19. febrúar 2013

Ættum við að eiga bestu skóla í heimi?


Hermundur Sigmundsson sálfræðiprófessor bendir á ýmsar brotalamir í skólakerfinu í viðtali við Moggann í gær. Flest sem hann segir er öldungis hárrétt og raunar löngu augljóst. Skólakerfið miðast ekki nóg við þarfir og hæfni barna. Það að stefni í að þriðja hvert barn sé sérkennslubarn gefur til kynna að þetta „sameiginlega“ sé eitthvað undarlegt. Hreyfing og hlé eru börnum hreinasta nauðsyn.

Hermundur kallar á djarfa stjórnsýslu og verulegar umbætur. Svo virðist sem hann bjóði upp á hugmyndir um bætt kerfi. Ekkert nema gott um það að segja. 

Ég hnaut samt um tvennt í þessu stutta viðtali. Í fyrsta lagi það að hann telur brýna nauðsyn að kenna „lestur“ og „stærðfræði“ fyrir hádegi og annað eftir hádegi. Í öðru lagi það að hann telur frelsi barna í sumum skólum of mikið.Skólaárið á Íslandi er mun lengra en það var á árum áður. Skóladagurinn er líka lengri. Skyldunám er meira að segja fleiri ár núna en fyrir örfáum áratugum. Samt er hefðbundið „læsi“ á hraðri niðurleið ef marka má athuganir. Það er hvorki vegna þess að lestrarkennsla sé slakari en áður né börn tornæmari. Það er líka engan veginn augljóst að greindarlegasta viðbragðið sé að leggja megnið af móttækilegasta námstímanum undir sífellt meiri markvissa lestrarkennslu. 

Læsi barna hefur ekki minnkað stórkostlega, það hefur breyst. Rétt áðan sat ég með tveggja ára syni mínum sem var að púsla í ipaddinum. Hann fann forritið sjálfur eftir að hafa skoðað mörg önnur. Þegar hann uppgötvaði að hann var í of erfiðu púsli dró hann sjálfur þá ályktun að hann ætti að draga rauða ör þvert yfir skjáinn til að komast aftur í upphafsvalmyndina. Þegar þangað var komið valdi hann léttara púsl. Hann situr stundum með mömmu sinni og kennir henni á forrit eða leiki sem hún áttar sig ekki á. Einn uppáhaldsleikur er að matreiða ofan í skrímsli. Þar velur hann matvæli úr ísskáp, sýður í potti eða steikir á pönnu; sker á bretti eða maukar í matvinnsluvél; saltar og piprar og reiðir svo fram. Ný forrit skilur hann svotil strax. Hann veit að „x“ táknar að loka glugga, hann veit að snúin ör er skref aftur á bak og að þríhyrningur er líklega myndband. Ekkert af þessu hefur honum verið kennt, hann hefur aðeins áttað sig á nokkrum rökréttum reglum í því umhverfi sem hann fer af og til í. Þetta er læsi.Hefðbundið bókstafalæsi fer minnkandi vegna þess að heimurinn umhverfis okkur hefur breyst. Bækur höfða ekki eins sterkt til ungs fólks og þau lesa ekki sér til ánægju. Sjónvarpsþol hefur líka breyst. Ungmenni í dag nenna ekki að sitja og horfa á fyrirframákveðna dagskrá sem sundurslitin er af auglýsingum. Sú hæfni verður ofaná sem virkar úti í hinu raunverulega samfélagi.

Ég er harður talsmaður þess að bóklæsi sé eflt, sem og sjónvarpsúthald og samræðuþol. Það á að kenna börnum að lesa og hlusta og tala. Það verður þó ekki gert þannig að skólinn taki að sér að vera stállunga, gerviveröld sem var, samfélag sem apar eftir samfélagi sem ekki er lengur til. Fyrst og fremst á að undirbúa börn fyrir hinn raunverulega heim. Efla það læsi sem þau raunverulega þurfa á að halda. Bóklestur þarf að verða börnum nautn. Það er ekki flóknara en það. Lestur verður ekki stórbættur með sífellt meiri ástundun. Það vantar að glæða áhuga. Þá kemur hitt af sjálfu sér. Galdurinn á bak við lestraráhuga er ekki fólginn í að grípa tækifærið þegar blóðsykur og einbeiting er í hárréttum hlutföllum til að drilla börn í lestraræfingum. Áhugi er liður í skapandi og gefandi ferli sem kennari og nemandi taka þátt í. Sá sem myndi stöðva barn sem niðursokkið er í spennandi bók vegna þess að komið er að 5 mínutna pásunni sem taugasálfræðin segir að nauðsynleg sé á 40 mínútna fresti veit ekkert um hvað málið snýst.Og þá að hinu. Hermundur segir: 

Til dæmis virðist það vera þannig í sumum skólum hér á landi að börnin mega sjálf ráða því hvað þau læra og hvernig. Ég er að kenna fullorðnu fólki í háskóla og það fær ekki að velja hvað það lærir. Af hverju er verið að leggja svona ábyrgð á börn?

„Ég er að kenna fullorðnu fólki í háskóla og það fær ekki að velja hvað það lærir“!? Þetta er auðvitað bara alls ekki rétt og upp að því marki sem þetta er ekki alrangt er það alls ekki æskilegt.

Einn megintilgangur allrar menntunar er að gera fólki kleift að „nema“ úr umhverfi sínu, líka eftir að formlegu námi lýkur. Manneskja vex alla ævi og tekst á við nýjar hugmyndir, margvíslega framsettar. Háskólakennari sem hefur það ekki að markmiði að leyfa stúdentum að njóta frelsis í námsaðferðum og námsefni er einfaldlega dogmatískur drjóli. Hvernig í ósköpunum á stúdent í háskóla að viða að sér efni í skapandi, sjálfstæða rannsókn ef honum er ekki boðið upp á að skoða sig um, lesa það sem honum dettur í hug og vinna úr því með þeim aðferðum sem nærri tveggja áratuga skólaganga hefur kennt honum að virki?

Vissulega mætir fjöldinn allur af fólki upp á háskólastig og er næstum fullkomlega ófær um agaða, sjálfstæða hugsun (hvað þá rannsókn). Þessu fólki sinna háskólakennarar yfirleitt mjög vel með smásmugulegri mötun og einhæfum og fyrirsjáanlegum kennsluaðferðum. En fjandinn hafi það, þetta er vandamál! Meira að segja stórkostlegt vandamál. Ekki eitthvað til eftirbreytni.

Sjálfræði er ekki byrði sem hentugt er að létta af fólki til að allt gangi smurt og vel. Sjálfræði er eitt af grundvallarmarkmiðum alls náms og lífs. Sjálfræði ber að kenna og efla. Fá markmið eru mikilvægari. Sjálfræði er náskylt sjálfsaga. Stýring og mötun getur aldrei komið í stað raunverulegs sjálfsaga.Auðvitað á ekki að ætla börnum um of, hvorki í þessu né öðru, en fjandakornið ef það er ekki augljóslega öllum í hag að barn í fyrsta bekk ráði því hvort það teiknar mynd af hundi eða spædermann, sjöundi bekkingurinn fái að ráða hvort verkefnið um ár í Evrópu sé stuttmynd eða líkan og tíundi bekkingurinn fái að ráða því hvort hann velur sér bílaviðgerðir eða spænsku sem valfag.

Góðir kennarar koma ekki bara staðreyndum til skila. Þeir glæða áhuga. Þeir metta ekki þúsundir með fimm kennslumyndböndum og tveimur skyndiprófum. Þeir gefa sér tíma til að hjálpa nemandanum að finna sína eigin leið til náms, sína eigin ástríðu.

Það er sama hve kennari velur margar lestrarbækur ofan í börn og neyðir til að lesa þær á hárréttu líffræðilegu augnabliki. Það skilar aldrei því sama og að gefa barninu tilgang og áhuga á lestri.


Engin ummæli: