12. janúar 2012

Upplýsingatækni kennarans 3: Öpp og iPad.

Öpp

Hér ætla ég aðeins að skoða þá möguleika sem felast í notkun „appa“ til hagræðis fyrir nemandann og kennarann. Ég mun halda mig við iOS-öpp (fyrir iPad og iPhone) því ég hef ekki kynnt mér Android eða önnur stýrikerfi jafn vel.

Það eru nefnilega ekki einstakar bækur sem kennarar eru ráðnir til að kenna. Þeir eru ráðnir til að ná tilteknum markmiðum.


Skoðum dæmi um markmið í námskrá og leiðir til að ná þeim með öppum í stað þess að nota hefðbundnari kennsluaðferðir.

Hér má sjá upphaf lista um lokamarkmið náms í ensku:

Hér langar mig að benda á dæmi um sitthvort appið sem nota mæti til að ná þessum markmiðum bærilega. 

Hið fyrra heitir Press Reader og er ókeypis.  En með því má sækja dagblöð frá öllum heimshornum og á fjöldanum öllum á tungumálum. Þarna eru meira að segja íslensku blöðin. Þegar maður sækir forritið fær maður ókeypis 7 (minnir mig) eintök af áskriftarblöðum (ég sótti t.d. Moggann daginn sem fréttin um spjaldtölvurnar birtist). En megnið af blöðunum má sækja ókeypis og jafnvel fá áskrift að. Í fljótu bragði sýnist mér ennfremur að ekkert væri því til fyrirstöðu að nota appið sem áskriftarapp fyrir íslensk blöð fyrir skóla eða hvern sem er. Menn þyrfti bara að gefa út rafræna útgáfu og skrá hana þarna inn.


Góður ensku- (eða dönsku-)kennari gæti hafið hvern morgun á því að glugga í blöðin. Jafnvel beðið nemendur að kíkja í þau og sjá, hvort eitthvað markvert væri að frétta. Nemendur gætu svo lesið upp úr blöðunum eða gert eitthvað sniðugt eins og enskt/danskt fréttakviss eða eitthvað annað.


Næsta app er hreinlega iBooks, það er líka ókeypis.

Inn í það má senda rafbækur og lesa þær á skjánum. Sjálfum finnst mér ögn betra að lesa af Kindle-lesaranum (líka ókeypis) en það er ekki stór munur. 

Bækurnar getur maður sent nemendunum með tölvupósti eða sótt í bókabúð Apple. Þar fann ég t.d. bókina Visit to Iceland eftir Idu Pfeiffer sem lýsir Íslensku samfélagi um miðja 19. öld. Í lok bókarinnar er ensk þýðing á Gunnarshólma (halló, samþætting við samfélagsfræði og íslensku!). En auðvitað má sækja nýrri og eldri bækur, allt eftir þörfum – og sæmilega klár kennari getur búið til sínar eigin (jafnvel með hljóðupplestri og hreyfimyndum) sem nemendur geyma í rafrænu bókahillunni sinni.

Og í enskukennslu kemur sér vel að ef nemandi skilur ekki orð þá nægir að halda fingri á orðinu og skýring kemur upp. Ef hann þekkir ekki nafn heldur maður fingri yfir nafninu og manni er boðið að gúgla það eða fletta upp á Wikipediu.

Skoðum íslensku:

Fyrstu tvö markmiðin þar lúta að framsögn og flutningi. Til að styðja við það er fjöldinn allur af öppum. Einfaldast er auðvitað að búa til lokaða Youtube-rás þar sem nemandinn setur inn upptökur af eigin flutningi. iPaddinn er með tvær innbyggðar myndavélar og appið flytur myndbönd inn á Youtube með afar einföldum hætti. Ef kennarinn (og foreldrar) hafa aðgang að Youtube-rás nemandans getur nemandinn skilað þar inn til námsmats fjölbreyttum verkefnum – þar á meðal í framsögn.

Nemandinn getur líka sent myndbandið sem viðhengi til kennarans í tölvupósti.





Skoðum stærðfræði:


Ég er, og hef lengi verið þeirrar skoðunar að frumþáttun sé gríðarlega mikilvæg. Miklu mikilvægari en margföldunartaflan t.a.m. Það er að mínu mati mjög æskilegt að nemendur hafi þáttun á valdi sínu til að hindra að stærðfræðin við lok grunnskóla og byrjun framhaldsskóla verði verði mönnum fjötur um fót. Nema hvað, ég hef enn ekki séð einfaldari og átakslausari aðferð við að kenna þáttun en appið Factor Samurai (ókeypis).

Það er leikur í ætt við Fruit Ninja og snýst um að höggva í sundur allar aðrar tölur en frumtölur. Ef maður heggur t.d. töluna 25 þá brotnar hún í 5 og 5. Ef maður heggur í 5 þá missir maður líf. Smátt og smátt verður nemandinn eldfljótur að þátta tölur.

Og fyrir þá sem farnir eru að fást við þyngri útreikninga er til fullt af öppum sem þátta tölur fyrir þig. Sem og öpp sem breyta á milli mælieininga eða þýða á milli talnakerfa. Það er nóg af stærðfræðiöppum, það er nokkuð ljóst.

Samfélagsfræði?



Hér er til alveg hreint magnað app. Timeline Eons (ókeypis).



Með því er hægt að klípa og strjúka sér leið frá upphafi alheims til áætlaðra endiloka sólkerfisins (og lengra). Appið er mjög myndrænt og fjölnota. Og þekkingarforðinn stækkar sífellt. Með því að slá inn „homo sapiens“ var ég strax kominn á sporið.






Það væri ekkert því til fyrirstöðu að samþætta enskukennslu og samfélagsfræði í einstökum atrennum. En stærsti kosturinn er auðvitað sá að ákveðnir nemendur halda áfram að grúska og nema af appi eins og þessu og eru ekki háðir talfærum kennarans upp á að afla sér þess sem vekur áhuga þeirra.



Náttúrufræði og umhverfismennt




 Helsti kosturinn við öpp í náttúrufræði er möguleikinn á nýjustu gögnum. Það er hægt að lyfta iPaddinum upp og fá mynd af stjörnuhimninum sem fylgir þér ef þú snýrð þér. Þannig getur þú borið það sem þú sérð úti saman við upplýsingarnar í appinu sem segir þér hvaða stjarna er hvað.

Ég er sjálfur doldið skotinn í ögn nördalegum og ósexí öppum eins og Artic Watch (ókeypis)


 eða einhver af þeim fjölmörgu (ókeypis) veðurathugunaröpp sem í boði eru.


Með slíkum öppum fá nemendur samhengi og nýjustu upplýsingar. Slík öpp eru til hundruðum saman. Sum skrá veðrið, önnur vatnsforða eða heimskautaís, enn önnur jarðskjálfta. Og svo mætti lengi telja.


Ekki eitt af öppunum sem hér eru nefnd kosta pening. En maður þarf að vera bæði blindur, heyrnarlaus og verulega fúllyndur til að sjá ekki hvílíka yfirburði tæki eins og iPad hefur yfir kennslubækur. Auk þess er tækið meðfærilegt, með innbyggðar myndavélar, hljóðnema, staðsetningarbúnað (gps) og hreyfiskynjara. Sem veitir því margvíslegt forskot á hefðbundar tölvur. Loks er það svo einfalt í notkun að sonur minn (15 mánaða) kann á því grunntökinn og sonur samkennara míns (á leikskólaaldri) kann að hringja í ömmu sína á Skype ef mamma leggur frá sér tækið.

En ég vil þó árétta eitt. Ég lít fyrst og fremst á hlutverk tækja eins og iPad að frelsa okkur frá skólaborðunum og skólabókunum. Ég mun síðar nefna hvernig upplýsingatæknin getur skapað tíma og rými til að brjóta sér leið út úr kennslustofunni og út í veruleikann. Sýndarveruleiki upplýsingartækninnar er að mínu mati markvissasta leiðin til að brjóta niður sýndarveruleika skólastofu iðnbyltingarinnar. En þar erum við því miður flest enn stödd í skólum landsins.

Engin ummæli: