30. apríl 2013

Örvænting Össurar



Össur Skarphéðinsson er silfurrefur íslenskra stjórnmála. Hann er löngu búinn að átta sig á því hvar minnsti dragsúgurinn er við kjötkatlana og kúrir þar í sínu horni sæll og saddur. Nú er hinsvegar hætta á því að hann verði settur út á gaddinn eftir sögulegt afhroð Samfylkingarinnar.

Skyndilega poppar Össur upp úr öllum áttum í tilraun til að ná tangarhaldi á atburðarásinni. Hann er vel ritfær og skemmtilegur náungi og því eiginlega alltaf gaman að honum. Hann er samt bersýnilega úr jafnvægi því það sem frá honum kemur er ekki sérlega ígrundað. Í raun og veru minnir hann dálítið á góðborgarann í sögunni „Þú ert sá seki“ eftir E. A. Poe, þennan sem alltaf stökk fram til varnar grunuðum glæpamanni og hélt langar ræður til bjargar honum – sem enduðu samt allar einhvernveginn þannig að sá grunaði færðist nær gálganum.

Össur bað Sigmund að muna eftir svikunum. Svikum Sjálfstæðisflokks við Framsókn þegar Davíð og Halldór sátu saman í stjórn. Nákvæmlega hvað fólst í þeim svikum annað en fúllyndi innmúraðra Sjalla með hin óeðlilega miklu áhrif Framsóknar er ekki alveg ljóst. Því svikabrigsli lauk öllu með því að Framsókn neyddi Davíð úr hásætinu og setti þar græna sessu. Össur hefði auðvitað átt að steinþegja um öll svik því það eru ekki margir mánuðir síðan Sigmundur Davíð jafnaði sig sæmilega á því sem hann hefur alltaf talað um sem stórkostleg svik Samfylkingar og Vg við Framsóknarflokkinn þegar síðastnefndi flokkurinn verndaði hina tvo gegn vantrausti. Þar er rót mikils persónulegs haturs milli Sigmundar og hinna föllnu oddvita hinna flokkanna. Hatur sem var svo svaðalegt að það hefur eiginlega ekki verið hægt að hafa þetta fólk í sama herbergi í nokkur ár. Allt svikatal Össurar er illa til þess fallið að lokka Framsókn yfir í hið loðna hálsakot silfurrefsins.

En segjum að Össuri sé alvara með því að Framsókn ætti að mynda vinstri stjórn. Þá er voða erfitt að sjá tilhvers í ósköpunum hann stekkur fram og setur fram deddlæn á hin stórkostlegu kosningaloforð Framsóknar. Össur hefur fullyrt að Framsókn hafi 100 daga til að sýna loforðið í verki. Hann fer fram á slíkar efndir. Hvaða stöðu setur slík fullyrðing Samfylkinguna í ef þessir flokkar myndu ná saman? Væri Össur þar með að lofa sínu liðsinni til að framfylgja villtustu draumum Sigmundar á áður óþekktum hraða? Eða gilda önnur lögmál um loforð þegar Samfylking situr í stjórn?

Ég held að annaðhvort langi Össur ekki í stjórn eða hann er aldrei þessu vant ekki alveg með sjálfum sér. Hann grípi í örvæntingu sinni öll þau hálmstrá sem pólitískt nef hans þefar uppi, án þess að á bak við það sé stefna eða skýr sýn.

Engin ummæli: