22. október 2012

Talningin í Norður-Reykjavík



Ég hef samfélagslegan áhuga á kosningum. Ég tek lýðræðislegt hlutverk mitt alvarlega. Í því felst að vera upplýstur um samfélagsmál, kjósa og, eftir atvikum, stíga fram til samfélagslegra verka. Ég hafði góða sýn á ástæður þess að kosningin í Reykjavík norður tók svona miklu lengri tíma en annarsstaðar. Ég starfaði nefnilega þar við flokkun atkvæða.

Eitt er alveg pottþétt. Talningin hefði getað tekið miklu, miklu styttri tíma. Það fór dágóður hluti tíma margra starfsmanna í að bíða á milli verkefna.

Hitt er líka óefað að til þess að talning hefði tekið tíma þá hefðu starfsaðstæður eða kjörseðillinn sjálfur þurft að vera með öðrum hætti en var í Reykjavík norður.

Við þær aðstæður sem voru í Ráðhúsinu var valin rétt aðferð við talningu – og þeir sem stýrðu henni unnu sitt verk af stigmagnandi virðingu við fjölmiðla, starfsfólk sitt og atkvæði kjósenda (í þessari röð).

Þegar manneskja er búin að vinna í 8 klukkustundir og hún veit ekki hvoru megin við miðju hún er í verkefninu þá er sjálfsagt og eðlilegt að taka hlé – ekki síst ef langt er liðið á nótt. Ég segi fyrir mig að þótt ég sé alla jafna duglegur og telji vinnusemi til dygða þá er andleg skerpa mín og nákvæmni verulega skert hafi ég misst úr heilan nætursvefn. Það að sleppa úr svefni, þótt ekki sé nema eina nótt lækkar frammistöðu fólks á greindarprófum að meðaltali um 10 stig. Sem er meira en tvöfalt meiri skerðing en af völdum sumra forheimskandi eiturlyfja. Ég þekki ekki marga sem eru aflögufærir um 10 greindarpunkta.

Enginn sem vann við talningu bað um að fá að fara heim. Allir hefðu verið alla nóttina og gott betur ef það hefði það orðið niðurstaðan. Fólkið sem stýrði talningunni tók einfaldlega ákvörðun um að betra væri að vanda til verka en flýta sér. Og betra væri að virða náttúrulegar þarfir fólks fyrir svefn og næringu en að harka af sér „til að verða fyrst“.

Þar með er ekki sagt að ekki hefði verið hægt að klára fyrr, vinna hraðar.

Vandinn við það var hinsvegar þessi:

Hvern seðil þurfti að skoða a.m.k. 32svar (með grófflokkun, flokkun og staðfestingu í hverri spurningu og þrefaldri talningu í lokin á hverri spurningu). Atkvæði voru rúmlega 22 þúsund. Þannig að um það bil 800 þúsund sinnum þurfti að taka upp seðil til talningar eða skoðunar. Það var gert á 16 klukkustundum eða svo þar sem síðustu stundirnar fóru í auknum mæli í nákvæma skoðun einstakra seðla eða afstemmingu. Það jafngildir því að 14 seðlar hafi verið flokkaðir eða taldir hverja einustu sekúndu sem fólk var að störfum.

Samt hefðum við getað klárað töluvert fyrr.

Forsenda þess hefði verið sú að flokkarar sem búnir voru að flokka fyrstu spurningu hefðu getað snúið sér að því að flokka spurningu tvö áður en búið væri að staðfesta alla fyrstu spurningu og telja. Það hefði þýtt að jafnóðum og búið væri að telja bunka þá væri hann færður aftur á borð flokkaranna. Sem á sama tíma sátu við hlið þeirra sem enn voru að vinna úr bunkum sem óflokkaðir voru m.t.t. spurningar eitt.

Þetta hefði skapað mikinn glundroða. Helst hefði hjálpað hefði verið hægt að auðkenna seðla, t.d. með götun eða öðrum merkingum. Það var ekki gert, ég veit ekki einu sinni hvort það er heimilt. Eins hefði verið hægt að rífa efstu spurninguna frá þegar hún var afgreidd og svo koll af kolli. Það var heldur ekki gert – og stóð aldrei til.

Hefði verið hægt að taka tiltekinn fjölda flokkara afsíðis í annan sal og láta þá byrja að flokka næstu spurningu hefði málið auðveldast mjög. Þá hefði jafnvel mátt, með mannskapnum sem var á svæðinu, vinna í tveim til þrem spurningum í einu.

En það var bara ekki hægt. Það voru engir aðrir salir til að leggja undir sig. Aðeins tvö lítil fundarherbergi sem notuð voru eins og hægt var, t.d. til að afgreiða utankjörfundaratkvæði samhliða hinum.

Við bestu mögulegu aðstæður hefði verið hægt að stytta tímann sem fór í flokkun og talningu um tvær til þrjár klukkustundir. Þá hefði verið hægt að ljúka störfum um morguninn. Bestu aðstæður voru ekki fyrir hendi. Þeir sem stýrðu talningunni tóku þá ákvörðun að talið yrði rétt og engir sénsar teknir.

Ég sá í gærkvöldi færslu á netinu þar sem fólk var að tala um að það væri grunsamlegt hve lengi tók að telja. Einhver sagði að þetta hlyti að vera stórkostlegt klúður. Annar að það tæki tíma að „hagræða tölum“.

Auðvitað er fyndið upp að vissu marki að einn staður skuli skila tölum hálfum sólarhring síðar en flestir aðrir. Staðreyndin er samt sú að það tók ekki nema 2 klukkustundum lengur að telja í Ráðhúsinu en Hagaskóla en atkvæðafjöldinn á báðum stöðum var nokkurnveginn sá sami. Munurinn var sá að í Hagaskóla var hægt að dreifa úr sér á meðan vinna þurfti við skrifborð borgarfulltrúa í Ráðhúsinu (sem hönnuð eru til að taka mikið pláss og eru í þokkabót límd saman með glæru teipi á öllum samskeytum).

Ég er í það minnsta þakklátur fólkinu sem stýrði talningunni í Reykjavík norður. Mér finnst til fyrirmyndar þegar fólk vandar til verka undir utanaðkomandi pressu. Mér finnst æskilegt að allir sem stýri fólki til vinnu skuli setja grunnþarfir þess í forgang. Mér finnst eðlilegt að við kosningar haldi menn á lofti stífum gæðakröfum.

Það var ekkert kosningasvindl í Ráðhúsinu. Hverjum einasta seðli var sýnd virðing. Sumir kjósendur höfðu lagt mikið á sig til að kjósa í samræmi við eigin samvisku og hugmyndir um hagsæld þjóðarinnar. Margir seðlar voru skrifaðir með óstyrkri hendi gamalmenna, aðrir með dökkum blýantsstrikum þeirra sem vilja ekki að neitt fari á milli mála. Einn seðill var með álímdri breytingartillögu við stjórnarskrána um bann við aðild að stríðsátökum á erlendri grundu. Margt fólk tók kosningarnar ægilega alvarlega. Þeir sem það gerðu ekki sátu flestir heima.

Það er skylda kjörstjórna að taka kosningarnar að minnsta kosti jafn alvarlega og þeir kjósendur sem mest leggja í þær.

Að öllu þessu sögðu er hægt með tiltölulega einföldum breytingum að hraða úrvinnslu svona kjörgagna í framtíðinni. Helsti flöskuhálsinn er í talningunni sjálfri. Það þarf meira pláss fyrir talningarfólk og talningarvélar eru ekki eins fullkomnar og æskilegt væri. Þá skiptir miklu að hafa pláss fyrir vinnslu margra spurninga í einu. Svo þarf auðvitað að skoða í kjölinn hvort rafrænar kosningar séu ekki besti kosturinn þegar á allt er litið.

Úrslit kosninganna eru samt aðalatriðið. Ég ræði aðeins um þau fljótlega.

Í raun ætlaði ég ekki að skrifa þessa færslu, heldur aðra um úrslitin. Ég sá bara ástæðu til að fleyta þessu út í eterinn. Það er svo þreytandi við íslenska umræðu að margir telja það höfuðdyggð að hafa skoðun – en fæstir nenna að skoða skoðanir sínar og sitja því uppi með bölvað hrat.

5 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Eftir umræður á netinu, þennan pistil og útskýringar fleira fólks sem taldi í Reykjavík Norður, er ég engu nær um það hversvegna þetta tók svona miklu styttri tíma í Reykjavík Suður.

Voru fleiri að telja þar?
Var skipulagið eitthvað öðruvísi?
Liggur skýringin eingöngu í því hvernig húsnæðið er?
Ef svo er, hver ber ábyrgð á því að kjörstjórn fékk ekki almennilegt húsnæði?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það tók 2 tímum skemur. Fyrst og fremst vegna þess að þar mátti flokka seðla um leið og búið var að telja þá á öðru svæði en fyrri flokkun fór fram.

Slíkt var ekki gerlegt í Ráðhúsinu.

Þessi umframtími hugsa ég að hafi ekki réttlætt umfangsmiklar breytingar eins og vistaskipti.

Hefði verið mjög áríðandi að skila tölum um morguninn frekar en kvöldið eftir hefði það örugglega verið gert.

Enginn slíkur asi var uppi.

Ég hef á tilfinningunni að fólk átti sig ekki á mun þessara kosninga og heðbundinna þongkosninga og vilji því að allur ytri umbúnaður sé eins og þeir eru vanir.

Eva Hauksdóttir sagði...

Þessi frétt birtist 8.54 í gærmorgun. Samkvæmt henni var talningu þá lokið Rvk Suður. Er fréttin röng eða var talningafólk í Norður sent heim í 12 klukkutíma?

http://www.ruv.is/frett/stadan-i-talningunni

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það var sent heim í tíu tíma, frá 3 til 13.

Þeir sem höfðu yfirsýn yfir talningu á báðum stöðum segja að talning hafi í heildina tekið 2 tímum lengur í norður.

Þarna inn reiknast eflaust líka að fólkið sem vann frá 13 - 21 tók sér matarhlé yfir kvöldfréttunum.

Diddi sagði...

Að mínu mati er löngu orðið tímabært að koma kosningum á netið. Þá er hægt að kjósa eins oft um málefni og nauðsyn krefur og örugglega ekkert flóknara að búa til öruggt kosningakerfi heldur en öruggt netbankakerfi.

Með netkosningum er svo hægt að umbreyta þessu úr sér gengna fulltrúa-flokka lýðræði yfir í mun beinna lýðræði.

Kosningabaráttan gæti ennfremur farið miklu meira fram á netinu. Afhverju er það betra? Af því að frambjóðandinn með dýpstu vasana hefur ekki jafn mikið forskot og annars.
Hægt væri jafnframt að hafa kosningabaráttuna andlits-, kyns- og nafnlausa hluta af baráttunni... þá kæmust frambjóðendur eingöngu áfram á málefnalegum styrk sínum og raunverulegu orðspori, frekar en það sem er "presentað" á ýmsan hátt í hefðbundnum kosingabaráttum.

Er bara einfaldlega orðinn hundleiður á kerfi sem er raunverulegu lýðræði og jafnrétti lítið annað en skömm og hefting.