22. febrúar 2013

Það er skólastjórum að kenna að ekki verður hægt að semja



Skólastjórar í grunnskólum eru ábyrgir fyrir faglegu starfi þeirra. Þessi ábyrgð er ekki lítið mál. Þeim ber að sjá til þess að skólinn uppfylli kröfur um einstaklingsmiðað nám í stöðugri þróun þar sem allir meðlimir skólasamfélagsins koma að borðinu og skapa sinn skóla.

Skólinn núna er í djúpri kreppu og allar tilraunir til að finna samræðugrunn inn í framtíðina hafa brugðist. Nú er nýhafið enn eitt árið af engu nema þreifingum og fálmkenndum tilraunum til að koma skólanum upp úr hjólfari stöðnunar og óviðunandi kjara. Ég er ákaflega svartsýnn á að nokkuð komi út úr því.

Ég er þeirrar skoðunar að skólastjórar beri hér stóra ábyrgð. Og þeir séu of sjaldan minntir á það.

Mjög margir skólastjórar hafa brugðist illilega í starfi. Þeir hafa nýtt verkstjórn sína á faglega óverjandi hátt.

Í fyrravetur fór ég á fund með náttúrufræðikennurum í Reykjavík. Um var að ræða dálítinn herópsfund þar sem leggja átti línurnar svo bæta mætti úr sárlegum skorti á áhuga nemenda og getu í náttúrufræði. Í lok fundar voru umræður milli kennaranna sem sátu saman við borð. Á mínu borði voru tveir náttúrufræðikennarar sem höfðu lítið til málanna að leggja annað en það að játa fyrir okkur hinum að þeim óaði við þessu djobbi á allan hátt. Þeir væru enda ekki neinir náttúrufræðikennarar, þeir hefðu bara verið látnir kenna fagið því enginn annar fékkst til þess eða vegna þess að þetta var eina leiðin til að „fylla töflu“ hjá þeim. Annar þessara kennara sagði okkur að það hefði fengið svo á sig að þurfa að kenna náttúrufræði að hann hefði látið færa það til bókar á kennarafundi að hann teldi sig persónulega ekki ábyrgan fyrir árangri (eða árangursleysi) nemenda í faginu.

Þetta er semsagt viðbragð einhverra skólastjóra við því að samræmt próf í náttúrufræði var fellt niður. Fagið er afgreitt sem afgangsstærð og lágmarkskrafa um hæfi kennara er höfð að engu. Skólastjóri sem gerir svona er vanhæfur. Því miður er það svo að þeir eru nokkuð margir skólastjórarnir sem vita nákvæmlega upp á sig þá sök að sinna tilteknum lögbundnum námsgreinum illa eða alls ekki. Enginn ber ábyrgð á því nema þeir.

Sú hefð hefur orðið ofan á, þrátt fyrir tilraunir til að stöðva það, að foreldrar eru látnir bera kostnað af þeim fáu ferðum sem börn fara á skólatíma. Ég fékk í gær sem foreldri póst frá foreldrafélagi skóla dóttur minnar þar sem beðið var um pening til að hægt væri að borga með ferð eldri nemenda skólans og þótt það væri ekki mín dóttir sem nyti þess núna, þá kæmi að henni seinna og þá myndu aðrir borga. Að sjálfsögðu ætti skólinn að kosta slíkar ferðir. En jafnvel þótt við horfum fram hjá því og færum rök fyrir því að fjáröflun sé bæði eðlileg og góð, sérstaklega þar sem ferðir ná bæði yfir skólatíma og frístundatíma, þá er algjörlega óverjandi að skólastjórar margir hverjir stundi það að taka slíkar ferðir í gíslingu og neita að borga kennurum umsamin laun fyrir þær. Þess í stað er kjarasamningur brotinn og kennurum greiddar mun lægri greiðslur, þ.e. þegar búið er að finna þá kennarar sem auðveldast er til að fá til að brjóta gerða samninga. Yfirleitt eru það kennarar sem hafa brennandi áhuga á að gera börnunum þennan greiða.

Það má efast um skyldu skólastjóra til að standa straum af kostnaði við ferðalög barna utan skólatíma. Engin leið er til að efast um skyldu þeirra til að sinna börnunum á skólatíma. Skólastjórar hafa ekki leyfi til að senda börn heim úr skólanum á þeim tíma sem þau eru skólaskyld. Þeir gera það samt. Oft og ítrekað. Í langflestum tilfellum er um sparnaðarráðstöfun að ræða, ekki neyðarráðstöfun. Börnin eru einfaldlega send heim vegna þess að skólastjóri ákveður að skipuleggja starf skólans þannig að forföll kennara séu ekki leyst nema í ákveðnum aldurshópum eða þau sem eru til lengri tíma.

Ástæða þess að ekki tekst að semja við sveitarfélögin nú er að sveitarfélögin vilja taka burt úr kjarasamningi ýmis höft sem binda hendur skólastjórnenda og fela stjórnendunum verkstjórn yfir kennurum.

Þá vaknar þessi spurning: hefur verkstjórn skólastjórnenda hingað til staðiðst lágmarkskröfur um faglegt starf?

Svarið við því er nei.

Skólastjóra hefur því miður skort fagmennsku og staðfestu á undangengnum árum og sannað að þeim er ekki treystandi til að fara með verkstjórnarvald. Við slíkar aðstæður eykur enginn heilvita maður vald þeirra án fyrirvara.

Skólastjórar hafa vissulega verið undir þrýstingi yfirmanna sinna og verið lagðar ýmsar línur – en það hvorki fríar þá ábyrgð né réttlætir margt af því sem hefur viðgengist. Aumlegast finnst mér þó þegar ég heyrir skólastjóra segja (sem ég hef oft heyrt) að það sé foreldra að krefjast umbóta. Þeir geti ekkert gert fyrr en foreldrar stappi niður fæti og krefjist þess að skólinn hætti að senda börnin þeirra heim á skólatíma eða sinni þeim að öðru leyti eins og honum ber.

Vissulega mega foreldrar taka til hendinni og krefjast þess að börn þeirra fái það sem þau eiga rétt á. Skólastórar geta samt ekki notað það sem afsökun fyrir ítrekuðum brotum að þeir hafi komist upp með þau.

Ef skólastjórar hefðu staðið sína vakt kæmi vel til greina að semja við sveitarfélög á þeim nótum sem þau óska. Eins og staðan er núna er það einfaldlega ekki hægt. Allir samningar sem gerðir verða við sveitarfélög verða að innihalda lágmarkstryggingar um gæði skólastarfs og rétt nemenda. Það verður að takmarka vinnuskyldu og hópastærðir.

Það verður ekki hægt að semja um annað því skólastjórar hafa tekið upp þá viðteknu venju að fórna fagmennskunni til að friðþægja fjármálafólkinu bak við tjöldin.

Engin ummæli: