12. nóvember 2012

Málfræðiráðstefna

Ég fór sem laumufarþegi á fund í Menntamálaráðuneytinu í fyrravetur um framtíð íslenskunnar á tækniöld. Nú sé ég á fréttum að barlómur sumra sem þar voru er kominn upp á yfirborðið. Útfararstjórar íslenskrar tungu mega ekki til þess vita að þjóðin fái tæki og tækni hraðar en hægt er að staðfæra hana og þýða. Nú eru það spjaldtölvurnar sem eru skotmarkið. Og öppin, maður, öppin. Þau eru fleinninn í holdi málvöndunarsinnans – útlenskur magi í íslenskuðum búk spjaldtölvunnar.

Minn gamli kennari og vinur, Þorsteinn Gylfason, var málvöndunarmaður að mínu skapi. Hann jók við reynsluheim íslenskunnar. Hamaðist við að skapa orð. Hann sagðist einu sinni vera algjörlega áttavilltur án orðabókanna sinna. Hann tók sér forystu meðal þeirra sem kenndu Íslendingum að fanga það sem var framandi og fjarlægt – og bjó því oftar en ekki listilegan búning á einföldu, kjarngóðu íslensku máli. Okkur vantar landkönnuði sem hugsa á íslensku. Ekki úrtölufólk sem reynir að ausa tunguna með formalíni.

Áhyggjur af öppum eru óþarfar. App er forrit. Sérnafngift þeirra stendur á hæpnum grunni og þörfin fyrir aðskilin hugtök mun hverfa von bráðar.

Hvað um það, á fimmtudaginn klukkan þrjú verður ráðstefna í Bratta í gamla Kennaraháskólanum þar sem reynt verður að blása í glæður íslenskrar málfræðikennslu. Víst er málfræði skemmtileg! er yfirskriftin og vísar til þess óhræsisorðs sem fagið hefur á sér. Þar verður málfræði rædd, rýnd og rúin – og ég ætla rétt að vonast að paunkast verði aðeins á henni. Ráðstefnan gæti strekkt á taugum útfararstjóranna – sem þola íslenskunni ekki að vaxa og breytast.

Ég verð með smá erindi þar ásamt öðru góðu fólki.

Það gæti vel orðið fjör.

En hér er auglýsingin.


Engin ummæli: