10. maí 2013

Snargeggjaður samráðsvettvangur

Samráðsvettvangur um hagsæld íslands er einhverskonar þankatankur sem hefur það að markmiði að gera excel-lýsingu Íslands samkeppnishæfa við sömu lýsingu annarra þróaðra landa. Þar rýna menn í tölfræðiupplýsingar um land og þjóð, greina vanda og vaxtarbrodda og stinga síðan upp á leiðum til aukinnar hagsældar.

Nýlega gerði hópurinn menntamál að umtalsefni. Í fundargerð eða skýrslu er leikin lítil bókhaldsbrella þar sem stungið er upp á leið til að hækka þau lágu laun sem íslenskir kennarar búa við. Lausnin er að fækka kennurum töluvert og flytja verkefni þeirra (og laun) á þá sem eftir standa. Það dugar þó ekki til og þess vegna er lagt til að fækka nemendum einnig umtalsvert með því að afnema tíu ára skyldunám og stytta framhaldsskólann. Þá vantar reyndar enn dálítið upp á og því er stungið upp á því að sameina fámenna skóla og fjölga nemendum í bekkjum.

Með þessu móti reiknast hópnum til að laun kennara yrðu sambærileg við löndin í kringum okkur.

Ég veit hreinlega ekki hvernig maður á að bregðast við svona tillögum. Hvort það eigi að taka þær alvarlega eða ekki. Nú virðast sitja í þessum hópi nokkurnveginn allir sem stjórna Íslandi. Þetta eru engin flón eða vatnsgreiddir maurapúkar í Valhöll sem krota með vaxlitum í Fjárlögin. Þetta er alvöru fólk – sem virðist ekki hafa nokkurn einasta skilning á því sem það er að gera.

Fyrst er ágætt að sjá hvernig verk þessa fólks er unnið. Frumforsenda og inngangur að menntamálaumfjölluninni er að á Íslandi sé rekið afbrigðilega dýrt menntakerfi – gott ef ekki það dýrasta á Norðurlöndunum. Og það án þess að árangurinn sé sérlega eftirtektarverður.

Raunin er auðvitað sú að þetta er nokkuð villandi mynd. Danir eyða til að mynda mun meiri peningum í menntun en Íslendingar. Verg landsframleiðsla þeirra er einfaldlega miklu meiri en Íslendinga. Menntakerfi eru ekki þannig kerfi að þau lagi sig sjálfkrafa að aukinni eða minnkaðri landsframleiðslu. Þegar kreppan læsti klónum í Ísland varð ýmis grunnþjónusta, þar með talin menntun, að hærra hlutfalli landsframleiðslunnar. Það gerðist alveg án þess að menn legðu meira til hennar.

Það að Ísland tróni á toppi þessa lista bendir ekki eindregið til þess að Ísland leggi sérlega ríflega til menntunar. Þvert á móti eru það Norðmenn, sem lúra á botni listans, sem virðast rausnarlegastir þegar kemur að menntun. En þá þarf að hafa í huga að landsframleiðsla Noregs er með ólíkindum mikil en framlag þeirra til skólakerfisins er að sama skapi afar hátt.


En nóg um það.

Það er eiginlega enn meira lýsandi fyrir störf samráðshópsins að skoða greiningu hans á kostum og göllum íslensks vinnumarkaðar.


Hér er samanburður við nágrannalöndin settur upp sem mynd af rauðu, gulu og grænu ljósi. Þar sem grænt virðast eiga að vera styrkleikar okkar en rautt sérstakir veikleikar.

Hin óhemjulanga íslenska vinnuvika er flokkuð sem styrkur íslensks atvinnulífs – en hin litla framleiðni er eðlilega flokkuð sem veikleiki.

Nú er það svo að löng vinnuvika og margar vinnustundir eru almennt einkenni vanþróaðra landa. Við höfum kosið að telja okkur tilheyra heimshluta sem með afgerandi hætti hefur dregið úr vinnutíma fólks í langan tíma. Það, að íslenski samráðshópurinn, telji að tregða okkar til að gera það sama sé til marks um sérlega gott ástand sýnir best hversu yfirborðskennd vinnubrögðin eru. Löng vinnuvika er ekki ávísun á mikla framleiðni eða hagsæld. Þvert á móti virðist sífellt betur koma í ljós að of löng vinnuvika dregur úr framleiðni og vinnur á endanum gegn markmiðum sínum. Enda grundvallast hún á röngu viðhorfi til vinnu.

Öll umfjöllun starfshópsins um skólamál er brennd sama yfirborðskennda markinu. Skólastarf er metið út frá örfáum mælanlegum stærðum sem segja ekkert um aðstæður eða ástæður. Síðan hrókera menn tölum til og frá í tilraun til að feika hagsæld.

Ástæða þess að á Íslandi eru margir skólar með færri en 100 nemendum er ofur einfaldlega sú að margir Íslendingar búa á svæðum þar sem færri börn en 100 eru á grunnskólaaldri. Þú sameinar ekki skóla á Kirkjubæjarklaustri og Vík án þess að valda nemendum og fjölskyldum óheyrilegum óþægindum. Þú myndir skerða farsæld þeirra mikið – sem sjaldnast er réttlætanlegt til þess að auka hagsæld. Hagsældin þjónar farsældinni en ekki öfugt. Að vísu skal viðurkennt að á mælikvarða sem telur óheyrilegar og ófrjóar slímsetur á vinnustöðum til marks um forskot þá myndu langir, kröfuharðir skóladagar þar sem eðlilegu heimilislífi er meira og minna fórnað fyrir rútuferðir, kannski teljast til tekna í excelskjalinu.

Aðeins rúmlega þriðjungur vinnutíma íslenskra kennara er bein kennsla. Það vilja menn leysa með því að auka kennslu og fækka kennurum. Á yfirborðinu virðist það eðilegt.

Ef maður hinsvegar veit eitthvað um skólakerfið þá veit maður að óvenju lágt kennsluhlutfall íslenskra kennara stafar ekki hvað síst af því að nýliðun er ónýt í skólakerfinu – ekki síst vegna lágra launa. Kerfið er þannig uppbyggt að því eldri sem kennarastéttin er, því minna hlutfall vinnutímans er kennsla. Ungur kennari skal kenna 26 kennslustundir á viku. Sextugur kennari skal kenna 19 stundir. Hér munar  nærri 40 prósentum. Á síðustu áratugum hefur hlutfall kennara yfir sextugu sívaxið á meðan hlutfall ungra kennara hefur hrunið.

Ástæðan er sú að sveitarfélögin hafa stundað stríð við kennara – og það eftirsóknarverðasta við starfið hafa verið áunnin eftirlaun. Hefðu sveitarfélög haft snefil af framsýni hefðu þau ekki sparað aurinn og kastað krónunni eins og þau hafa gert.

Hin skakka og ónýta aldursdreifing kennara á Íslandi er ekki til umræðu í skýrslunni – enda líklega ekki nógu yfirborðskenndur þáttur til að ná til þeirra fálmkenndu vinnubragða sem samráðshópurinn stundar.

Tillögur samráðsvettvangsins lýsa nærri algjörri vanþekkingu á skólakerfinu, eðli vanda þess og leiðum að umbótum. Hugmyndirnar sem settar eru fram eru afkáralega einfaldar og ófullnægjandi.

Íslenska skólakerfið glímir við mikinn vanda. Það þarf allar hendur upp á dekk við að leysa hann. Til þess eru margar leiðir færar. Groddalegar leiðir sem minna á efnahagsstjórn Maós formanns gera ekkert til hjálpar. Þær spilla fyrir. Það er ábyrgðarhlutur að margir af frammármönnum íslensks stjórnmála-, atvinnu- og menningarlífs skuli leggja nafn sitt við þessar tillögur.

Þetta er svosem upptaktur að því sem koma skal.

14 ummæli:

Unknown sagði...

Flott grein. Ekki kenna samt Excel um allt :)

Nafnlaus sagði...

Svona sem gamall - fyrrum kennari - held ég að þú standir vandanum of nálægt til að dæma of hart. Því þú ert hluti af vandanum. Ekki lausninni. Sem er kannski dæmigert fyrir hugsjónamenn. Var þarna sjálfur. Og hætti eftir áratug.

Fékk nóg af gömlum hundum sem voru áskrifendur að launum sínum - aldurs vegna. Löngu slokknað á stjörnum þeirra. Vonandi fer ekki eins fyrir þér.

Ef ekki - sem ég vona - færðu ekkert borgað aukalega borgað fyrir það.

Færri skólar. Fleiri nemendur í bekk. Áfangakerfi. Hagræði. Skilvirkni. Nýtni.

Gleymdu öllu sem Fílabeinsturninn kenndi í KHÍ. Það virkar ekki.

Sorrí, kiddó. En hugsjónir eru slæmur hafragrautur. :-(

-- Einn sem var þarna.

Torfi Stefán sagði...

Þetta er fín grein og þakka þér fyrir þessa samantekt. Ég held að flestir sem eitthvað hafa starfað við menntakerfið sáu að það var ýmislegt bogið við þetta.

Ég gerði mér þó ekki grein fyrir því að kennsluaflsláttur eldri kennara hefði svona mikil áhrif.
En þá hlýtur maður líka að spyrja hvort að það sé endilega eðlilegt að eldri og reyndari kennarar fái kennsluafslátt. Veist þú rökin fyrir honum?

Helgi Jóhann sagði...

Sæll. Ég er sammála fjölmörgu sem þú segir og þar á meðal að þessi skýrsla gefur sér forsendur og fær niðurstöður sem rekast hver á aðra — EN þú staðhæfir að landsframleiðsla Dana á hvern íbúa sé miklu meiri en okkar. Samkvæmt alþjóðlegri tölfræði IMF er það hreinlega rangt, sbr þessa mynd:
https://fbcdn-sphotos-a-a.akamaihd.net/hphotos-ak-snc7/2002_4969349586169_1455817514_n.jpg

Sem fengin er héðan:

http://www.google.com/publicdata/explore?ds=k3s92bru78li6_#!ctype=l&strail=false&bcs=d&nselm=h&met_y=ppppc&scale_y=lin&ind_y=false&rdim=world&idim=world:Earth&idim=country:IS:MW:DK&ifdim=world&tstart=323136000000&tend=1490745600000&hl=en_US&dl=en_US&ind=false

Merkilegt nokk þá er landsframleiðsla á mann meiri á Íslandi en í Danmörku.

Þjóðartekjur á mann er allt önnur tala og ekki réttmæt þar sem þjóðin eða öllu heldur einstaklingar og fyrirtæki í þeirra eigu getur haft tekjur sem aldrei koma til landsins.

Landsframleiðslan er hinsvegar allt sem framleitt er á landinu af fyrirtækjum með heimilisfestu á Íslandi.

Helgi Jóhann sagði...

Sæll. Ég er sammála fjölmörgu sem þú segir og þar á meðal að þessi skýrsla gefur sér forsendur og fær niðurstöður sem rekast hver á aðra — EN þú staðhæfir að landsframleiðsla Dana á hvern íbúa sé miklu meiri en okkar. Samkvæmt alþjóðlegri tölfræði IMF er það hreinlega rangt, sbr þessa mynd:
https://fbcdn-sphotos-a-a.akamaihd.net/hphotos-ak-snc7/2002_4969349586169_1455817514_n.jpg

Sem fengin er héðan:

http://www.google.com/publicdata/explore?ds=k3s92bru78li6_#!ctype=l&strail=false&bcs=d&nselm=h&met_y=ppppc&scale_y=lin&ind_y=false&rdim=world&idim=world:Earth&idim=country:IS:MW:DK&ifdim=world&tstart=323136000000&tend=1490745600000&hl=en_US&dl=en_US&ind=false

Merkilegt nokk þá er landsframleiðsla á mann meiri á Íslandi en í Danmörku.

Þjóðartekjur á mann er allt önnur tala og ekki réttmæt þar sem þjóðin eða öllu heldur einstaklingar og fyrirtæki í þeirra eigu getur haft tekjur sem aldrei koma til landsins.

Landsframleiðslan er hinsvegar allt sem framleitt er á landinu af fyrirtækjum með heimilisfestu á Íslandi.

Unknown sagði...

Takk fyrir þessi skrif. Ég er sammála flestu þarna.

Kv., Björgvin Þórhallsson

Nafnlaus sagði...

Þetta er mjög góður pistill.
Það er verulegt áhyggjuefni að jafn valdamikill hópur hefur óskynsamlegar hugmyndir um menntamál

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir framúrskarandi grein.

Þessi "samráðshópur" segir eiginlega allt sem segja þarf um þetta þjóðfélag gervi-vísinda og gervi-menntamannna.

Með hreinum ólíkindum er að þetta plagg sé sett fram af fólki sem á að teljast menntað og ábyrgt.

Þarna er á ferð stöðluð hugsun excel-trúar og hinnar gássísku meðalkúrfu.
Kærar þakkir.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_OECD_countries_by_GDP_per_capita

Stefán Ólafsson sagði...

Margir góðir punktar í þessari gagnrýni.

Nafnlaus sagði...

Athyglisverð grein og má taka undir margt hér.

Hins vegar leyfi ég mér að setja spurningarmerki við útreikninga höfundar á lækkun kennsluskyldu með aldri þar sem sagt er að "muni nærri 40 prósentum". Starfandi kennari fer frá 26 kennslustundum niður í 19 stundir á löngum starfsferli og er það lækkun um u.þ.b. 27%. Ekki er í neinu tilfelli um að ræða fjölgun kennslustunda með aldri, úr 19 upp í 26, sem virðist vera forsenda útreikninga höfundar (það eru um 36%, hin væntanlega "nærri 40%" í augum útreiknanda).

Ef reikningskunnátta kennara almennt er ekki upp á fleiri fiska, nú, þá er máske full ástæða til að hafa áhyggjur af skólakerfinu.

En, eins og maðurinn sagði, það eru til lygar, bölvaðar lygar og loks ... tölfræði.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ef kennsluafsláttur 60 ára og eldri væri afnuminn myndi það auka kennslu þess hóps um 36% og fækka grunnskólakennurum um meira en 100.

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert, Ragnar.

Reikniforsendur þínar í athugasemdum 11-12 standast eingöngu ef farin er sú leið að afnema lækkaða vinnuskyldu eldri kennara. Þú vilt sem sagt auka vinnuframlag eldri kollega þinna, þeirra sem eru líklegastir til að teljast kulnaðir í starfi og hafa margir hverjir staðið vaktina í aldarþriðjung eða lengur og áunnið sér samningsbundin réttindi um kennsluafslátt, og síðan láta þá, þessa kulnuðu, vinna störf 100 grunnskólakennara, sem ella yrðu væntanlega mönnuð yngra fólki?

Jæja, gangi þér vel – og sérstaklega með að fá þessa eldri kennara til samstarfs við þig. Við skulum vona að þú náir fram hugsjónum þínum áður en þú verður sextugur.

Ég ætti samt að árétta að 36% fara nær því að vera „ríflega þriðjungur“ heldur en „nærri 40%“ hvernig sem á er litið. En tölfræðileg framsetning er vitaskuld vopn í baráttu hugmynda, ekki satt?

Annars er ég sammála þér um að þessi skýrsla (glærusýning) samstarfsvettvangsins sé æði gloppótt, að minnsta kosti þegar kemur að menntamálum. Örstutt dæmi: Árið 1929 var fyrstu 5 ára áætlun Stalíns hleypt af stokkunum, með framleiðslumarkmiðum sem áttu að nást á 4 árum. Voru því búin til auglýsingaplaköt til að hvetja lýðinn og á þeim stóð 2+2=5. Þetta tók Orwell háðulega upp í 1984 þar sem 2+2=5, ef ríkið segir það. Og hvað ætli standi stórum stöfum í glærusýningu samstarfsvettvangsins? Jú, á glæru nr. 206 stendur 1+1=3. Hljómar kunnuglega eða hvað?

Fjölmörg önnur atriði menntamálaorðræðu skýrslunnar mætti skjóta niður, því að þar ægir saman rökvillum. Læt ég duga hér mótsagnarkennda yfirskrift glæru nr. 203: „Aukið menntunarstig með styttingu grunn- og framhaldsskólanáms.“ Ef slíkri röksemdafærslu er fylgt út í æsar, þá ætti afnám grunn- og framhaldsskólanáms að auka menntunarstig þjóðarinnar mest.

Kaldhæðið, ekki satt?

Nafnlaus sagði...

Helgi Jóhann, tölurnar sem þú ert með eru á PPP-grunni en það eru tölur hópsins ekki. Væru þær það myndi Ísland ekki vera þarna á listanum en það er einmitt það sem greinin segir.

Kveðja,

Högni Haraldsson.