2. febrúar 2013

Besti flokkurinn og Grafarvogur



Borgarstjóri hefur gert vel í því að sýna Breiðholti þá virðingu sem hverfinu ber. Það er eiginlega fátt meira óþolandi en úthverfafordómar – hvað þá þegar þeir blandast illa dulbúnum rasisma. Nú þarf Borgarstjórinn og flokkur hans að vinna í samskiptum sínum við Grafarvog.

Það gengur ekki að samskipti borgaryfirvalda og eins hverfis í borginni einkennist af lítilsvirðingu. Því miður er vandamálið ekki bara það að einhverjir blóðheitir sjálfstæðismenn kunni ekki að haga sér á fundum. Það er mikil ólga í hverfinu vegna umdeildra breytinga á skólamálum og að vissu leyti á sú gagnrýni rétt á sér að beint íbúalýðræði snúist fyrst og fremst um smámuni. Í stóru málunum fer minna fyrir því að vilji íbúanna sé virtur. 

Fúli fundarmaðurinn sagði á íbúafundinum að sér kæmi á óvart að Jón Gnarr þyrði yfir Gullinbrúna. Einhver spekingur á Moggablogginu tók þessi orð upp og kallaði þau alvarlega hótun. Ég held að í þeim hafi ekki falist nokkur einasta hótun. 

Í myndinni Gnarr, sem gerð var um framboð Besta flokksins, er nefnilega sena þar sem tilvonandi borgarstjóri grínast með það að þora ekki í Grafarvoginn á framboðsfund. Meðframbjóðendur hans taka undir grínið og spyrja hvort einhver tengdur framboðinu viti eitthvað um þetta hverfi. Þessu fylgir sena þar sem grínistinn Þorsteinn Guðmundsson er sendur á fundinn sem fulltrúi BF án þess að hafa hugmynd um af hverju hann er þarna og án þess að hann sé tiltakanlega að fela þá staðreynd að hann er sendur í Grafarvog af því að enginn annar vill fara.

Það er alveg ljóst að það stendur upp á borgarstjórann og flokk hans að bæta samskiptin við hverfið. Ef Jón Gnarr er í alvöru sá einlægi, heiðarlegi stjórnmálamaður sem maður vill trúa þá hlýtur hann að gera það.

Engin ummæli: