig á Frjálslynda flokkinn.

Nafnlaus sagði...

Nei aldeilis ekki, minn kæri, hefur þú ekki séð fulltrúa Frjálslyndaflokksins bæði á þingi og í borgarstjórn ??? SAMA RASSGATIÐ.