Löngun fólks í að trúa samsæriskenningum af öllu tagi eru fá takmörk sett eins og gömul og ný dæmi sanna.
Ein lífsseigasta samsæriskenning 20. aldarinnar gekk út á það að geimverur hefðu brotlent við smábæinn Roswell í Nýju-Mexíkó sumarið 1947. Einhverjir hafa viljað ganga svo langt að fullyrða að frá og með þeirri stundu hafi Bandaríkjamenn leynt líkum geimvera fyrir heimsbyggðinni.
Þeir sem vilja trúa á samsæri geta ævinlega fundið sannindamerki skoðanna sinna. Það mun vera óefað að einhver hjá hinu opinbera sagði eitthvað á þessa leið í talstöð: „Við höfum fundið brotlenta diskinn.” Og einhver blaðasnápur var að hlera talstöðina og birti fréttina sem er hér efst um fljúgandi disk sem hefði hrapað. Eins er vitað að hið opinbera leiðrétti fréttina og sagði að þarna hefði hrapað veðurloftbelgur. Sú skýring hefur lengi verið tortryggð.
Hið opinbera laug. Þetta var enginn veðurbelgur. Skýringin krefst skilnings á náttúrulögmáli og tíðaranda kalda stríðsins. Hún mun vera þessi (með tæknilegum inngangi):
Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru allir flugmenn yfir kyrrahafinu þjálfaðir í ákveðinni björgunaraðferð. Væru þeir skotnir niður yfir hafi, eða lentu þar af öðrum ástæðum, áttu þeir að láta fyrirberast í gúmmíbátum. Þegar þeir hefðu komið sér fyrir áttu þeir að taka úr farangri sínum lítið egg úr málmi og kasta í sjóinn. Hefði þeim ekki verið bjargað innan tiltekins tíma áttu þeir að kasta öðru eggi.
Hefðu nú Japanir krækt í eitt svona egg hefðu þeir líklega skoðað það í krók og kring. Á endanum má telja líklegt að þeir myndu saga það í tvennt til að sjá hvað væri innan í því. Hefðu þeir gert það hefðu þeir ekkert fundið, eggið hefði virst vera fullt af ammrísku lofti.
Eggjaráðgátan hefði orðið Japönum torleyst. Samt byggði hún á örfáum og vel þekktum staðreyndum. Bylgjur ferðast ekki á sama hraða í gegn um öll efni. Þannig ferðast t.d. hljóð töluvert hraðar í gegn um klettavegg en gufu. Ljós ferðast hraðast í lofttómi en hægt er að hjóla hraðar en ljósið kemst í gegn um sum efni.
Aðstæður ráða miklu um hraða bylgju. Þannig ferðast sjávaralda hraðar á djúpum sjó en grunnum (aldan hækkar þegar hún hægir á sér og inniheldur því sömu heildarorku hvort sem hún ferðast hratt eða hægt). Þegar alda nálgast land hækkar hún og hægir á sér og getur þar munað miklu. Þú tækir t.d. ekki eftir tsunami-flóðbylgju úti á rúmsjó, hún skytist á ógnarhraða framhjá þér.
Þessi hraðabreyting getur látið bylgjuna beygja. Sjávaröldur lenda yfirleitt hornrétt á ströndinni (ef þú horfir út á sjó sérðu ölduna koma inn í áttina að þér hvar sem þú stendur á ströndinni). Það er vegna þess að aldan beygir þegar hún kemur á grunnan sjó. Ef þú ímyndar þér öldu eins og langt strik og hún kemur skáhalt inn að strönd þá kemur annar endi öldunnar í grynnið á undan hinum. Sá endi hægir á sér en hinn endinn ekki. Við það beygir aldan í átt að ströndinni. Hið sama gerist í ljósi þegar það brotnar í prisma. Ljós hægir á sér við að lenda á glerinu og beygir, þar sem engir tveir litir ljóssins beygja jafn mikið kemur það út úr prismanum aðskilið.
Nema hvað. Hillingar yfir heitu malbiki eru sama fyrirbærið og hér er lýst. Ljósið ferðast hraðar í heitu lofti en köldu og þar sem myndin af himninum kemur ofan í heita loftpollinn yfir malbikinu hraðar sá hluti ljósbylgjunnar á sér sem næst er jörðu (er í mestum hita), við það beygir bylgjan í átt frá jörðu og getur lent á andliti einhvers sem er að koma akandi eða gangandi. Sá sér þá bút af himninum þar sem hann býst við að sjá veginn. Þessi bútur lítur út eins og vatn.
Þá að hermanninum sem kastar málmegginu í sjóinn. Hljóðbylgjur ferðast hratt í heitum sjó en hægt í köldum; þær ferðast ennfremur hratt í þéttum sjó en hægt í þunnum. Nú vill svo til að þessir eiginleikar vinna gegn hvorum öðrum í venjulegum sjó. Sjórinn kólnar eftir því sem þú kemur dýpra í hann (og þá hægir á hraða hljóðs) en um leið þykknar hann (undan fargi vatnsins fyrir ofan) og það hjálpar hljómburði. Við þessar sérstöku aðstæður myndast á ákveðnu dýpi lag í sjónum sem ber hljóð einstaklega vel. Fyrir ofan og neðan þetta lag ferðast hljóð hraðar en í laginu sjálfu. Vegna hitans fyrir ofan, vegna þrýstingsins fyrir neðan. Hljóð sem á upptök sín í þessu lagi (eða rás) getur borist langar leiðir. Hvalir hafa löngu lært að hlusta eftir öðrum hvölum og kalla á þá í þessu lagi, á þessu tiltekna dýpi. Mér skilst að hvalur við Íslandsstrendur gæti auðveldlega kallast á við hval við England með þessu lagi.
Ástæðan er auðvitað beygja bylgnanna. Hljóðið berst í allar áttir frá upptökum sínum. Mjög lítið af því stefnir beina línu frá íslenska hvalnum til þess enska. En fjöldinn allur af hljóðbylgjum stefnir í sömu meginátt — en hallar upp eða niður miðað við hvalina. Þetta hljóð lokast inni í rásinni og ferðast alla leið á milli dýranna. Því í hvert skipti sem hljóðið ætlar upp kemur toppur þess í heitan sjó og gefur í, við það fellur bylgjan fram fyrir sig og niður aftur, alveg þangað til botn bylgjunnar kemur í þétta sjóinn og gefur í. Við það sveiflast bylgjan upp. Og svo koll af kolli. Nákvæmlega svona virkar ljósleiðari líka.
Þessar rásir eru kallaðar því viðeigandi nafni, SOFAR-rásir.
Þetta vissu ammrískir í lok heimsstyrjaldar en ekki Japanir. Eggið góða var hannað til þess eins að falla saman undan þrýstingi á réttu dýpi. Þannig væri hægt að láta smellinn berast langar leiðir. Kafbátar voru á vakt allan sólarhringinn á mismunandi stöðum og með því að athuga hvenær hvaða kafbátur heyrði smell var hægt að staðsetja hinn hrapaða hermann án vandkvæða. Allt voða sniðugt en engum sögum fer af því hvort þetta var einhverntíma notað.
Komum við þá aftur að Roswell.
Það er í raun enginn grundvallarmunur á lofti og láði. Þetta eru aðeins misþykk efni. Andrúmsloftið er mjög misheitt. Eins og allir þekkja þá kólnar það eftir því sem ofar dregur (og þynnist) en svo hitnar það aftur rækilega í töluverðri hæð. Án þess að orðlengja við það grunaði ammríska vísindamenn að nákvæmlega samsskonar hljóðrásir væru í himnunum eins og höfunum.
Að hvaða gagni skyldi slík hljóðrás koma í upphafi kalda stríðsins? Jú, Sovétmenn höfðu svosem ekki farið dult með öfund sína á kjarnorkusprengju Bandaríkjamanna. Það var vitað að þeir unnu að smíði einnar slíkrar. Það sem ekki var vitað var hvort það hefði tekist hjá þeim. Bandaríkjamenn voru með alla anga úti við að reyna að komast að því. Þótt kjarnorkusprengja gefi frá sér dálítið vænan hvell þá voru Sovétríkin nokkuð stór og því auðvelt að leyna sprengingunni. En ef, og hér var stóra óvissan, hljóðrásir væru sæmilega stöndugar í loftinu átti að vera hægt að hlera alla leið kring um hnöttinn með vel staðsettum hljóðnemum. Ein leið var að fljúga um með hlerunarbúnað í eftirdragi, önnur var að senda upp belgi. Og ef maður sendi nógu marga belgi var hægt að finna hljóðuppsprettuna jafn auðveldlega eins og gúmmíbátinn forðum.
Það var þetta sem var í gangi í Roswell. Hið opinbera var að senda upp leynileg eyru fest neðan í breytta veðurloftbelgi. Tilgangurinn var sá að hlusta eftir kjarnorkusprengingum vestan úr Síberíu. Enn fer engum sögum af sérsökum árangri. En þeir sem muna eftir kalda stríðinu eða þekkja til þess kannast vel við paranojuna sem heltók hálfan heiminn.
Hljóðnemar voru á þessum tíma afar klaufalegar gæjur. Þeir voru strengdir með gormum innan í einhverskonar diska og það var sú lögun sem hinn bláeygði opinberi starfsmaður var að vísa þegar hann sagðist hafa fundið diskinn. Fréttamaðurinn sem hleraði dró svo sínar ályktanir af því og þótt stjórnvöld mótmæltu þá olli hin „hvíta” lygi því að enn finnst fólk sem finnst eðlilegt og skynsamlegt að draga langsóttustu og klikkuðustu ályktunina af öllu saman.
Í dag hefur fátt breyst. Við horfðum öll á flugvélar fljúga á WTC. Við sáum turnana hrynja. Til er fólk sem heldur að stjórnvöld vestra hafi skipulagt þetta allt til að hafa ástæðu til að ráðast á Írak. Og það sem meira er, að flugvélarnar hafi að mestu verið málinu óviðkomandi — aðallega svona dýr lystaukandi. Turnarnir hafi í raun verið sprengdir.
Þeir sem fylgst hafa með framgöngu Bush og kumpána síðan geta ekki annað en spurt sig hvað ætli hafi orðið um þessa stórkostlegu skipulagshæfileika síðan. Þeir virðast hafa horfið eins og dögg fyrir sólu eftir að BNA réðust á Afganistan og Írak.
Mörgum finnst eitthvað dularfullt við framgöngu Hvíta hússins eftir 9/11. Að þar bendi ýmislegt til þess að ekki sé sagt satt og rétt um allt. Af því draga þeir þá ályktun að rétt sé að kokgleypa fáránlegustu tilgátuna.
Að lokum mæli ég með fyrirlestrum Berkeley á Google Video um eðlisfræði fyrir framtíðarforseta. Hér er aðeins endursagður einn þeirra af veikum mætti. Hafi geimverur í raun lent í Roswell vitið þið þá allavega um einn enn samsærisaðilann, Richard A. Muller kennara við Berkeley.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli