11. febrúar 2008

Bakverkir


Eins og lesendur þessarar síðu hafa eflaust tekið eftir, hefur ekki verið mikið um rauðleitan blæ hérna síðustu daga. Það er nú helst tilkomið vegna þess að að ég brá mér til Liverpool fyrir rúmri viku, og í kjölfarið á þeirri ferð, lagðist ég í veikindi sem voru í grófum dráttum sem hér segir:


Það var þegar elskulegur faðir minn var að fara að keyra mig út á flugvöll til að taka morgunvélina norður, fyrir réttri viku, þegar eitthvað óhugnanlegt gerðist. Ég heyrði smell í bakinu á mér og stífnaði allur upp. Sársaukinn sem fylgdi þessu var ólýsanlegur og ég hreinlega festist. Ég náði með herkjum að líta í kringum mig til að skima eftir bræðrum mínum, því eðlilega var ég 100% viss um að annar hvor þeirra hefði hrint mér eða væri á bak við þetta á einhvern annan hátt. Svo virtist þó ekki vera og sannleikurinn var staðreynd, ég hafði fengið í bakið.


Þótt líklega þyki fáir tímar hentugir til þess að kveljast af sársauka þá þótti mér þessi tímasetning einstaklega óþægileg. Ég var jú á leið í flug og það með Flugfélagi Íslands í þokkabót. Ég veit það fyrir víst að flugfreyjan gengur á milli sætanna áður en farþegunum er hleypt um borð, og stillir sætin þannig að setan og bakið myndi örugglega hvasst horn — og hótar svo hverjum lífláti og barsmíðum sem vogar sér að hreyfa sætisbakið á meðan á ferð stendur.


Flugfélagið hefur eflast grunað að sársaukans vegna myndi ég nauðbeygður brjóta þessar reglur og halla sætinu örlítið aftur í viðleitni minni til þess að lifa af og þess vegna var mér troðið aftast í vélina þar sem möguleiki til slíkra glæpa var ekki fyrir hendi.


Hefði mig grunað hvað næsta vika hefði í för með sér, þá hefði ég eflaust fargað mér strax, en eftir kvalafyllstu flugferð sem um getur (að meðtöldu fangaflugi CIA) tók við það tímabil í lífi mínu sem ég skammast mín hvað mest fyrir.


Fyrir hvað átti ég svo að skammast mín? Ekki fór ég á strippbúllu og eyddi 15.000 kalli í kampavín handa konu sem ég nennti ekki einu sinni að tala við, ehh, hmm, eða jú, reyndar... en það var fyrir löngu síðan, mörgum árum. Fyrir hvað þá? Jú, ég lá heima hjá mér ósjálfbjarga með slefið í munnvikinu og þurfti hjálp við að koma ofan í mig mat, hjálp við að komast fram að pissa, og hjálp við að baða mig. Ég gat ekki klætt mig í sokkana mína hjálparlaust, barið unglinginn á heimilinu, eða skeint mér ef því var að skipta. En verst af öllu var þó vitneskjan um að vera orðinn minnimáttar á mínu eigin heimili. Unglingurinn gat horft óáreittur á Game TíVí á fréttatíma, og gat einfaldlega sagt mér að þegja ef ég gerði athugasemd. Niðurlæging, ósigur, undirgefni og fjötrar eru þau orð sem mér detta helst í hug til að lýsa sálarástandi mínu á þessari stundu. Að geta ekki beinlínis ráðið öllu á mínu eigin heimili var að gera mig sturlaðan.


Líkamlegi sársaukinn sem þessu fylgdi var slíkur að þó ég hafi svo sem ekki samanburðinn, þá fullyrði ég að barnsfæðing er í mesta falli óþægileg miðað við þann sársauka sem ég upplifði.


Það er að hluta til Amish-trúin og að hluta til sú vitneskja mín að allir eiturlyfjasalar setja rottueitur, striknín og barnapúður saman við dópið sem þeir selja, að ég tek aldrei verkjalyf. Af þeim sökum var sársaukinn stundum svo óbærilegur að ég hélt að ég væri að falla í yfirlið. En hvað sem öllum sársauka líður, þá viðurkenni ég að tilhugsunin um að stjórna ekki öllu heima hjá mér var sársaukafyllri en hinn líkamlegi verkur. Nú spyrja sig eflaust margir hvort ég hafi ekki farið og hitt lækni. Nei, það gerði ég ekki. Fyrir það fyrsta þá tekur það nú tvo mánuði að fá tíma hjá lækni á Íslandi og ég ætlaði mér ekki að vera með bakverk svo lengi. Í öðru lagi, þá gerir læknir fátt annað en að skrifa upp á striknínblandaðar eiturpillur fyrir sjúklinga sína, sem ég neita hvort eð er að éta. Í þriðja lagi þá skiptir það mig engu máli, hvort ég þjáist af þursabiti, klemmdri taug, tognun, bólgum eða bjúg — sársaukinn verður ekkert bærilegri.


En lesendum þessarar síðu til mikillar gleði, og þá sérstaklega þessari skvísu sem sagði mig geðveikislega kynæsandi á Barnalandi, þá get ég sagt ykkur að ég er allur að braggast. Ég skrapp í vinnu í smá stund í morgun og ætla að reyna að vera hálfan daginn á morgun. En guð minn almáttugur, og allir hans jólasveinar, hvað ég ætla að byrja á því að ná mér í þá sjálfsvirðingu sem ég hafði, áður en ég geri nokkuð annað. Unglingurinn á heimilinu skrapp aðeins út, en ég bíð spenntur eftir að hann komi heim, því ég ætla að fokkíng berja hann í klessu um leið og hann stígur inn fyrir þröskuldinn. Að því loknu ætla ég að strunsa inn á bað og bursta í mér tennurnar og skeina mig hjálparlaust. Að banna konunni eitthvað, skíta eitthvað út og henda þvottinum mínum á gólfið eru svo hlutir sem ég verð að koma í verk hið allra fyrsta.


Já, lesendur góðir. Heilsan fer að koma, sjálfsvirðingin og stoltið. Áður en þið vitið af, þá fer pistlunum mínum að fjölga og þið losnið við að lesa þetta þvaður sem bræður mínir eru stanslaust að skrifa!


Þangað til, góðar stundir.

2 ummæli:

Ragnar Þór sagði...

Velkominn af stað aftur, bróðir kær.

Nafnlaus sagði...

Kæri frændi,
ef þú ert þjáður þá veit ég um stað sem þú getur leitað til, en umfram allt náðu í sjálfsvirðinguna aftur, fátt verra en að týna henni.
Annars hlakka ég til að lesa meira frá þér, var farin að halda að þú hefðir gefist upp fyrir bræðrum þínum og karli föður.

Bata og baráttukveðjur,
systir Pála