3. desember 2012

Að eyðileggja áhuga með verðlaunum

Hvort skyldi vera mikilvægara markmið: að fá fólk til að gera það sem það vill ekki gera eða fá það til að vilja það sem það gerir?

Ég er ekki í neinum sérstökum vafa.

Eftir því sem ég hef í starfi mínu sem kennari aukið frelsi nemenda meira sé ég sífellt betur að stærsta verkefni mitt er að yfirvinna ábyrgðarfælni þeirra. Í sumum tilfellum má vel vera að það takist ekki – en oftast hefst það á endanum. Ábyrgðarfælni nemenda er ekkert undarleg ef haft er í huga að menntakerfið gerir í því að svipta nemendur bæði frelsi og ábyrgð. Maður getur klárað háskólanám án þess að þurfa nokkru sinni að standa í alvöru undir sjálfum sér. Það er nóg að vera leiðitamur og hlýðinn.



Innri hvati skiptir að mínu mati öllu máli. Sá sem er drifinn áfram af sjálfum sér og er sinn eigin dómari – hann hefur menntast.

Ég hef lengi haft óbeit á yfirborðsmennskunni í menntakerfinu. Það er sjaldnast gert ráð fyrir því að undir yfirborði barna leynist hugsuður. Eitthvað skapandi afl sem bíður þess að vera leyst úr læðingi. Safn hæfileika og hugmynda sem mun við réttar aðstæður verða steypt í manneskju sem skilur meira eftir sig en rákir á yfirborðinu.

Sérstaklega hef ég óbeit á þeirri bjánalegu hugmynd að ekki sé hægt að hvetja börn og unglinga til neins – nema undir þeim formerkjum að það sé keppni. Mælsk börn þurfa ekki Morfís, forvitin börn þurfa ekki Gettu betur, skapandi börn þurfa hvorki Stíl né Skrekk, hraust börn þurfa hvorki Skólahreysti né Shellmót. Það er í raun algjörlega óskiljanlegt hvers vegna börn mega ekki vera skapandi, skynsöm eða hraust án þess að það þurfi sífellt að etja þeim gegn hverju öðru.




Það er eitthvað andstyggilegt við það að börn séu dregin í leikhús til að horfa á sköpunarverk jafnaldra sinna og öll orkan fer í að öskra í sífellu slagorð og pússa múgsálina. Það er heimskulegt að börn skuli ekki hvött til að dást að og verða fyrir áhrifum af sköpunarverkum og hæfni listhneigðra jafnaldra – því þau eru of upptekin við að „halda með“ sínu fólki og vera gegn öðrum.

Það er kjánalegt hvernig fólk stillir samræmdum prófum upp sem keppni milli landshluta, sveitarfélaga og skóla.

Það er alltof mikill þungi í því yfirborðskennda og fánýta.

Unglingar sem virkilega tjá hugðarefni sín í listum eða ögrandi menningu myndu aldrei sitja pikkfastir í klisjum. Hversu stór hluti Skrekksverka ætli fjalli um einelti eða útskúfun? Miklu stærri hluti en samsvarar áhuga unglinganna á efninu. Þeir hanga á efninu eins og hundar á roði til að þóknar hinum fullorðnu. Þeir halda að þetta sé það sem við viljum. Og þetta er það. Því er nú fjandans verr.

Ég fær líka alveg grænar bólur á sálina í hvert sinn sem ég hlusta á sama tilgerðarlega upplestrarstílinn sem börnum er taminn í stóru upplestrarkeppninni. Hann minnir mig á Morfís.

Öll þessi keppni er misskilningur. Landsbankinn verðlaunar lífsleikni, Umferðarstofa gefur einum bekk pítsur svo er ljóðekeppni, teiknikeppni og svo mætti lengi telja. Raunar virðist ekki nokkur einasti maður hafa hugmynd um hvernig hægt er að nálgast börn eða unglinga án verðlauna.

Þetta er því ömurlegra sem það er augljósara að þótt verðlaun kunni að vera ágæt leið til að fá okkur til að gera það sem okkur langar ekki að gera – þá hafa þau þveröfug áhrif þegar þeim er ætlað að styðja við innri áhugahvöt okkar. Verðlaun draga úr áhuga okkar á að gera það sem við höfum ástríðu fyrir eða ánægju af að gera. Þetta hefur verið ljóst í nærri fjörutíu ár.

Fræg tilraun leiddi þetta fyrst í ljós. Leikskólabörnum sem sýnt höfðu mikinn áhuga á því að teikna var skipt í þrjá hópa. Einn hópur var hvattur áfram með loforði um verðlaun. Hinir tveir fengu að teikna (eða sleppa því) án slíkrar hvatningar. Að verki loknu fengu börnin verðlaunin fyrirheitnu en einnig börnin í öðrum af hinum hópunum. Síðan var fylgst með hvaða áhrif þetta hefði á löngun barnanna í að teikna.



Einn hópur skar sig úr. Áhugi barnanna sem „teiknuðu fyrir verðlaun“ snarminnkaði. Áhugi hinna hópanna hélst áfram hár (án marktæks munar á hópunum tveimur).

Innri áhugahvöt þarf ekki á verðlaunum að halda – þvert á móti eru meiri líkur á að þau spilli fyrir.

Og hvort viljum við í alvöru? Ýta börnum fram á leiksvið sem langar ekki að vera þar – og ýta útaf því börnunum sem vilja vera þar eða styðja við börnin sem raunverulega hafa áhugann?

Af hverju gerum við það ekki?

Hvaða lexíur halda menn í alvöru að börn læri á því að allt þeirra skólastarf sé steypt inn í eitt stórt umbunarkerfi, með stjörnugjöf og verðlaunum. Hversu djúpt rista dyggðirnar sem þannig eru innrættar?



Hvers virði er yfirborðskennt nám í grundvallaratriðum? Þurfa ekki grundvallaratriði að fá að sökkva dýpra inn í persónuleikann?

5 ummæli:

Brynjar Birgisson sagði...

Ég er sammála að vissu leyti en má ekki líka líta á verðlaun sem hvatningu til að gera eitthvað í fyrsta skipti. T.d. ef einhver sem hefur engan áhuga á ljóðagerð tekur þátt í slíkri keppni eingöngu til að vinna verðlaun fær blússandi áhuga á því einfaldlega vegna þess að hann spáði allri í því að gera ljóð áður. Mín tilfinning gagnvart verðlaunum barna (í listsköpun amk) er sú að reyna vekja áhuga á einhverju sem ekki var til staðar áður, þeir sem hafa áhuga t.d. að skrifa ljóð gera það hvort sem er burt séð frá verðlaunum.

Bjössi sagði...

Þú vanmetur æsku þessa lands stórlega ef þú heldur að "öll orkan fari í að öskra í sífellu slagorð." Að sjálfsögðu dást unglingar að því sem vel er gert, hvort sem það er í Skrekk, Stíl eða Gettu betur.

Bjössi sagði...

Það kemur mér á óvart hve þú vanmetur æsku þessa lands. Að sjálfsögðu dást unglingar að og verða fyrir áhrifum af því sem vel er gert í Skrekk, Stíl eða Gettu betur. Í raun furðulegt að maður sem hefur jafn mikla reynslu af að vinna með frábærum ungmennum skuli láta svona lagað út úr sér.

Þótt þú hvetjir þitt lið er ekki þar með sagt að þú horfir ekki á hin, hrífist af og myndir skoðun.

Pétur Halldórsson sagði...

Innilega sammála. Eins og einhver sagði: "Rewards are the enemies of exploration".

Sverrir Norland sagði...

Þegar ég var yngri hlaut ég fáein verðlaun fyrir hitt og þetta; ljóðagerð, leikritagerð, góðan árangur í íslensku, etc. Það var nauðsynleg hvatning í umhverfi þar sem flestir aðrir höfðu lítinn áhuga á slíku (kennarar, aðrir nemendur) og ég vildi eiginlega óska að tækifærin hefðu verið fleiri. Þetta glæddi áhugann, hélt honum jafnvel á lífi.