13. febrúar 2008

Vetrarstemmning


Það er vetur í bæ sem rennur að vísu ekki alveg í sefgrænan sæ en heldur mönnum við efnið svo um munar. Lægðirnar dansa kringum landið við undirleik dynjandi rokktónlistar vindanna. Samgöngurnar fara úr skorðum og fólkið sem óvant er þessum látum ríkur af stað til þess að lenda í eða undir snjóflóðum eða verða innlyksa á vegum þar sem björgunarsveitin kemur að þeim. Jafnvel krosstrén sjálf bregðast, millilandaflugið fer úr skorðum og farþegarnir híma jafnvel heilu næturnar á Leifsstöð. Bíðandi eftir flugvélum sem þeim var búið að lofa en eru svo ekki tiltækar þegar á reynir. Ráðherrar verða veðurtepptir sunnanlands og norðan og geta því ekki komið með boðskapinn til sauðtryggra áheyrandanna sem auðvitað fara á taugum yfir að fá ekki línuna sína. Það er annars einkar athyglisvert að fylgjast með fjölmiðlum þessa óveðursdagana, því svo virðist sem hríðin byrgi þeim svo sýn að þeir sjá ekki inn fyrir Elliðaár. Áðan mátti heyra náunga á Rás 2 flytja tilkynningu frá Almannavörnum sem hann sagði, hálf fýlulega, að varðaði nú aðeins Vestfirðinga. Gott og vel, ef Vestfirðir eru utan þjónustusvæðis þessa útvarps, hljóta þeir einnig að vera utan þjónustusvæðis þeirra herramanna Gjalddaga og Eindaga þegar rukkunin kemur. Hvað sem þessu líður öllu saman þá ætlar Hugskotið að taka sér smá hvíld og leika á Vetur konung með því að fara til Tenerife þar sem er víst nokkuð hlýrra en á góðu íslensku sumri.


Reynir Heiðar Antonsson


Reynir frændi, höfundur þessa pistils, verður sextugur þann sautjánda. Hann hefur verið nær blindur frá fæðingu, er sykursjúkur og er búinn að fá tvö heilablóðföll þannig að hann er að mestu bundinn hjólastól. Hann er hættur að geta skrifað sjálfur en semur pistla sína í huganum og þylur síðan fyrir unglinga sem slá þá inn (og virðast pistlarnir skila sér að mestu leyti ef stafsetningin er undanskilin). Hann er róttækur norðanmaður og hatast við Höfuðborgina. Við óskum honum til hamingju með áfangann og vonum að hann njóti lífsins á Tenerife.

Engin ummæli: