21. febrúar 2013

Jafningjafræðslan og yfirborðskenndar staðalmyndir

Jafningjafræðslan stærir sig af því að fleyta rjómann ofan af ungu fólki á Höfuðborgarsvæðinu til að munstra upp í það hlutverk að tala um fyrir unglingum sem þurfa á jákvæðum fyrirmyndum að halda. Ég skrifaði hér fyrir nokkuð löngu pistil um að eitthvað væri rotið við valferlið og stóð í framhaldinu í nokkrum bréfaskrifum við, að mig minnir, framkvæmdastjóra fræðslunnar. Í kvöld tók ég svo eftir því að stelpuskjátan sem stóð skælbrosandi í Laugardalshöll í dag og seldi félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum myndir af Jóhönnu til að snýta sér í var einmitt ein af þeim sem Jafningjafræðslan taldi gráupplagt að fá til liðs við sig í baráttunni fyrir batnandi heimi unglinga.


Allt í lagi með það. Það er fyrirbæri eins og Jafningjafræðslunni ekki til verulegs vansa þótt einn og einn starfsmaður hennar reynist smekklaus. Það þarf ekki einu sinni að benda til þess að þessari stúlku sé alls varnað. 

En þetta fékk mig til að aðgæta hvort það sem ég sá athugavert við val Jafningjafræðslunnar á „jafningjum“ á sínum tíma væri komið í lag. Mér til nokkurrar skelfingar sá ég að ástandið hefur versnað.


Á Höfuðborgarsvæðinu er fjöldinn allur af góðum skólum. Þeir bjóða upp á mikið námsframboð fyrir þann fjölbreytta hóp ungmenna sem þar stundar nám. Af einhverjum ástæðum telur Jafningjafræðslan að úr þessum stóra hópi fólks sé aðeins að finna verðugar fyrirmyndir í fjórum skólum. Og aðeins meðal nemenda sem stunda hefðbundið bóknám. 

Myndin hér að ofan sýnir tvennt. Annarsvegar hlutfall fjögurra skóla þegar kemur að fjölda „fræðara“ hjá Jafningjafræðslunni. Hinsvegar hlutfall þessara sömu skóla þegar kemur að nemendum frá 15-21 árs. 

Þetta eru eflaust allt ágætir skólar á sinn hátt. Þeir eru samt ekki nærri því eins merkilegir og margir nemendur þeirra fyrr og nú halda. Þeir þjóna líka einstaklega einsleitum hópi ungmenna. 

Með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem telja hefðbundna bóknámsskóla upphaf og endi æðri menntunar á Íslandi þá hefur óeðlileg áhersla á þessa skóla beinlínis orðið til að viðhalda skaðlegum staðalmyndum um ungmenni. Þessi sama áhersla hefur þau áhrif að litið er niður á allt nám nema hefðbundið bóknám. Heilu ættliðirnir rúlla inn og út úr skólunum og eftirláta hverri nýrri kynslóð að fægja snobbspegilinn. 

Þegar ég var í menntaskóla, sem nóta bene var hágæða snobbhús að mörgu leyti, var einn samnemandi minn svo illa haldinn af glýju yfir að fá að trítla eftir hundraðára gömlum panelnum að hann keypti sér sérsmíðaðan hring með merki skólans og stundaði það á fylleríum að láta keyra sig um miðbæinn og öskra ókvæðisorð og niðurlægingar á þá sem hann sá, þekkti og vissi að voru í verknámi. Skammaryrðið „logsuðugúrú“ var sérstakt stolt hans. Eflaust er hann gjörbreyttur maður í dag en mér leikur forvitni á að vita hvort hann keypti Jóhönnuklút af gamla fræðaranum á landsfundi flokksins sem sagan sýnir að hann ætlar sér frama í.


Ekki gamli skólabróðirinn en sá er varla langt undan


Ef aðdáendur hefðbundinna bóknámsskóla trúa í alvöru á gríðarlegt ágæti þeirra held ég þeim væri hollt að skoða hvar þeir dvöldu milli tektar og tvítugs, mennirnir sem sviku, stálu og hikuðu ekki við að skilja eftir slóð tortímingar á leið sinni til valda, auðs og áhrifa. Það er ansi hætt við því að við, sem bárum hvítu kollana úr hinum miklu menntasetrum þjóðarinnar, séum andlegir kviðmágar margra af verstu sonum þessarar þjóðar.

Það sem allavega er alveg ljóst er það að það er öldungis fráleitt að halda því fram að nemendur MR, Verzló, MH og Kvennó séu á einhvern hátt betri eða meiri fyrirmyndir en nemendur annarra skóla. Það er líka miklum vafa undirorpið hvort einsleitur hópur bóknemenda séu þær fyrirmyndir sem þau ungmenni þurfa á að halda sem eru í einhverri raunverulegri hættu á að tapa áttum í lífinu.

Hvað segir það okkur þegar sjálfur borgarstjórinn er í raun meiri jafningi þeirra sem þurfa á fyrirmyndum að halda heldur en ungmenni sem eru sérvalin til verksins? 

Það er eitthvað skemmt við hugarfar jafningjafræðslunnar. Hún hefur tapað áttum í glysi og gamni. Hún skilur ekki hlutverk sitt alminlega. Hún þarf að skrúfa sig niður af snobbstallinum.

Engin ummæli: