20. febrúar 2008
Jákvæður rasismi
Það er orðið nokkuð ljóst að Obama mun að öllum líkindum verða næsti forseti BNA. Hann kom mun betur út í 60 Minutes en Hillary og kraftaverk eitt getur komið í veg fyrir að hann vinni 10 kosningar í röð.
Obama er svartur, þar sem grátt (afkvæmi hvíts og svarts) hefur hingað til verið námundað að svörtum. Einhverjir vilja líta svo á að kosningarnar nú séu til marks um framþróun. Að það að valið skuli standa um aldraðan, svartan og konu sé tímanna tákn. Ég held að það sé fyrst og fremst komið til af illu. Demókratar hafa ekki enn jafnað sig á velgengni Clintons, Gore var skuggamynd miðað við forsetann og Kerry var skuggamynd af skuggamynd. Það er upp úr ráðaleysi sem Obama og Hillary spretta. Þau eru eins og fátæku leiguliðarnir sem eignuðust þá fyrst jörð þegar drepsóttir höfðu lagt stórbýli í eyði. Auðvitað urðu margir þeirra mektarbændur.
McCain er skuggamynd af Bush, einhverskonar samsuða af superegói og id-i. Hann er maður stríða og er tilbúinn að vera í Írak í 100 ár (enda hefur hann ástæðu til að finnast 100 ár ekkert óskaplega langur tími).
Það er athyglivert að skoða Obama í rasísku ljósi. Hin rasíska kenning er sú að svertingjar séu ögn vitgrannir og latir en góðir íþróttamenn (sérstaklega í kröfubolta) og taktfastari en trommusett – sem geri þá að afburða tónlistarmönnum og dönsurum.
Almennt er nú álitið að rasískar staðalmyndir séu ekki samboðnar opinberri umræðu, og því síður við hæfi sem umfjöllunarefnin fljóta betur ofan á undanrennunni.
Obama er hvorki latur né vitlaus. Raunar virðist hann bæði hörkuduglegur og bráðskarpur. Hann hefur líka til að bera náðarvald. En það hefur vakið athygli mína hve hann og stuðningsmenn hans eru duglegir að vekja athygli á þeim þáttum í fari hans sem passa við hina jákvæðu staðalmynd.
Obama þykir liðtækur körfuboltaspilari og lét hafa eftir sér, m.a. í 60 mínútum, að hann færi ekki framar í kosningu án þess að spila körfubolta fyrr um daginn.
Obama hefur þegar gert danshæfileika sína og taktvísi opinbera (á meðan ræfillinn Hillary þykir svellbeljuleg og afleitur söngvari).
Og nýjasta herferðin snýst um að sýna að Obama sé svo innblásinn ræðumaður að ræður hans séu í raun tónverk. Að nóg sé að setja inn bakraddir og undirspil og hin náttúrulega fegurð skíni í gegn.
Það er nokkuð sérstakt að sjá hve óhræddur Obama er við að mjólka staðalmynd svertingjans. Kannski sannar það að það er ekki vegna þess að að stjórnmálum sé orðið sama um lit, kyn og aldur, sem þau þrjú eru komin á sviðið. Kannski eru menn bara orðnir leiðir á hinni týpunni, miðaldra, hvítum karli. Sem var raunar löngu tímabært.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli