18. febrúar 2008

Játning


Ég skal gera játningu. Það kemur fyrir að ég sæki mér kvikmyndir en þó sérstaklega hljóðbækur í gegn um torrent. Ég lærði það af Óla Sindra. Auðvitað er það bannað og bölvaður þjófnaður. Ég hef hinsvegar reynt að búa því einhvern hálf-siðlegan búning með því að henda því efni sem heillar mig ekki og kaupa löglega það efni sem ég vil eiga áfram.

Einn af mínum uppáhaldsrithöfundum er Bill Bryson. Án torrenta hefði ég líklega ekki kynnst honum fyrr en í jólabókaflóðinu í fyrra. Og þrátt fyrir að eiga bæði ólöglega pdf útgáfu af Stiklað á stóru..., löglega prentútgáfu og hljóðbókina (lesna af honum) pantaði ég íslensku útgáfuna í jólagjöf til að sýna útgefandanum móralskan stuðning. Ég hef oftar en ekki keypt Bryson hafi ég rekist á hann í bókabúð. Þannig hefur ólöglegt niðurhal líklega komið af stað kaupum á bókum eftir Bill fyrir hátt á þriðja tug þúsunda.


Það sem mér líkar við Bryson er áreynsluleysið og léttleikandi húmorinn. Sumpart minnir hann á Thurber, annan uppáhaldshöfund minn. Ein af fáum bókum eftir hann sem ég hafði hvorki heyrt né lesið var The Lost Continent. Umfjöllun um hana verðskuldar smá inngang. Bryson er fæddur í Des Moines í Iowa en hefur búið í Englandi meira og minna öll sín fullorðinsár. Pabbi hans var íþróttafréttamaður og var sjaldan heima en kaus að tryggja fjölskylduböndin með endalausum langferðum á fjölskyldubílnum um Bandaríkin þver og endilöng. Bryson eldri var kreppusonur og vildi því aldrei borga meira en þurfti fyrir gistingu (sem varð til þess að Bryson yngri varð fljótt sjóaður í skuggahliðum mannlífsins) og var raunar svo nískur að þegar fjölskyldan keyrði um Hollywood tímdi hann ekki að kaupa kort af heimilum stjarnanna, svo fjölskyldan lét sér nægja að keyra um og geta upp á hver byggi hvar.

The Lost Continent fjallar um það þegar Bill endurtekur fjölskylduferðalögin eftir dauða föður síns m.a. til að skilja hvað karlinum gekk til. Úr verður óborganleg lýsing á amerísku smásálinni.

Ef fleiri hafa áhuga á að kynnast Bill þá er hægt að sækja torrentið hér og forrit hér til að sækja það. Bókina má svo kaupa með því að smella á titilinn hér að ofan.

Í dag fékk ég svo í pósti Bill Holm og er að byrja að lesa hana.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vissiru að hann var á bókmenntahátið (var það ekki í fyrra?). Ég missti af honum.

"The Lost Continent" er góð, "In a Sunburned Country", er ekki síðri.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það vissi ég ekki.

Já, ég kolféll fyrir Sólbrennunni (og raunar Bretlandsferðinni líka) og þótt nýja bókinum Thunderbolt Kid sé löng hafði ég gaman af henni. Og Stephen Katz í Walk in the Woods er dásamleg aukapersóna.

Skítt að missa af honum.

Nafnlaus sagði...

The Lost Continent er ágæt - hefði eflaust haft meira gaman af henni, ef maður væri fróðar í landafræði USA og hefði jafnvel heimsótt staðinn.

Notes from a small Island er frábær - en passaðu þig að downloda bara 5 diska útgáfunni sem Bill les sjálfur, 10-15 diska útgáfan með með vonlausum lesara.

Ástralíubókin er fín (hann les sjálfur 10 diska útgáfuna) og svo er Evrópubókin ekkert slor.

http://thepiratebay.org/tor/3964818/[Audiobook]_5_Bill_Bryson_Books