14. mars 2008

Ó, Reykjavík!


Það er með ólíkindum hvar höfuðborgin okkar breytist ört um þessar mundir. Þá sjaldan að maður þarf að bregða sér útfyrir Norðurlandið, og suður í borg eiturlyfjanna, þá er maður ekki fyrr komin inn fyrir borgarmörkin en mann langar beinustu leið heim aftur. Mengun, skítur, bílamergð og Reykvíkingar eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar mig langar að lýsa fáránleikanum hérna.

Það er alveg stórhættulegt að koma hingað reglulega. Þetta var allt í lagi á meðan ég bjó hérna sjálfur, þá varð maður strax samdauna skítnum hérna, en um leið og maður flytur í burt, þá áttar maður sig á því hvílíkur hryllingur þessi borg er að verða.

Fyrir almennan ferðamann er þetta kannski ekki svo slæmt. Borgin gæti virst falleg svona við fyrstu sýn, og ferðamaðurinn kynnist svo sem ekki mikið hinum týpíska Reykvíkingi mikið. Það skiptir engu máli þó hann rati ekki neitt, maður ratar jú sjaldan um þær borgir sem maður heimsækir einu sinni tvisvar á ævinni. En að koma hingað reglulega er allt annað mál.

Maður er ekki fyrr búinn að læra á nýjustu 7földu gatnamótin og öll 18 hringtorgin í kringum þau, þegar maður yfirgefur borgina. Maður eins og ég, sem hefur „stálminni“, man auðvitað uppá hár hvernig allt virkar næst þegar hann kemur.

En...neeeeiiii.... þó það séu ekki nema 7 vikur síðan maður kom hérna síðast, þá hefur þeim samt tekist að breyta annarri hverri götu hérna og fjölga hringtorgunum um helming. Þeim samgöngumannvirkjum sem ekki hefur tekist að breyta á þessum 7 vikum, er verið að breyta akkúrat núna, svo það er hreint helvíti að keyra um göturnar á meðan, auk þess sem allt verður breytt næst þegar maður kemur. Í hvert einasta skipti sem ég kem til Reykjavíkur, líður mér eins og ég sé Steve Wonder, og einhver hafi verið að hrekkja mig með því að færa til húsgögnin í herberginu mínu. Ekkert er eins og það var síðast þegar ég kom.

Þegar maður veit ekki hvernig mislægu gatnamótunum er háttað, svona fyrir fram (því auðvitað er sínhvor uppskriftin af þeim öllum 23), þá er nú gott að geta huggað sig við það að vera skarplega greindur, og átta sig á því að það ætti einfaldlega að vera hægt að lesa bara á þessi flennistóru skilti sem hanga yfir þeim öllum. Það væri vissulega bót í máli, ef þeir verkfræðingar sem hönnuðu þessi apparöt, hefðu haft vit á því að gera skiltin þannig úr garði, að maður gæti lesið hvað stendur á þeim aðeins fyrr. Því um leið og þú getur lesið „Breiðholt-Hólar“, þá ertu kominn framhjá beygjunni sem stýrir umferðinni þangað. Til þess svo að komast endanlega leiðar sinnar, þá þarf maður oftar en ekki að fara alla leið í fjandans Kópavog til að snúa við! Hver vill fara ótilneyddur í Kópavog?

En í gær, var ég í ævintýra stuði og brá undir mig betri fætinum og heimsótti bílalúgu við Ak-Inn. Tilhugsunin um „eina með öllu“ var að gera út af við mig, og ég varð að svala fíkninni.

Það var löng bílaröð við bílalúguna öðru megin við sjoppuna, en hinu megin var bara einn bíll. Ég bruna þangað í snatri og tek strax eftir því að í fremri lúgunni er feiknastór Ford Econoline á milljónhundruðtommu dekkjum. Svo stór var hann, að stuðarinn (sem var í þakhæð á minni tík) náði aftur fyrir aftari bílalúguna. Hann tók sem sagt báðar bílalúgurnar í einu, bölvaður. Jæja ... þetta er nú ekki al slæmt hugsaði ég með mér. Það er skárra að bíða eftir þessum eina bíl, en að bíða í röðinni hinum meginn. Mér til mikillar gleði sé ég afgreiðslukonuna reyna að rétta manninum það sem mér sýndist vera afgangurinn hans, og hugsaði því, að nú færi biðin að styttast. Fljótlega fóru þá að renna á mig minnsta kosti tvær grímur! Ég beið og beið ... svo beið ég lengur, og þegar ég hélt að það væri ekki möguleiki á því að bíða lengur – þá beið ég lengur. Ég var orðinn svo sjóðandi fokkíng brjálaður að ég var farinn að titra og skjálfa. Hvernig gat mannfjandinn sem í bílnum var, farið að því að vera svona lengi þarna? Hvaða dómadags ókurteisi var þetta í manninum að skreppa í sjoppu á sínum monstertrukk, teppa allar þær bílalúgur sem hann mögulega gat, og hanga þar svo eins og hann hefði ekkert annað að gera? Eða það sem meira er... eins og ENGINN annar hafi neitt að gera, nema bíða eftir því að hann ljúki sér af í rólegheitum við að versla! Þessi flennistóri bíll fór að fara meira og meira í geðið á mér, og ég var í alvörunni og fullri hreinskilni farinn að spá í að strunsa út úr bílnum og láta nokkur vel valin orð falla við þennan bílstjóra. Ég hætti við af þeirri einu ástæðu að ég hefði örugglega ekki náð upp í bílstjórahurðina til að koma kvörtun minni á framfæri. Þegar afgreiðslustúlkan loksins kom eftir 31 mínútu með fitubrákaða kjúklingaveislu í plastpoka, þá nánast þurfti hún að póstsenda herlegheitin til hans, svo langt var hann frá lúgunni. Nú velta eflaust margir fyrir sér afhverju í ósköpunum ég bakkaði ekki bara í burt og gafst upp. Það var einfaldlega vegna þess að annar hver íbúi í Breiðholtinu hafði parkerað bílnum sínum fyrir aftan minn, og hreyfði sig ekki þó svo að ég setti í bakkgír og gerði mig líklegan til að yfirgefa svæðið. Þið þarna Reykvíkingar, hafa þessi tvö glæru ljós aftan á bílnum mínum enga merkingu fyrir ykkur?!

Eflaust væri hægt að áfellast afgreiðslufólkið fyrir að hafa ekki beðið manninn vinsamlegast um að drulla sér í burtu, en það er skiljanlegt að þau séu utan við sig greyin um þessar mundir, enda löngu komin með hugann við fermingargjafirnar og söngvakeppni SamFés.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mæli með að þú kynnir þér anna bloggara sem glímur við skilningsleysi Reykvíkinga á ljósanotkun.

www.anriv.com