16. febrúar 2008

Þrifalegir hrossahossarar


Lítið merkilegt hefur á daga mína drifið yfir helgina. Slappaði af, sauð egg og drakk nokkra bjóra. Ekkert nýtt og ekkert merkilegt. En ég var samt að velta einu fyrir mér. Ég skrapp í búð í dag, með eins árs syni mínum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað, þegar við erum inní versluninni að leita að BBQ-sósu í rólegheitum þá gengur fram hjá okkur ung stúlka og fer að leita að einhverju við hliðina á okkur. Það eitt og sér er nú heldur ekki neitt merkilegt, nema að þessari ungu konu fylgdi ákaflega mikill og sterkur óþefur.


Þarna var sem sagt mætt í búðina enn einn heilalausi hrossapínarinn, nýstiginn uppúr hrossaskítnum. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hitti hestafólk í verslun. Hvað er þetta með hestafólk og óþrifnað? Hversu heilalaus þarf manneskja að vera til þess að láta sér detta það í hug að fara inní hesthús þar sem sískítandi hross keppast við að menga allt í kringum sig með daunillum óþef, og hoppa svo bara inní búð á eftir, eins og ekkert væri sjálfsagðara?


Er maður að fara fram á mikið þegar maður ætlast til þess að þetta fólk þrífi sig sæmilega og mæti ekki með daunillan óþefinn með sér þegar það fer að versla?


Í þetta skiptið var ég staddur í 10/11 búð sem er opin allan sólarhringinn. Gat þessi stelpuskjáta ekki drullast heim til sín í sturtu? Nú mætti kanski halda að lyktin af henni hefði nú ekki verið svo slæm, og þetta sé orðum aukið hjá mér. En það er nú alls ekki svo. Lyktin var svo yfirþyrmandi og viðurstyggileg að sonur minn fór samstundis að gráta. Ég mátti gera svo vel að fara með hann í hinn endann á búðinni og bíða þar þangað til þessari skítugu og tillitslausu manneskju hugnaðist að ganga út á kúkaklepruðum skónum.



Fyrir ekki alls löngu,þá henti sami hluturinn mig á vídeóleigu — á vídeóleigu! Þá arkaði þangað inn miðaldra sílspikaður hrossaböðull og fór að velja sér spólu í rólegheitum við hliðina á mér! Er ekki allt í lagi með fólk!? Finnst þessu fólki kannski bara alveg sjálfsagt að mæta með þennan óþrifnað og óþef hvert sem er? Til dæmis í flugvél, eða á biðstofu hjá lækni, ellegar í kirkju?


Átti ég bara að taka því þegjandi og hljóðalaust að bara vegna þess að þessum böðli datt ekki í hug að þrífa sig áður en hann þurfti að velja sér vídeóspólu, þá væri algerlega ólíft fyrir alla aðra inní þessu húsi, og það í langan tíma á eftir! Nei,enda gat ég ekki setið á mér. Eftir að hafa staðið við hliðina á þessum manni í nokkrar mínútur þá hóf ég upp raust mína: „Fyrirgefðu... finnst þér allt í lagi að standa hérna í rólegheitum og velja þér spólu á meðan allir hérna inni eru að kafna úr skítafýlunni af þér?”


Maðurinn hætti að lesa um hvað myndin Blindsker fjallaði og leit á mig. Honum var augljóslega brugðið. Ég ákvað því að segja ekkert frekar, heldur gefa honum færi á því að svara fyrir sig. Svarið sem ég fékk var heldur málefnanlegra en ég bjóst við. Hann sagði einfaldlega: „Já.” Ég sá nú samt að ég hafði slegið hann út af laginu, því 4 sekúndum seinna, þá fór hann út, án þess að leigja sér spólu. Það þótti mér gleðilegt.


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Birkir þó!! Bara anda með munninum...

Nafnlaus sagði...

Ef þú værir kona , myndi ég halda að þú værir óléttur. Ég var svona þegar ég var ólétt , þoldi enga óeðlilega lykt :( Gat ekki verið nálægt ákveðnum aðilum.

Nafnlaus sagði...

bíddu bíddu..eruð þið að segja mér að ykkur finnst svona óþrifnaður bara allt í lagi ? Fyndist ykkur í lagi,að mæta alltaf í fjósagallanum að versla ? Eða fyndist ykkur allt í lagi, ef fullorðið fólk myndi venjulega skíta aðeins á sig, áður en það mætir í bíó,og sest svo við hliðina á þér? Fyndist ykkur allt í lagi að vinna í 12 klukkutíma í einverri fiskhausaþurkuninni og mæta svo bara í perluna í kvöldmat, án þess að baða sig eða skipta um föt ? Nei takk..þessir hrossapínarar geta bara farið í sturtu og þrifið sig eins og annað fólk!! Það er bara sóðaskapur að vera í sömu fötunum (ó baðaður í þokkabót),við að moka skítinn undan hestunum sínum, sitja á lúsugu bakinu á þeim, og mæta svo i matvöruverslun!!! Það er náttúrulega ekki hægt að ætlast til þess að hestafólk átti sig á þessu, því þau halda í alvörunni að þau séu töff...bölvaðir sóðar bara!!!
Bóla

Nafnlaus sagði...

Nei,nei.
Óþrifnaður er ekki í lagi.

Eina sem ég get ráðlagt þér , er að taka klemmu með þér út og skella henni á nebbann ef óþefurinn er í hámarki! Svo bara bendir þú þessu fólki á , á nærgætinn hátt. Að þrifnaði sé ábótavant.

Sumt fólk er líka bara með vonda líkamslykt.

Hver man ekki eftir , illa lyktandi kennurum eða hefur lent hjá læknum sem vart er verandi nálægt?