2. febrúar 2013

Píratar gætu stolið þrumunni af BF



Gallinn við framboð Bjartrar framtíðar er að flokkurinn er of borgaralegur, of stofnanalegur. Of líkur hefðbundnum stjórnmálaflokki að næstum öllu leyti. Það dugar ekki til að Jón Gnarr sé í heiðurssæti og nokkrir minni spámenn úr Besta á listum. Orðfærið er meira að segja alveg drepleiðinlega stjórnmálalegt:

Stjórnmálaaflið sem við viljum skapa á ekki að vera valdatæki þröngra hagsmuna. Við viljum skapa eðlilegan og afslappaðan vettvang þar sem ólíkir einstaklingar, sem deila lífssýn, geta komið saman og tjáð hug sinn til samfélagsmála og boðið fram hugmyndir sínar, drifkraft og þjónustu í þágu alls almennings. Það er einmitt ein meginhugmynd okkar um stjórnmálaþátttöku: Þjónusta.

Þetta er of upphafið og ónáttúrulegt. Auk þess hefur verið bölvað bras kringum aðalframbjóðandann í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Lítur illa út. Virkar eins og hann hafi hrökklast úr starfi vegna slælegrar frammistöðu eða valdastríðs og ætli að hoppa inn á þing. Fylgi Guðmundar Steingrímssonar er heldur ekki sérlega stabílt. Hann er af deyjandi sort. Íslensku blairistarnir sem ætluðu að frelsa þjóðina undan oki Sjálfstæðisflokks en eru flestir búnir að snúa sér að öðru.

Formúla Besta flokksins var sú að gera stólpagrín að öllu saman. Skapa eins mikil bil á milli sín og hefðbundinna stjórnmála og mögulegt var. Taka helst aldrei „málefnalegan“ slag við aðra frambjóðendur. Það var uppskrift að leiðindum.

Stuðningur við BF er yfirfærður stuðningur frá Besta. Margir utan Reykjavíkur hefðu gjarnan viljað geta kosið Gnarr og félaga og hika ekki við að kjósa afkvæmið, þótt það skorti sjarmann, andófið og spennuna.

Áhugi á kosningunum er lítill meðal almennings. Fáir taka afstöðu í könnunum.

Sá flokkur sem hægast á um vik með að fylla tómarúmið eru píratarnir. En til að það takist mega þeir ekki taka sig of hátíðlega. Þeim má ekki vera of mikið niðri fyrir. Þeir mega heldur alls ekki eyða meiri tíma í að svara fyrir nafnið, eins og róttækni sé eitthvað til að biðjast afsökunar á. Þeir þurfa þvert á móti að vera enn róttækari. Enn léttlyndari. Enn galnari. Láta framboðið fara fram undir svörtum eða bleikum sjóræningjafána og hanna söluvöruna eftir þeim umbúðum.

Píratar geta, ef þeir forðast stofnanavæðingu og borgaralega geldingu, náð til sín töluverðu fylgi. Þeir þurfa að setja á toppinn tvö þrjú mál sem gefa til kynna að þar fari róttækt afl. Því róttækara, því betra. Eitt slíkt mál gæti t.d. verið að berjast fyrir nýjum leiðum í baráttunni gegn kannabisefnum. Það er alveg orðið tímabært að slík mál séu tækluð frá nýrri hlið. Ég hugsa að flokkur sem legði áherslu á forvarnir en um leið vildi lögleiða efnin ætti heilmikið fylgi. Og það hjá fólki sem er ekkert endilega að fara að kjósa í næstu kosningum.



Ennfremur gætu píratar gengið lengra og sett alhliða friðsamlega baráttu gegn hverskyns ofbeldi á koppinn. Er ekki full ástæða til þess að stjórnmálaafl setji sér það markmið að berjast af miklu kappi gegn rótgrónu ofbeldi í samfélaginu? Mætti ekki berjast fyrir því að fjölga konum í Hæstarétti og öðrum dómstólum í ljósi nýfallinna dóma?



Svo ættu píratar að sjálfsögðu að berjast fyrir því að Mannanafnanefnd sé lögð niður. Hver veit, kannski myndi Jón Gnarr kjósa þá. Þeir þyrftu allavega ekki að taka fleiri sennur um nafnið með það á stefnuskránni.

Með öðrum orðum, ef píratar gerðust nú verulega róttækir og hættu að reyna að virka „virðulegir“ þá held ég að framboðið yrði miklu eðlilegra og vinsælla. Það gæti líka verið mjög skemmtilegt. Best væri þó að í stað þess að vera skemmtilegt með þeim hætti að barist væri fyrir ókeypis handklæðum í sundi og ísbjörnum í Húsdýragarðinn – þá væru þetta alvöru baráttumál sem virkilega væri akkur í að næðu fram.

Vandi pírata er að þar fer fólk sem er að mörgu leyti of klárt fyrir Ísland. Fólk sem gjörþekkir hliðar á flóknum málum sem almenningur á Íslandi hefur litla innsýn í eða þekkingu á. Í því ástandi virkar nafnið píratar eins og tæknilingó. Flokkurinn gæti eins heitið Hypertext Transfer Protocol – sem er einmitt framandi nafn á fyrirbæri sem snertir alla – menn kannast bara ekki við það undir þessu nafni.

Píratar þurfa að slappa af og leyfa hálfkæringnum að blómstra. Hvernig væri að styðja baráttu hjúkrunarfræðinga með því að framleiða bleika augnleppa með merki pírataflokksins? Eða halda sjóræningjarstyrktarsýningu á Kill Bill þar sem hluti af styrktarfénu rennur til Smáís?

Sýn pírata er sú að fólk skuli njóta frelsis og stjórnvöld skuli ekki beita þegna sína valdi eða soga til sín völd umfram það sem nauðsynlegt er. Ef maður undirstrikar betur húmaníska ábyrgð og gæsku – þá geta þeir farið að dansa.

Og það sem meira er, það væri raunveruleg þörf fyrir þá á þingi.

1 ummæli:

Katrín Mixa sagði...

Drellifín grein. Hvað sem punktunum líður eru Píratarnir langáhugaverðastir flokka eða félaga kringum næstu kosningar.