3. október 2012

Versti skólabær á Íslandi


Ég álít sjálfan mig góðan kennara. Ég hef góða og fjölbreytta þekkingu á námsefninu, hef vald á mörgum kennsluaðferðum og er óhræddur að þróast í starfi. Um ekkert ofangreint er ég einstakur. Við erum fjölmörg sem höfum yfir að búa hugsjón og færni sem gerir skólakerfið örlítið betra. 

Í ljósa þessa finnst mér voðalegt til þess að hugsa að eitt af stærstu sveitarfélögum Íslands hefur búið þannig um hnútana að þar get ég ekki að óbreyttu starfað sem kennari. Það er Hafnarfjörður. Fræðsluyfirvöld í Hafnarfirði hafa lagt metnað sinn í að breyta skólakerfi bæjarins þannig að stór hópur drífandi, samviskusamra kennara getur ekki hugsað sér að starfa í bænum.

Miðstýring er tæringarafl í skólakerfinu. Það er búið að eyðileggja samband þeirra aðila sem í sameiningu eiga að sinna leik- og grunnskóla með geggjaðri, og á stundum fólskulegri miðstýringaráráttu. Skólakerfið er veiklað – fullt af tregðu og tortryggni – og að því er virðist næstum ófært um að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem þó blasa við í skólaþróun.

Kennarar telja sig margir áhrifalausa, og þar með ábyrgðarlausa, um þróun kennslustarfsins. Líta á tækifæri til betrumbóta sem góðar hugmyndir – en ekkert meira en það – enda skorti þá allt til þess að framkalla breytingar. Búnaður er gamall, hugarfarið enn eldra – og völdin kúra í kjöltu embættismanna og „sérfræðinga“ sem átta sig ekki á skaðsemi sinni.

Hafnarfjörður er versti skólabær á Íslandi.

Ekki vegna þess að þar sé vond börn eða metnaðarlausir kennarar. Börnin þar eru yndisleg eins og ég hef sjálfur komist að raun um og kennararnir fullir af sömu umhyggju og metnaði og einkennir stéttina almennt.

Hafnarfjörður er samt versti skólabær á Íslandi.

Ástæðan er sú að þar hafa einhverjir embættismenn gersamlega misst sjónar á hinu lífræna hlutverki skólans og tekið gerræðislegar miðstýringarákvarðanir sem eru svo yfirborðskenndar og, liggur mér við að segja, fullar af skorti á mannúð að undrum sætir.

Kennarar í Hafnarfirði skulu gjöra svo vel og framfylgja andstyggilegri atferlismótunarstefnu sem á yfirborðinu þykist vera mannúðarstefna. Stefnan kallast SMT. Nú hef ég skoðað hana í kjölinn á síðustu dögum og get fullyrt af fullkominni hreinskiptni að ég ég myndi aldrei, aldrei, aldrei leggjast á það lága plan að framfylgja þeirri stefnu. Ég myndi taka börnin mín úr slíkum skóla og ráðleggja öllum sem ég þekki að sniðganga skólana.

SMT byggir á skipulögðum refsingum þeirra barna sem erfitt eiga með að aðlagast hefðbundnu skólaumhverfi. Börn eru skilgreind sem „eðlileg“ og óeðlileg – og óeðlilegu börnin á að þjálfa eins og rottur í búri til að láta af allri „óæskilegri“ hegðun. 

Í SMT-skóla er ekki óalgengt að börn séu látin þramma hægra megin á göngunum og þau gripin glóðvolg við allar yfirsjónir og refsað á sýnilegan og niðurlægjandi hátt. Börnum er ennfremur hótað með foreldrum sínum. Þeim er gert það ljóst að sé hegðunin ekki í fullu samræmi við reglur geti það þýtt að skólinn hafi samband við foreldrana.

Þvílík heimska! Þvílík mannvonska!

Þar sem ég sit nú á aðalbókasafni Kaupmannhafnar og skrifa þessar línur sækir á mig samanburður. Bara í morgun sótti ég heim einn framsæknasta skóla Danmerkur þar sem börn eru beinlínis hvött til að hlaupa á göngum. Í gær sat ég fyrirlestur manns sem kemur frá skóla sem hannaður var með það að leiðarljósi að börn „rækjust“ hvert á annað. Á sama tíma þramma börnin eins og verksmiðjuþrælar frá 19. öld um ganga skólanna í Hafnarfirði og er refsað fyrir að ganga of hratt.

Ég ábyrgist, og veit fyrir víst, að börnin í Hafnarfirði sem svona eru meðhöndluð eru ekki hætishót betur öguð eða hófstilltari en börn sem venjast meira frelsi. Það er engin einasta réttlæting þess að koma svona fram við börn. Að skilgreina lítinn hluta þeirra sem vandamál sem verði að leysa með róttækum leiðum – öllum til ama.

Það sem bjargar börnunum í Hafnarfirði er að börn eru seig. Þau þola ýmislegt misjafnt án þess að bogna eða brotna. Þau hafa jafnvel unun af því að fylgja skipunum og fyrirkomulagi. 

Þau hafa hinsvegar alls ekki gaman af því að vera refsað eða skömmuð.

Margar af reglunum sem t.d. unglingarnir í Hafnarfirði þurfa að hlýða hafa engan tilgang annan en að kenna börnunum að hlýða reglum. 

Allt mögulegt og ómögulegt er bannað. Hlutir sem ekkert mál er að leyfa.

Nú veit ég að eflaust eru einhverjir kennarar óskaplega hrifnir af SMT. Ég þoli þeim það alveg – þótt mér detti ekki í hug að starfa með þeim eða fela þeim börn sem mér þykir vænt um. Mér væri meira að segja slétt sama þótt til væru skólar sem legðu metnað sinn og alhug í að vera SMT-skólar. 

Það sem hinsvegar er óverjandi er að heilt sveitarfélag neyði öll börn og alla kennara til að vinna innan svo þröngs ramma sem SMT er.

Ég bara trúi ekki öðru en að það sé verulegur hluti kennara í Hafnarfirði á móti hugmyndafræðinni sem þeir eru neyddir til að starfa eftir. Það bara getur ekki verið að heil starfsstétt í heilum bæ sé svo einsleit að stefnan njóti yfirgnæfandi stuðnings.

Ég veit fyrir víst að margir unglinganna í Hafnarfirði hata SMT. Ég komst að því þegar unglingar frá okkur hittu þá. Þeir einu sem ég heyrði tala vel um stefnuna voru þeir unglingar sem töldu hana hjálpa til við að temja þá nemendur sem væru til vandræða. „Óeðlilegu“ börnin.

Maður gerir ekki „óeðlilegt“ barn „eðlilegt“ með því að refsa því til hlýðni.

Maður sættir sig einfaldlega við það sem upphafspunkt að hver ein og einasta manneskja verðskuldi mannvirðingu og reisn. Skólakerfi á að gera börnum kleift að vaxa, ekki aðlagast. Það á að byggja á ábyrgð og trausti, ekki hlýðni og undirgefni.

Skólakerfið sjálft þarf að vaxa. Það gerir það ekki nema kennarar fái að framfylgja eigin hugsjón. Ekki yfirborðskenndum lausnum atferlisfræðinga sem sjá börn sem tölfræði.

Það góða við skólakerfið í Hafnarfirði er gott þrátt fyrir SMT – ekki vegna þess.

SMT er ægileg tímaskekkja sem fer á skjön við allt sem er heilbrigt og gott við samskipti fólks. Það höfðar ekki til innri ábyrgðahvatar, öryggis og vinsemdar. Það brúar ekki bilið á milli mismunandi einstaklinga.

Ef það er virkilega svo að afdrif barna í Hafnarfirði eru betri með SMT en án þess – þá þarf að skoða hvaða áhrif umhverfið og kennsluhættirnir hafa á þau börn sem lenda í vandræðum. 

Vandræði og „andfélagsleg“ hegðun barna er alltaf afrakstur a.m.k. tveggja þátta. Einstaklings og samfélags. 

Á mínar götur hafa ratað fjölmargir „andfélagslegir“ nemendur. Nemendur sem jafnvel hafa verið illa farnir eftir einelti eða vanlíðan. Einn nemandi eyddi frímínútunum fyrst eftir að ég kynntist honum í að tala við nýju bekkjarfélagana um það hvernig hann myndi drepa sig með því að hella yfir sig bensíni, faðma kennara og kveikja í. Annar nemandi sagði öllum fullorðnum sem hann sá að fokka sér.

Þegar sá fyrri kvaddi mig gaf hann mér knús (og það var engin bensínlykt af honum). Og hann gaf mér gjöf. Hinn nemandinn hæfævaði kennara hægri vinstri og knúsaði á víxl ári eftir að hann kom.

Þessir nemendur, og ótalmargir aðrir, voru ekki atferlismótaðir eins og slefandi hundar. Þeim var sýnd hlýja og samúð. Gert var í því að kenna skólasamfélaginu öllu að viðurkenna þá og meðtaka – með kostum og göllum. Þeim var ekki refsað. Samband foreldra þeirra og okkar var ekki svívirt með því að gera foreldrana að refsivendi. 

Það barn sem nýtur virðingar, hlýju, mannúðar og öryggis í skóla fer að sýna sömu einkenni í hegðun og samskiptum.

Mér finnst SMT hræðileg hugmyndafræði. Illa hugsuð alhæfing á aðferð sem vissulega getur verið gagnleg í afmörkuðum tilfellum – þegar börn, foreldrar eða kennarar finna enga leið betri.

Börn að fylgja reglum bara til að læra að hlýða er vitleysa.

Það eru svo miklu betri leiðir til. 

Því miður fá kennarar í Hafnarfirði ekki að beita þeim – því skólayfirvöld í bænum skilja ekki hvað skóli snýst um.

41 comments:

Nafnlaus sagði...

Atferlissjálfssköpun er góð til ljóðasköpunnar.

Noti Nemendur hana sér til varnar gegn Atferlisisma.
Kennarra. Skólayfirvalda.
Fræðslu Atferlismótunnar
Yfirvalda.

Sem enn notast við úrrelta
Sálfræði Atferlisstefnunnar.

Hörður Hylur Gunnarsson

Nafnlaus sagði...


Fyrst og fremst hlýtur skólaumhverfi að byggjast á virðingu. Virðingu nemanda sín á milli, virðingu gagnavart umhverfinu og kennara sínum. Að einn nemandi vilji hlaupa öskrandi um ganga og velta við borðum er ekki réttur viðkomandi.

Ekki gleyma því að einn einstaklingur getur eyðilagt skólastarfs heils bekkjar. Það nægir nefnilega ekki alltaf að faðma óstýrlátan nemanda.

Faðir barns í Háteigsskóla.

Nafnlaus sagði...

Atferlisstefnan og atferlismótun virðast af einhverjum ástæðum orðið mjög vinsæl á Íslandi síðustu 20 ár , bæði meðal sálfræðinga, kennara og leikskólakennara. Orðið "agi " er töfraorðið. Þetta er í eðli sínu mjög fasístik hugmyndafræði sem miðar að því að ala upp ósjálfstæða meðfærilega einstaklinga sem halda kjafti og hlíða yfirboðurum í einu og öllu.
Annars staðar, nema ef til vill í kristnustu Ameríku, þykir þetta mjög gamaldags hugmyndafræði.
Mig grunar að Hafnarfjarðarbær hafi fundið þessa stefnu þar án þess að hafa kynnt mér það.Furðulegt að vinstri menn átti sig ekki á hvað þessi hugmyndafræði er á skjön við allt það lýðræði sem þeir boða.

Nafnlaus sagði...

Myndi segja að PMT og SMT væri eitt best heppnaða markaðssetning einkaðaðila í skólakerfinu. Við þetta dunda sér þrír eða fjórir sálfræðingar við Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar á fullum launum.

Nafnlaus sagði...

vá. áhugavert og mikilvægt umræðuefni sem mér þætti gaman að fjalla um sem foreldri og fagaðili (tek fram - hef ekkert með þessa umræddu skólastefnu né sveitarfélag að gera). en glætan að ég taki þátt í umræðu þar sem uppnefni og alhæfingar eru í forgrunni. ekki beint í anda mannúðarstefnunnar sem verið er að boða - að gera lítið úr skólastarfi heils bæjarfélags og vinnu fjölda góðs fólks án mikilla raka og aðallega með því að vera með yfir-dramatíseraðar lýsingar (börn eins og þrælar - common...). áfram upplýst umræða, niður með alhæfingar.
Steinunn Gestsdóttir - ekki nafnlaus

Nafnlaus sagði...

Tók smá tíma að finna eitthvað um þetta, en hér má lesa það:
http://www.vidistadaskoli.is/index.php?option=com_content&view=article&id=5&Itemid=40

Dæmi hver fyrir sig.

Nafnlaus sagði...

Hljómar svolítið eins og við séum að fara aftur til tímans þar sem þeir sem voru örvhentir voru neiddir til að nota "rétta" hendi með því að binda þá röngu svo þeir gátu ekki beitt henni...

er það það sem við virkilega viljum

Nafnlaus sagði...

Hljómar svolítið eins og við séum að fara aftur til tímans þar sem þeir sem voru örvhentir voru neiddir til að nota "rétta" hendi með því að binda þá röngu svo þeir gátu ekki beitt henni...

er það það sem við virkilega viljum

Nafnlaus sagði...

Svo má ekki gleyma pmt -fánanum sem PMT flaggar sem oftast í skólunum í Hafnarfirði þegar fram fara SMT hyllingar.

Nafnlaus sagði...

svo má ekki gleyma að greining á vandamálum nemenda í skólakerfinu eins og námsgreiningar, greiningar á lestrarkunnáttu, einstaklingsbundnum veikleikum og styrkleikum nemaanda hvort sem þær eru gerðar af sérkennara eða skólasálfræðíngi, samrýmast ekki grunnforsendum atferlismótunar,þar sem hæfni og geta nemenda mótast aðeins af styrkingum hvort sem um er að ræða klassískar styrkingingar eða virkri skilyrðing , jákvæðum eða neikvæðum styrkingum

Kleina sagði...

Reyndar er grunnur atferlismótunar sá að kenna æskilega hegðun. Æskileg hegðun er skilgreind af samfélaginu, dæmi um slíkt gæti verið kurteisi eða að skiptast á. Persónuleg finnst mér vanta meira af slíku í skólakerfinu, þ.e. að byggja upp samfélagslega ábyrga einstaklinga, sbr. hegðun háttsettra manna fyrir hrun.

Síðasti ræðumaður segir að grunnforsenda atferlismótunar geri ráð fyrir að hegðun mótist aðeins af (því sem ég held hann meini) afleiðingum hennar sem er svo sem rétt, en það gefur alls ekki til kynna að meðfæddir og líffræðilegir þættir hafi ekki áhrif á getu viðkomandi.

Nemi með námsörðuleika mun líka frekar leggja sig fram ef afleiðingar þess að leggja sig fram eru hagstæðar (t.d. hrós, hærri einkunn eða betri skilningur áf efni).

bkv
Steinunn Anna Sigurjónsdóttir
foreldri hamingjusams barns í Öldutúnsskóla.

Nafnlaus sagði...

Hæ Steinunn, átti við að atferlisstefnan viðurkennir ekki einstaklingsmismun vegna eigin verðleika eða hæfileika, en auðvitað erum við öll meira og minna háð líffræðilegri gerði og genauppbyggingu. Það sem gerir einstaklinga mismunandi er fyrst og fremst styrkingasaga þeirra en ekki arfgerð eða eitthvað slíkt. Hrós getur auðvitað virkað sem jákvæð styrking

Nafnlaus sagði...

Eg er ekki alfarið á móti atferlismótun og hún hefur dugða vel við ýmsar aðstæður og við ýmsum kvillum. En það sem mér finnst gagnrýnivert við PMT er að hér er einhverskonar hugmyndafræði á ferðinni, sem er í raun gamalt vín á nýjum belgjum, búið að klæða í neytendavænar umbúðir og selt Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. því næst er þessum bræðingi troðið inn í alla grunnskóla Hafnarfjarðari án þess að nokkur þori að opna á sér munninn og gert að opiberu hegðunarkerfi. Það er dálítið fasistískt eins og fram hefur komið. Við þetta dútla sér þrír sálfræðingar á fullum launum á meðan verið er að skera niður sérfræðiþjónustu við grunnskólana.

Kleina sagði...

Svo má líka velta fyrir sér muninum á tilteknu hegðunarmótandi kerfi svo sem PMT eða SMT og svo atferlisstefnunni.

T.d. mætti alveg búa til skóla sem byggði á hagnýtingu á atferlisstefnunni og notaði knús og high five á ólátabelgina ef þau viðbrögð reyndust auka tíðni æskilegrar hegðunar (svo sem brosi eða mætingu, námsáhuga, sköpunargáfu....whatever) eða draga úr óæskilegri hegðun (svo sem drápslýsingum eða árásum ....).

Námslögmálin leggja ekki gildismat á hvað á að ýta undir hjá nemum, heldur kennir hvernig er hægt að gera það markvisst. Skólarnir vinna þá vinnu hver fyrir sig.

Steinunn

EgillO sagði...

Hér er einhver smá misskilningur á ferðinni. Ragnar talar hvergi um að mæta eigi óæskilegri hegðun með knúsi eða hæfæv, hann var að benda á hvernig hegðun nemendanna breyttist.

Og Kleina, það er líka ekki hægt að benda á einhverja hegðun sem þér fannst vanta hjá ráðamönnum fyrir hrun, þeir einstaklingar gengu ekki í gegnum skólakerfi dagsins í dag. Mig grunar reyndar að miklu meira hafi verið lagt upp úr aga þegar þeir fóru í gegnum skólakerfið en almennt er gert í dag.

Kleina sagði...

Var hann ekki að tala um að hegðun nemenda breyttist í tengslum við jákvætt og styðjandi viðmót kennaranna?
Eða breyttist hún bara af frelsinu einu saman?

Eva Hauksdóttir sagði...

Ég man eftir stórum svola í 9. bekk sem hafði það að íþrótt að ganga í veg fyrir litlu stelpurnar í 2. og 3. bekk og rekast "óvart" utan í þær þannig að þær hrösuðu eða bregða fyrir þær fæti.

Annar sonur minn var í bekk með barni sem gekk aldrei fram hjá honum án þess að pota í hnakkann á honum, (það var ekki skilgreint sem ofbeldi og því neyddist hann til að taka á því sjálfur með þeim aðferðum sem búast má við af 9-10 ára gömlu barni.)

Svo mætti lengi telja.

Nú hef ég ekki kynnt mér hvernig þessari stefnu er framfylgt og ég verð að játa að ég hef nákvæmlega enga trú á því að nein agastefna geti upprætt andfélagslega hegðun barna sem ekki vilja vera í skóla. Ég vil bregðast við þessum vanda með því að afnema skólaskyldu. Það hvarflar þó svona að mér að reglum um að ganga hægra megin og halda höndum og fótum hjá sér sé frekar ætlað að tryggja rétt fjöldans til að ganga um sinn eigin vinnustað án þess að verða fyrir áreitni af þessu tagi en að búa til litla hermenn.

Sívar sagði...

Sæll Ragnar

Ég hef lesið nokkra pistla hjá þér og oftast kinkað kolli og verið sammála þér. Pistillinn um að gera menntakerfið betra var góður og voru þetta tvær góðar ábendingar.

En þessi pistill um SMT kerfið var... ekki nógu góður.

Ef þú hefur kynnt þér SMT kerfið nógu vel þá veistu að kerfið byggist aðallega á hrósi, eins og það er lagt upp með hugmyndafræðilega. Ástæðan er einfaldlega sú að það virkar einfaldlega best til að breyta hegðun einstaklings. Refsing samkvæmt atferlisfræðinni virkar illa og mun ekki hafa langvarandi áhrif.

SMT eða PMT kerfið er með þá hugmyndafræði. Það eru skýrar reglur sem krakkarnir sjálfir hafa sjálf oftast tekið þátt í að móta(ég verð nú að játa að reglufarganið í Víðistaðaskóla kom mér á óvart). Og síðan er lagt upp með hrós, miðar, stigasöfnun o.s.frv.

Jú það má eflaust finna dæmi þess að einhverjir skóla eða einstaklingar noti kerfið sem refsingu. En eins með allar stefnur þá eru þær jafn góðar og fólkið sem á að framfylgja þeim.

Núna veit ég ekkert um ástand Hafnafjarðabæs eða hvort þeir fylgi SMT kerfinu í þaula. En staðreyndin er sú að afterfilsmótun hefur mestu áhrifin á einstakling og er þá ekki skiljanlegt að skólaskrifstofa vilji nota kerfi sem hefur verið rannsakað í stað þess kerfis sem einn kennari vill nota og "hefur virkað fyrir hann í 30 ár"?

Nafnlaus sagði...

Ég er algjörlega sammála þér, ég hef átt 3 börn í SMT skóla í Hafnarfirði og hef gagnrýnt þessa stefnu í mörg ár.

Stefnan ekki aðeins bitnar á þeim sem einhverra hluta vegna eru "öðruvísi" hún bitnar líka á þeim sem gera allt rétt. Þau börn verða ósýnileg og fá sjaldan umbun. Börn sem haga sér vel fá sjaldan umbun fyrir góða hegun en þau sem eiga erfitt með hegðun fá marga umbunarmiða þegar þau geta hagað sér vel inn á milli.
Skilaboðin sem þú sendir börnunum eru: hagaðu þér nógu illa í einhvern tíma og gerðu svo eitthvað rétt og þá færðu fullt af umbunarmiðum, eða eins og sonur minn komst að orði einu sinni: "Ég veit alveg hvernig ég get fengið fullt af umbunarmiðum, ég bara fer að haga mér rosalega illa og svo einn daginn geri ég allt sem ég á að gera og haga mér vel og þá raka ég inn umbunarmiðum"

Önnur óhæfa í þessu kerfi er svo kallaðu 100 miða leikur sem á að hvetja enn betur til góðrar hegðunar. Þar geta börn sem haga sér extra vel fengið miða í þessum leik og eiga kost á að vinna sér inn skemmtiferð. Dóttir mín er mjög kurteis, prúð og stillt. Gerir alltaf það sem hún á að gera. Hún hefur aldrei fengið miða í 100 miða leiknum, og hún sem leggur sig extra vel fram þessa daga sem þetta stendur yfir. Hún er ósýnileg, á ekki séns af því hún er OF stillt. Vonbrigðin ár eftir ár þegar hún fær aldrei miða en horfir á "óþekktarormana" raka inn miðum í leiknum.

Ég hef líka átt barn með greiningu í þessu kerfi og það fékk aldrei umbunarmiða, aldrei. Barnið er með einhverfu, bað aldrei um neitt, gerði oftast það sem það átti að gera en aldrei fékk það umbunarmiða.

Þetta er mjög svo óréttlátt kerfi og ég er virkilega á móti því að hlutgera umbunina í formi þessara miða. Börn nærast vel á munnlegu hrósi, virðingu og umhyggju - ef þessum aðferðum er beitt þá blómstra flest börn.

Ég gæti líklega skrifað heila ritgerð um hversu ósátt ég er við SMT kerfið, en læt staðar numið núna.

Nafnlaus sagði...

Sívar, atferlisstefna er frábær til að móta og bæta hegðun einstaklings en ekki hópa. Það er of erfitt að gæta sanngirnis þegar um hóp er að ræða, of erfitt að fyrir kennarann að fylgjast með að hann gæti sanngirnis þegar hann úthlutar umbunarmiðunum.

Stoppmiðarnir svokallaðir eru gjarnan notaði sem hótun sem svo oft er alls ekki beitt. Verður þannig að innantómum hótunum sem krakkarnir læra fljótt að verður aldrei beitt.

Og þegar þú ert komið með svona stórt umhverfi eins og heilan grunnskóla þá er vonlaust að halda utan um og tryggja það að ALLIR starfsmenn skólans muni beita þessari aðferð eins og henni er ætlað að vera beitt.

Í skóla barnanna minna er hluti kennaranna sem notar þetta aldrei, dæmi eru um að kerfið sé notað sem hótun (þ.e. stoppmiðarnir) sem ekki er svo framfylgt. SMT virkar einfaldlega ekki í stórum hópum með misjöfnu starfsfólki.

Vinsælasti kennarinn hjá syni mínum er eldri kona, þegar ég spyr hann af hverju honum líkar svona vel við hana, þá svara hann: Hún öskrar aldrei á okkur, hún hrósar okkur oft og er umburðarlynd gagvart krökkunum. Hún notar ekki SMT umbunarmiðana, en nær frábærum árangri með krökkunum með umhyggju, skilningi og munnlegu hrósi fyrir vel unnin störf.

Unknown sagði...

Miðað við stóryrðin og sleggjudómana sem fljúga í þessum pistli á ég ekki von á að ritarinn breyti um skoðun en tel rétt að koma eftirfarandi á framfæri til lesenda sem vilja byggja skoðun sínar á fleiru en stóryrðum höfundar:
1. Atferlisfærði/atferlisgreining fær rækilega á kjaftinn frá höfundi sem telur sig hafa kynnt sér málið. Þetta kjaftshögg er óverðskuldað. Ein höfðuðsetning atferlisgreiningarinnar varðandi kennslu og nám er að ef börn geta ekki lært þá er það ekki þeim sjálfum að kenna og jákvæðar aðferðir duga betur en refsingar. Þau læra ekki vegna þess að við (við erum þá allir sem koma að barninu foreldrar, kennarar, vísindin, stjórnvöld) höfum ekki fundið réttu aðferðina til að kenna barninu. Atferlisfræðingar kunna semsagt að hafna því að dyslexia, greind, ofvirkni eða árásargirni sé notuð til að skýra einhver frávik hjá barninu; þeir hafna stimplum í þessu sambandi. Upplýsingar um gæði atferlisgreiningar má til dæmis finna hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Direct_Instruction
2. Atferlisgreining byggir á vel rannsökuðum og gagnreyndum námslögmálum sem hverfa ekki þótt höfundurinn hafni þeim ekki frekar en þyngdarlögmálið.
3. Í heilakokteilhristara höfundar er blandað saman atferlistækni annarsvegar og innihaldi þess verkefnis sem honum þykir andstyggilegt hinsvegar. Atferlistæknin sem slík ákveður ekki hvað sé æskileg eða óæskileg hegðun. Höfundurinn mundi ekki fullyrða að Ipad tölvur séu slæmar af því að það sem við getum séð á skjánum (innihaldið) kann að vera viðbjóðslegt.
4. Höfundurinn talar um börn sem slefandi hunda og virðist þar vera að sækja líkingu sína til Pavlovskrar eða klassískrar skilyrðingar. SMT á ekki meira skylt við klassíska/Pavlovska skilyrðingu en Ipad á við borðtölvu þannig að þessi vísun er út í hött.
5. Höfundurinn fordæmir skólastarf heils bæjarfélags út frá agastefnunni sem rekin er í skólum þess. Þetta er glæsilegt dæmi um fordóma og ekki sæmandi manni sem situr á bókasafni, jafnvel þótt safnið sé í Damörku.
6. Kennsluaðferðir sem byggja á atferlistækni hafa endurtekið sýnt sig að ná betri árangri en ýmsar hefðbundari kennsluaðferðir sem flestar eiga rætur í hugsmíðahyggju. Í öðrum pistli á þessari síðu finnur höfundurinn að því að skólakerfið ætlist til þess að allir læri það sama á sama tíma. Atferlisfræðingar eru mjög sammála þessari athugasemd höfundarins sem er athyglisvert í ljósi stóryrða hans í garð stefnunnar. Það skyldi þó ekki vera að skoðanir höfundarins séu meira í ætt við skoðanir atferlisfræðinga en hann hefur grunað.
Ragnar

Unknown sagði...

Miðað við stóryrðin og sleggjudómana sem fljúga í þessum pistli á ég ekki von á að ritari þeirra breyti um skoðun en tel rétt að koma eftirfarandi á framfæri til lesenda sem vilja byggja skoðun sínar á fleiru en stóryrðum hans:
1. Atferlisfærði/atferlisgreining fær rækilega á kjaftinn frá höfundi sem telur sig hafa kynnt sér málið. Þetta kjaftshögg er óverðskuldað. Ein höfðuðsetning atferlisgreiningarinnar varðandi kennslu og nám er að ef börn geta ekki lært þá er það ekki þeim sjálfum að kenna og jákvæðar aðferðir duga betur en refsingar. Þau læra ekki vegna þess að við (við erum þá allir sem koma að barninu foreldrar, kennarar, vísindin, stjórnvöld) höfum ekki fundið réttu aðferðina til að kenna barninu. Atferlisfræðingar eru ekki hrifnir af því að dyslexia, greind, ofvirkni eða árásargirni sé notuð til að skýra einhver frávik hjá barninu; þeir hafna stimplum í þessu sambandi. Upplýsingar um gæði atferlisgreiningar má til dæmis finna hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Direct_Instruction

2. Atferlisgreining byggir á vel rannsökuðum og gagnreyndum námslögmálum sem hverfa ekki þótt höfundurinn hafni þeim, ekki frekar en þyngdarlögmálið.

3. Í heilakokteilhristara höfundar er blandað saman atferlistækni annarsvegar og innihaldi þess verkefnis sem honum þykir andstyggilegt hinsvegar. Atferlistæknin sem slík ákveður ekki hvað sé æskileg eða óæskileg hegðun. Sem samlíkingu má segja að enginn mundi fullyrða að Ipad tölvur (tækið og tæknin í því) séu slæmar af því að það sem við getum séð á skjánum (innihaldið) kann að vera viðbjóðslegt.

4. Höfundurinn talar um börn sem slefandi hunda og virðist þar vera að sækja líkingu sína til Pavlovskrar eða klassískrar skilyrðingar. SMT á ekki meira skylt við klassíska/Pavlovska skilyrðingu en Ipad á við borðtölvu þannig að þessi vísun er út í hött.

5. Höfundurinn fordæmir skólastarf heils bæjarfélags út frá agastefnunni sem rekin er í skólum þess. Þetta er glæsilegt dæmi um fordóma og ekki sæmandi manni sem situr á bókasafni, jafnvel þótt safnið sé í Damörku.

6. Kennsluaðferðir sem byggja á atferlistækni hafa endurtekið sýnt sig að ná betri árangri en ýmsar hefðbundari kennsluaðferðir sem flestar eiga rætur í hugsmíðahyggju. Í öðrum pistli á þessari síðu finnur höfundurinn að því að skólakerfið ætlist til þess að allir læri það sama á sama tíma. Atferlisfræðingar væru mjög sammála þessari athugasemd höfundarins sem er athyglisvert í ljósi stóryrða hans í garð stefnunnar.

Ragnar

ingó sagði...

Smá athugasemd við Ragnar Ragnarsson (6. atriði) sem fullyrðir að kennsluaðferðir sem byggja á atferlistækni hafi endurtekið sýnt sig að ná betri árangri en „hefðbundnar kennsluaðferðir sem flestar eiga rætur í hugsmíðahyggu.“ Hvaða árangur er verið að meina hér? Gott væri að fá vísanir í viðurkenndar rannsóknir þessu til stuðnings. Sjálfur er ég doktorsnemi í stærðfræðimenntun og hef ekki rekist á neinar slíkar niðurstöður tengdar stærðfræði. Hef þó lesið allnokkuð. Svo má bæta við að hefðbundnar kennsluaðferðir geta ekki byggst á hugsmíðahyggju þar sem (a) hugsmíðahyggja heldur ekki fram neinum tilteknum kennsluaðferðum (hún er kenning um það hvernig nám fer fram óháð kennslu) og (b) hefðbundin kennsla var til löngu áður og hefur lítið breyst eftir að hugsmíðahyggja kom til sögunnar.

ingó sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
ingó sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Jon Frimann sagði...

Ég sé ekki betur en eftir frekar ýtarlega skoðun á þessum máli að SMT sé ekkert nema bölvað rugl.

Fólk er ekki vélmenni, og þannig er það bara.

Þetta er einnig mjög ný aðferð, sem var fundin upp í kringum árið 1990. Augljóst má vera að til lengri tíma þá mun þetta skapa meiri vandræði heldur en hitt. Þetta sviptir einnig börn réttinum að bera ábyrgð á sjálfum sér í skólanum og gjörðum sínum.

Rannsóknin sem ég fann. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2223172/

Ragnar Ragnarsson sagði...

Sæll Ingó doktorsnemi:

Mér finnst athyglisvert að þú biður ekki höfund bloggreinarinnar um rökstuðning fyrir stóryrtum dómum sínum um prógrammið í Hafnarfirði. En hér kemur örstutt svar við þínum athugasemdum um skrifin mín:

Adams, G., & Engelmann, S. (1996). Research on Direct Instruction: 25 years beyond DISTAR. Seattle, WA: Educational Achievement Systems.

Engelmann, S. (1992). War Against the Schools´ Academic Child Abuse. Portland, Oregon: Halcyon House. ISBN 0-89420-287-1.


Leach, D.J. & Siddall, S.W. . Parental involvement in the teaching of reading: A comparison of hearing reading, paired reading, pause, prompt, praise and direct instruction methods. British Journal of Psychology, 60 (3), November 1990, 349-355.

Maloney, M. (1998). Teach Your Children Well – A Solution to Some of North America´s Educational Problems. Cambridge MA: Cambridge Center for Behavioral Studies. Athugaðu að höfundurinn hefur gefið út sérstakt námsefni um stærðfræðikennslu með aðferðum atferlistækninnar.

Meyer, L.A., Gersten, R.M. & Gutkin, J. (1983). Direct Instruction: A Project Follow Through Success Story in an Inner-City School. Elementary School Journal, 84 (2). 241-252.

White, W. A. (1988). A meta-analysis of the effects of Direct Instruction in special education.
Education & Treatment of Children, 11(4), 364-374.

Stærsta samanburðartilraunin þar sem kennsluaðferðir leiddar af atferlisgreiningu (direct instruction) voru bornar saman við annarskonar kennsluaðferðir er jafnframt stærsta og dýrasta samanburðarrrannsókn á gæðum kennslu sem Bandaríska alríkið hefur framkvæmt. Rannsóknin bar heitið Project Follow Through og var fé varið til hennar frá 1968-1995. Um hana má lesa í niðursoðnu máli hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Project_Follow_Through

Og til að svara seinni athugasemdinni þinni þá tel ég að hefðubundnar (og þá á ég við algengar) kennsluaðferðir byggi margar á hugsmíðahyggju. Áhrif hugmynda constructivistanna John Dewey og Jean Piaget má finna rækilega í skólum á vesturlöndum. Kenning Piaget um þroska barna hafði til dæmis mikil áhrif í kennaranámi hérlendis um árabil. Dæmi um vinsæla kennsluaðferð leidda af þessu er uppgötvunarnám.

Ragnar

Nafnlaus sagði...

Ég hef aldrei nokkurs staðar séð eins mikla fordóma, fáfræði og misskilning á atferlisfræði.

Svo svakalegir eru fordómarnir að mér fallast hendur og efast um að þetta blogg sé einu sinni svaravert.

Það er erfitt að reyna að útskýra frá grunni fræði sem er búið að rannsaka í þaula í minnsta kosti 50 ár, allavega tók það mig gott ár að skilja þetta almenilega.

Sem betur fer skrifaði Ragnar Ragnarsson flest það sem segja þarf.

Egill Viðarsson sagði...

"2. Atferlisgreining byggir á vel rannsökuðum og gagnreyndum námslögmálum sem hverfa ekki þótt höfundurinn hafni þeim ekki frekar en þyngdarlögmálið."

Félagsleg/sálfræðileg "lögmál" eru allt, allt annars eðlis en eðlisfræðileg lögmál, og munu aldrei standa á sama vísindalega grunni. Það er algjörlega út í hött að ætla að nálgast þetta tvennt á sama hátt.

Að geta ekki gert greinarmun þar á er í besta falli barnalegt og í versta falli beinlínis hættulegt.

Anna-Lind Pétursdóttir sagði...

Það er mjög miður að sjá svona mikla sleggjudóma hjá menntaðum kennara og ekki hægt annað en að reyna að leiðrétta sumar rangfærslurnar. Ég þakka Ragnari Ragnarssyni fyrir góða punkta í þá veru.

Hið rétta er að atferlisfræðingar hafa einmitt verið óþreytandi við að benda á vankanta við notkun refsinga, allt frá Skinner um miðja síðustu öld og fram á þennan dag, sjá til dæmis umfjöllun í grein minni í Uppeldi og menntun frá 2011, Með sklning að leiðarljósi…
Atferlisfræðingum er umhugað um að draga úr ofnotkun refsinga í hefðbundnum nálgunum við agastjórnun og þróuðu því í samvinnu við skóla heildstætt kerfi sem byggir á jákvæðri styrkingu viðeigandi hegðunar: Heildstæðan stuðning við jákvæða hegðun (School-wide positive behavior support, SW-PBS), sem byggir á áratuga rannsóknum á aðferðum við að styrkja æskilega hegðun einstaklinga og hópa. SMT er hafnfirsk útgáfa af PBS.

Í PBS er áhersla á að:
-skapa umhverfi sem laðar fram viðeigandi hegðun
-kenna viðeigandi hegðun sem endurspegla mikilvæg gildi, s.s. virðingu, ábyrgð og samvinnu
-veita fjölda tækifæra til að æfa sig
-nota hvatningu til að nemendur velji að haga sér vel
-festa viðeigandi hegðun í sessi með jákvæðri styrkingu
-sýna sanngirni og samkvæmni í viðbrögðum við erfiðri hegðun

Markmiðið með PBS er að:
-Auka félagsfærni og nám með því að skilgreina, kenna og styðja við æskilega hegðun
-Draga úr óæskilegri hegðun með því að búa til skýrar og fyrirsjáanlegar reglur um afleiðingar óæskilegrar hegðunar
-Samræma aðgerðir alls starfsfólks skólans
-Fyrirbyggja og draga úr alvarlegustu hegðunarfrávikunum

Vinnubrögð PBS samrýmast vel áherslum á einstaklingsmiðað nám og Skóla án aðgreiningar, þar sem notaðar eru stigskiptar aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum allra nemenda og tekið er mið af margþættum breytum sem hafa áhrif á hegðun. Þannig eiga einstaklingsmiðuð úrræði að vera í boði fyrir nemendur með alvarleg eða langvarandi hegðunarerfiðleika byggð á virknimati á áhrifaþáttum. Þar er nemendum mætt með skilning að leiðarljósi og einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir notaðar til að draga úr erfiðleikunum (t.d. Lane o.fl., 1999; O´Neill og Stephenson, 2009).

Þúsundir skóla, t.d. í Bandaríkjunum og Noregi, hafa valið að nýta þessar heildstæðu aðferðir til að skapa jákvæðan skólabrag og styðja við viðeigandi hegðun nemenda. Fjöldi rannsókna hefur sýnt jákvæð áhrif af notkun PBS, bæði á hegðun (t.d. Sugai og Horner, 2008, Horner o.fl., 2010) og námsárangur nemenda (t.d. Luiselli, Putnam, Handler og Feinberg, 2005), hvort sem um er að ræða skóla í millistéttarhverfum (t.d. Taylor-Greene og Kartub, 2000) eða skóla í þéttbýli þar sem félagslegar aðstæður foreldra eru erfiðari (t.d. McCurdy, Mannella og Eldridge, 2003).

Hérlendis benda fyrstu athuganir til þess að skráðum agabrotum og tilvísunum í hefðbundna sérfræðiþjónustu vegna hegðunarerfiðleika grunnskólabarna fækki með innleiðingu SMT-skólafærni og að viðhorf foreldra og fagfólks til með vinnubragðanna séu jákvæð (Anna Björnsdóttir og Margrét Sigmarsdóttir, 2009). Einnig hafa fjölmargir nemendur með langvarandi hegðunarerfiðleika hafa tekið ótrúlegum framförum með einstaklingsmiðuðum stuðningsáætlunum byggðum á atferlisgreiningu (sjá t.d. Anna-Lind Pétursdóttir, 2010, 2011) eins og endurspeglast líka í jákvæðum umsögnum nemenda, t.d. „Ekki spurning, ég mæli eindregið með þessu, mér finnst að þetta ætti bara að vera gert alveg frá 1. bekk og þá hefði þetta örugglega verið léttara fyrir mig allan tímann. Og þetta mundi örugglega hjálpa mörgum” og foreldra, t.d. „Ég hef alltaf sagt þetta bjargaði honum”.

Hins vegar getur auðvitað alltaf orðið misbrestur á framkvæmd aðferða – sérstaklega þegar lítið er fjallað um þau í menntun kennara og í besta falli stutt námskeið í boði til að þjálfast í vinnubrögðunum. Neikvæð viðhorf geta líka staðið í vegi fyrir notkun árangursríkra aðferða – og það er það sem er verst við svona opinberar rangfærslur – þær ýta undir neikvæð viðhorf sem standa í vegi fyrir því að allir nemendur fái þörfum sínum mætt í skólakerfinu.

Anna-Lind Pétursdóttir sagði...

...og hér koma heimildirnar sem vísað er til í fyrri athugasemd:
Heimildir:
•Anna Björnsdóttir og Margrét Sigmarsdóttir. (2009). PMTO-aðferðin: Áhrif forvarna og meðferðar við hegðunarerfiðleikum leik- og grunnskólabarna í Hafnarfirði. Uppeldi og menntun, 18(2), 9–28.
•Anna-Lind Pétursdóttir. (2011). Með skilning að leiðarljósi: Dregið úr langvarandi hegðunarerfiðleikum með virknimati og stuðningsáætlunum. Uppeldi og menntun, 20(2), 121-143.
•Anna-Lind Pétursdóttir. (2010). Lotta og Emil læra að haga sér vel. Áhrif virknimats og stuðningsáætlunar á hegðunar- og tilfinningalega erfiðleika. Ráðstefnurit Netlu, 31.3.2011. Sótt 15. febrúar 2011 af http://hdl.handle.net/1946/7818.
•Horner, R. H., Sugai, G. og Anderson, C. M. (2010). Examining the evidence base for school-wide positive behavior support. Focus on Exceptional Children, 42(8), 1-14.
•Lane, K. L., Umbreit, J. og Beebe-Frankenberger, M. E. (1999). Functional assessment research on students with or at risk for EBD: 1990 to the present. Journal of Positive Behavior Interventions, 1(2), 101–109.
•Luiselli, J. K., Putnam, R. F., Handler, M. W. og Feinberg, A. B. (2005). Whole-school positive behavior support: Effects on student discipline problems and academic performance. Educational Psychology, 25, 183-198.
•Luiselli, J. K., Putnam, R. F. og Sunderland, M. (2002). Longitudinal evaluation of behavior support intervention in a public middle school. Journal of Positive Behavior Interventions, 4(3), 182-190.
•McCurdy, B. L., Manella, M. C. og Eldridge, N. (2003). Positive behavior support in urban schools: Can we prevent the escalation of antisocial behavior? Journal of Positive Behavior Interventions, 5 (3), 158-170.
•Newcomer, L. L. og Lewis, T. J. (2004). Functional behavioral assessment: An investigation of assessment reliability and effectiveness of function-based interventions. Journal of Emotional and Behavioral Disorders, 12(3), 168–181.
•O´Neill, S. og Stephenson, J. (2009). Teacher involvement in the development of function-based behaviour intervention plans for students with challenging behaviour. Australasian Journal of Special Education, 33(1), 6–25.
•Sesselja Árnadóttir. (2011). „Moldin sem börnin þrífast í þarf að vera dálítið hlý“: Upplifun nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda af virknimati og einstaklingsmiðaðri stuðningsáætlun. Óbirt MA-ritgerð: Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
•Taylor-Greene, S. J. og Kartub, D. T. (2000). Durable implementation of School-wide Behavior Support: The High Five Program. Journal of Positive Behavioral Interventions, 2(4), 233-235.

Anna-Lind Pétursdóttir sagði...

Eitt enn:
Ég veit til þess að Atli Magnússon atferlisfræðingur sendi þér vandað andsvar við rangfærslum þínum og gaf þér val um hvort þú myndir birta það á bloggsíðu þinni. Mér finnst athyglisvert að þú kjósir að birta það ekki hér en hvet þig eindregið til að gera það svo fleiri sjónarmið komi fram um viðfangsefnið.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Anna-Lind, ég geri enga athugasemd við einstaklingsmiðaða notkun atferlismótunar. Efast heldur ekki um gildi hennar.

Það sem ég geri athugasemdir við er miðstýrð ákvörðun um að skapa skólaumhverfi sem byggir á fjöldanum öllum af boðum og bönnum (eins og að skipa börnum að fara með eiða og syngja skólasöngva og að labba í beinni röð og að ganga hægra megin á göngum) í því skyni einu að framkalla hlýðni og aðlögun og sigta út þá sem eiga í erfiðleikum með það svo hægt sé að „temja“ þá sérstaklega.

Atferlismótun á að nota þar sem hennar er þörf og sátt ríkir um hana. Hana á ekki að setja eins og regnhlíf yfir heilu sveitarfélögin og neyða fólk til að framfylgja henni – og kenna síðan þessu sama fólki um að vera ekki nógu hæft, greint eða áhugasamt þegar illa fer.

Að einblína aðeins á þá nemendur sem eiga í erfiðleikum með „hegðun“ og móta heilt skólakerfi út frá þeim sjónarhóli skapar skólasamfélag sem fer á mis við frelsi, traust og margt fleira.

Að réttlæta slíkt með því að hegðun batni segir ekki neitt.Fjöldinn allur af kennsluaðferðum og skólakerfum geta sýnt fram á mikinn aga og góða hegðun – miklu betri en íslenskir skólar.

Það sem þeir gera er samt ekki endilega til eftirbreytni. Það er ekkert voðalega erfitt að framkalla hlýðni. En hlýðni er bara ekki lokamarkmið náms eða þroska.

Það er hreinlega stórhættulegt þegar fræðimenn, fagaðilar eða aðrir telja sig hafa fundið svo frábærar lausnir að þeir telja sig þess umkomna að ýta öllum öðrum aðferðum til hliðar í þeim tilgangi að koma sínu á oddinn.

Unglingar í stm-skólum hafa frá upphafi kvartað yfir skorti á frelsi, trausti og talið að framkoma í sinn garð einkenndist af ofstýringu.

Þeim er ítrekað refsað með stoppmiðum fyrir allskyns yfirsjónir. Stoppmiðanotkun er auk þess mismunandi milli kennara og önnur innan veggja kennslustofunnar en frammi í rýmum.

Það þýðir ekki að einblína á eitthvað ídeal – kerfið eins og það væri ef allir brygðust alltaf við eins og best væri á kosið.

Ef hægt væri að gera þá kröfu á kennara að þeir brygðust alltaf við eins og best væri á kosið þá væri engin þörf á smt.

Skóli án aðgreiningar nýtur ekki stuðnings nema hluta kennara. Í augum margra eru mörg börn til trafala í skólakerfinu. Það tregðast við að aðlaga sig að þörfum þeirra og búa öllum umhverfi sem ræktar styrkleika þeirra og byggir a´vináttu og trausti.

Þess í stað eru nemendur sem líður verst í búverandi kerfi skilgreindir sem vandamál – ekki kerfið. Síðan fer kerfið í massíva þjálfun til að aðlaga nemendurna að kerfinu.

Einstaklingsmiðaðar áætlanir og aðgerðir eru allt annað. Þú gætir allt eins gripið til þeirra í kerfi sem sýndi börnum traust og væri ekki miðstýrandi ferlíki sem bannaði allt og ekkert.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Svar Atla var að stærstum hluta um atferlismótun almennt, ekki smt eða Hafnarfjörð.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Loks: Samrýmist það einstaklingsmiðuðum stuðningsáætlunum að þínu mati að nemendum sé skipað að skafa tyggjóklessur af skólalóðum eða vinna önnur álíka störf vegna „agabrota“?

ingó sagði...

Ragnar Ragnarsson. Það er skarplega athugað hjá þér að ég geri athugasemd við þína fullyrðingu en ekki pistil Ragnars. Það er vegna þess að pistill Ragnars lýsir skoðun hans, almennum vangaveltum og byggir á gildismati, á meðan þú fullyrðir um staðreyndir og rannsóknir. Ef þú vissir eitthvað um rannsóknir á menntun og skólastarfi vissir þú að ég get lagt fram annan lista með greinum sem halda fram allt öðru. Til að vera marktækur þarf maður að gera grein fyrir því að það er engin „fræðileg sátt“ um það sem þú fullyrðir. Reyndar er fræðasamfélagið stærðfræðimenntun á nokkurn veginn þveröfugri skoðun.

Ég tek sérstaklega eftir því að engar af þessum rannsóknum eru um stærðfræðinám eða kennslu, hvað þá að þær birtist í ritrýndum fræðilegum tímaritum á sviði stærðfræðimenntunnar, nú eða bókum á því sviði. Ég get líka bent þér á fjölmargar greinar sem sýna fram á með sannfærandi hætti að hugmyndir Dewey og Piaget hafa aldrei náð sérlega mikilli fótfestu í skólakerfum, reyndar mjög lítilli.

Unknown sagði...

Sæll aftur Ingó doktorsnemi í stærðfræðimenntun

Þótt ritrýndar greinar um rannsóknir hafi ekki birst í einhverjum eðalritum um stærðfræðinám þá er það nú svo að þær birtast annarsstaðar. Hér eru tvö dæmi um stærðfræðinám og kennsluaðferðir sem leiddar eru af atferlisgreiningu:

Gersten, R. & Carnine, D. (1984). Direct instruction mathematics: A longetudinal evaluation of low income elementary school students. The Elementary School Journal, 84 (4).

Darch, C., Carnine, D. & Gersten, R. (1984 ) . Explicit Intruction in Mathematics Problem Solving. The Journal of Educational Research, 77 (6).

Hérna er svo grein um samanburð á tveimur kennsluaðferðum sem leiddar eru af atferlisgreiningu og hugsmíðahyggju (sem þú hefur sjálfur haldið fram að sé ekki til í kennslu).
Klahr, D. & Nigram, M. (2004). The Equivalence of Learning Paths in Early Science Instruction – Effects of Direct Instruction and Discovery Learning. Psychological Science October 15 (10). 661-667.

Hér er útdrátturinn sem ætti að vera þér auðskiljanlegur en í stuttu máli er niðurstaðan að með kennsluaðferð atferlisgreiningar lærðu börnin meira og gátu líka dregið jafnvíðtækar og djúpar vísindalegar ályktanir og þau fáu börn sem uppgötvuðu aðferðirnar sjálf. Og höfundarnir klikkja út með því að segja að þessar niðurstöður ögri viðeknum skoðunum um að nálganir byggðar á uppgötvunarnámi hafi yfirburði í vísindakennslu ungra barna.

In a study with 112 third- and fourth-grade children, we measured the relative effectiveness of discovery learning and direct instruction at two points in the learning process: (a) during the initial acquisition of the basic cognitive objective (a procedure for designing and interpreting simple, unconfounded experiments) and (b) during the subsequent transfer and application of this basic skill to more diffuse and authentic reasoning associated with the evaluation of science-fair posters. We found not only that many more children learned from direct instruction than from discovery learning, but also that when asked to make broader, richer scientific judgments, the many children who learned about experimental design from direct instruction performed as well as those few children who discovered the method on their own. These results challenge predictions derived from the presumed superiority of discovery approaches in teaching young children basic procedures for early scientific investigations.

Ég ætla ekki að dæla í þig fleiri heimildum sem styðja mál mitt enda hefurðu greinilega engan áhuga á að rýna í þær, auk þess sem ég skil ekki hvernig þú doktorsneminn sjálfur leggst svo lágt að reyna að rökræða við mann sem, svo ég noti þín orð, veit ekkert um rannsóknir á menntun og skólastarfi. En ég vil endilega sjá listann þinn yfir „fjölmargar“ greinar sem „sýna fram á með sannfærandi hætti“ að kennsluaðferðir hugsmíðahyggju (constructivisma) hafa náð lítilli fótfestu í skólakerfum vesturlanda.

Nafnlaus sagði...

Heimilda-standpínukeppni er góð skemmtun.

ingó sagði...

Ragnar R. Heimildakeppni er einmitt frekar léleg skemmtun. Þeir sem hafa eitthvert vit á eða hinn minnsta skilning vita að það merkir nákvæmlega ekkert að vísa í örfáar greinar til styðja einhverja skoðun á kennslu eða menntamálum.

Það sem eðlilegt er að gera, ef ekki á að fara ofan í saumana á málunum er að segja frá því að það séu ólík viðhorf uppi. Ætti að vera einfalt og auðskiljanlegt en er erfitt ef menn hafa tekið trú. Það er enginn skortur á greinum sem halda því fram að ein nálgun hafi yfirburði umfram aðra. But it goes both ways.

Ef þú hefur áhuga á straumum og stefnum í fræðum um kennslu og nám í stærðfræði þá bendi ég á Journal for Research in Mathematics, Educational Studies in Mathematics, Journal of Mathematical Behaviour, til dæmis.

Svona þér til upplýsingar þá er einfalt að súmmera upp það sem allir fræðimenn eru sammála um: kennsla og nám eru allt of flókin fyrirbæri og háð allt of mörgum þáttum til þess að það sé hægt að fullyrða eitthvað um „hvernig sé best að kenna“.

Það er meðal annars vegna þess að það togast á mörg ólík sjónarmið um það hver séu raunveruleg markmið menntunnar, hvað telst mikilvæg þekking, og svo framvegis.

Ef þú vilt læra eitthvað um stærðfræðimenntun þá er bloggið mitt hér: http://reikna.skjabjort.is/

ingó sagði...

Ég nenni ekki að koma með langa heimildalista, en mér datt í hug bókin Constructivist Instruction: Success or Failure? (Ritstj. Tobias og Duffy) frá 2009.

Þú gætir svo gúglað "constructivism is a theory of learning and not a theory of teaching". Þá koma upp nokkrar greinar (um 300 stk.) sem útskýra þetta.

Annað: það er svo vel þekkt í stærðfræðimenntun að kennsla almennt og víðast hvar er „hefðbundin“ yfirfærslukennsla (sem hefur ekkert að gera með hugsmíðahyggju). Það þarf ekki heimild til að styðja það, en hér er samt ein úrklippa (sem vísar á heimildir sem hægt er að gúgla):
"The traditional methods of the early and middle 20th-century continue today. Welch (1978) described the typical mathematics classroom as following a rote procedure that focused solely on solving a high number of homework problems. Likewise, a decade later, Stodolsky (1988) claimed that in the United States, “most instruction is geared to algorithmic learning” (p. 7). Another decade later, the purpose of mathematics lessons had changed little (Stigler & Hiebert, 1997, p. 18), and evidence suggests that these patterns continue today (Hiebert & Grouws, 2007). (Methods of Instructional Improvement in Algebra : A Systematic Review and Meta-Analysis Christopher R. Rakes, Jeffrey C. Valentine, Maggie B. McGatha and Robert N. Ronau Review of educational research 2010 80: 372)

Nafnlaus sagði...

Betra seint en aldrei. Fæ að skjóta mér hér inn og eiga síðasta orðið þó e-ð sé liðið á umræðuna.

Ragnar Þór orðar hugsun sína í öðru bloggi:

"Innri hvati skiptir að mínu mati öllu máli. Sá sem er drifinn áfram af sjálfum sér og er sinn eigin dómari –hann hefur menntast."

Falleg orðun. Mér sýnist hann sjálfur hafa menntast.

Ég skil þetta blogg hér á sama veg hið fyrra. Ragnar Þór er að hugsar af innri hvöt. Hann fær skammir fyrir það. Auðvitað. Hann er agalaus.

"Þvílík heimska! Þvílík mannvonska!", segir Ragnar Þór. Ég get ekki betur séð en Ragnar Þór hafi sannað mál sitt. Búmerang. Viðbrögð við hugsun hans og orðun benda til þess að hann sjálfur fær þann skammt af heimsku og mannvonsku sem hann segir börn verða fyrir.

Grunar að blogg-mótmælendur ætluðu sér ekki að sanna kenningar Ragnars Þórs á sjálfum sér fullorðnum með þessum hætti að ráðast að honum fyrir það að hugsa sjálfur án tilvitnana í aðra hugsuði, einsog hér er gert. Athyglisverð atferlismótun.

Núna er hægt að vitna í Önnu-Lind Pétursdóttur og Ragnar Ragnarsson sem þá rannsakendur sem gerðu tilraun á sjálfum sér í bæði grunnskólakennslufræðum og almennum mannlegum samskiptum.

Kæri Ragnar Þór. Ekki hætta að hugsa.

Guð forði mér frá því að Anna-Lind, Ragnar R og fleiri vilji mér og mínum börnum aðeins það besta.

Guðjón Pálsson