Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar Sigmar Guðmundsson var að stíga sín fyrstu spor í Kastljósinu á RÚV. Framúrskarandi nördaralegur stressbolti, sem þó lét kannski ekki beint vaða yfir sig, en hafði þó alls ekkert bein í nefinu. En þótt Sigmar hafi frekar litið út fyrir að vera með brjósk, en ekki bein í nefi sínu, þá tók hann ótrúlegum framförum á skömmum tíma. Hann varð á stuttri stundu ótrúlega skeleggur og í senn skemmtilegur sjónvarpsmaður. Hann varð sífellt minna og minna nördalegur og þjóðin tók eftir því að hann lumaði meira að segja stundum á einum og einum brandara.
En svo gerðist eitthvað. Eitthvað sem enginn getur útskýrt, nema þá kanski helst hann sjálfur. Það var í einni svipan að gleraugun voru slegin af nefinu á honum og upp reis þessi líka svakalegi töffari. Að vísu er hann svakalega mislukkaður töffari, en hann reynir þó. Á tiltölulega skömmum tíma breyttist maðurinn úr því að vera feiminn fjölmiðlanörður í það að byrja að spila sig sem svakalega ákveðinn töffara sem gaf engan grið þegar hann var að berja á viðmælendum sínum í kastljósinu. Fyrir vikið uppskar hann virðingu sjónvarpsáhorfenda, og vinsældir.
Sigmar er án efa vinsæll sjónvarpsmaður en gallinn er að hann er farinn að vita aðeins of mikið af því. Hann hefur alltaf haft sterka framkomu, en er farinn að spila sig full stóran fyrir minn smekk. Það var einmitt þessi hálf-feimni hlédrægi gleraugnagámur sem þó kom orðunum rétt út úr sér, sem ég fílaði. Þegar hann svo kastaði bæði gleraugunum og húmornum, þá fór mér bara einfaldlega að finnast eitthvað vanta.
Þó svo að maður hafi skroppið í nokkra ljósatíma, hafi efni á því að láta klippa sig sómasamlega, og hafi efni á því að kalla Egil Helgason plebba, þá þýðir það samt ekki að maður geti tekið uppá því að vera drepleiðinlegur í sjónvarpi okkar landsmanna! Mér er slétt sama hvort hann mætti í jakkafötum, gallabuxum eða hreinlega í náttfötum við að taka við blaðamannaverðlaunum nú fyrir stuttu. Það fer mikið meira í taugarnar á mér, hvað hann er orðinn þreyttur og leiðinlegur.
Hversu oft höfum við Gettu betur áhorfendur fengið að heyra upp á síðkastið : „Ef þetta er rétt er..X búinn að vinna....en ef þetta er rangt...“? Þessi setning er farin að fara svo í geðið á mér, að mér er farið að finnast þessi maður alveg þokkalega hundhelvítileiðinlegur. Ég hef enn ekki séð hann brosa í þessari keppni, og það er eins og hann leggi sig svo svakalega fram um að vera ákveðinn, og það verður beinlínis til þess að manni finnst hann ekki hafa nokkurn áhuga á því að standa þarna í púltinu og spyrja. Það harmonerar að vísu ákaflega vel við dómarann í þessari keppni, sem er einn sá slakasti í þessari keppni frá því að ég byrjaði að fylgjast með henni. Ekki nóg með að hann hafi gersamlega klúðrað einföldustu spurningu um daginn, (sem sonur minn vissi svarið við) heldur er hann bara svo þurrprumpulegur að það hálfa væri líklega sirka bát helmingi mera en nóg! Í ofanálag eru þeir félagar svo báðir akkúrat jafn leiðinlegir, svo maður getur ekki einu sinni skemmt sér við að reyna að svara þeirri spurningu hvor þeirra sé í raun og veru leiðinlegri.
Að lokum langar mig að velta upp þeirri spurningu hvort það sé forsvaranlegt á tímum aðhalds og nútíma tækni, að hafa stigavörð á launum í þessari keppni. Það er líklega eini einstaklingurinn sem reglulega er fyrir framan myndavélina, sem hugsanlega er leiðinlegri en hinir tveir. Hversu mikið starf er það, að halda utan um stigin í Gettu betur? Og hvað er dómarinn að gera þarna á sviðinu? Er það of mikið verk fyrir hann krota niður stiginn jafn óðum og þau svara ?
Þetta er að verða þreyttur dagskrárliður (þó ekki komist hann í hálfkvist við Laugardagslögin í líkamlegum kvölum) sem er alveg að verða spurning um að setja í salt í nokkur ár. En ég þrjóskast nú samt við, og horfi alltaf á þetta ef ég get. Því ég hef lúmskt gaman af því þegar ég veit svörin en keppnisliðin ekki. Þannig næ ég að slá um mig í stofunni heima hjá mér, og gera mig stærri en ég raunverulega er í augum konunnar minnar.
Að lokum skal það tekið fram, að ég er löngu búinn að henda nördagrímunni heima hjá mér, gleraugunum og húmornum, en eftir stendur pínulítill wannabe töffari sem reynir alltaf að svara öllu á undan Gettu betur liðunum og er í þokkabót örugglega miklu leiðinlegri en Sigmar, þótt leiðinlegur sé. .... en aldrei myndi mér detta í hug að kalla Egil Helgason plebba, því það er einfaldlega plebbalegt.
2 ummæli:
Þú ert ekki hræddur við að verða kærður fyrir meiðyrði ! ? :)
Góður pistill meistari.
GS
nei ekki svo.. hvernig ætti Sigmar annars að færa rök fyrir því að hann sé ekki leiðinlegur ?? Það væri nú næstum því 900.000 króna virði (eða hvað það var sem Gaukur var dæmur til að greiða), að sjá Sigmar í réttarsalnum færa rök fyrir því að hann væri " víst drullu skemmtilegur" :) Sjáum til... hvað setur
Bóla
Skrifa ummæli