12. janúar 2012
Gefið Gnarr breik
Ég er fæddur og uppalinn á landsbyggðinni. Þegar ég eignaðist mín eigin börn ákvað ég að ala þau upp bæði í fámenni og fjölmenni - þótt ekki væri til annars en þess að þau tileinkuðu sér örlitla víðsýni og lærðu að þau tilheyra fjölbreytilegri heild.
Ég held raunar að það hafi verið ein mesta gæfa mín í lífinu að flytja úr notalegum, vernduðu legi Akureyrar þegar ég var 11 ára og til Suðurnesja. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu seinna að þeir sem hafa verið á Akureyri alla sína hunds- og kattar tíð búa við tvær bölvanir. Sú fyrri er að andlegi sjóndeildarhringurinn verður eins og sá veraldlegi, þröngur. Sú seinni er að menn fá nóg. Þegar ég sneri aftur til Akureyrar í menntaskóla sá ég samnemendur mína einn af öðrum fyllast ógeði á bænum og vilja burt. Fæstir koma aftur. Ég upplifði það ekki. Mér þykir vænt um Akureyri. Hún er fæðingarbær minn og mér finnst alltaf gott að koma þangað og vera þar.
En eitt af því sem ég lærði af að búa út á landi er lágmarks sjálfsbjargarviðleitni. Og því meiri sem staðurinn er minni. Einn veturinn á Dalvík snjóaði t.a.m. svo mikið að við þurftum að moka okkur upp og út úr íbúðinni okkar. Auk þess þurfti maður að grafa sig niður í öskutunnuna. Bíllinn var á kafi í snjó í nokkrar vikur. Annan vetur á Húsavík þurfti ég að sækja skóla til Akureyrar. Það var snjóþungur vetur. Tvisvar lenti ég í því að komast ekki Víkurskarðið í skólann og sitja fastur í áætlunarbílnum í snjókófinu. Þar sem skyldumæting var í loturnar lenti ég í allskyns vandræðum út af þessu og var neyddur til að vinna einhver aukaverkefni til refsingar fyrir að hafa ekki komið í tíma.
Konan mín, sem er fædd og uppalin í Reykjavík, þurfti einu sinni að keyra 8 km til vinnu á hverjum degi. Úr sveitinni í bæinn. Einu sinni brast á með svo ofsalegri stórhríð og skafrenningi að hún sá ekki í næstu stiku. Hún kom nötrandi af geðshræringu heim eftir að hafa gengið gegnum allt tilfinningarófið ein í óveðri og myrkri úti í sveit. En síðan þá hefur færð eða veður ekki dugað til að koma henni úr jafnvægi.
Gott og vel, sjálfsbjargarviðleitni manna er misjöfn og misdjúpt á bróðurþelið. En það er eitthvað verulega bogið við það að fólk skuli garga eins og vanstilltir unglingar og heimta höfuð Borgarstjórans á snjóskóflu af því þeir telja sig hafa fundið handvömm á störfum starfsmanna borgarinnar í snjókófinu.
Ég hef aldrei fengið aðra eins þjónustu í snjótíð og hér á Höfuðborgarsvæðinu. Ég hef getað keyrt hvert sem ég vil og hef ekki einu sinni sett skófluna í skottið (eins og ég gerði þó stundum í fyrravetur). Það hefur bara allt verið mokað sem moka þarf. Vissulega hef ég reynt að hafa lágmarksmeðvitund og tvisvar hefur það komið fyrir að ég hef lagt bílnum annarsstaðar en heima hjá mér þegar fyrirsjáanlegt er að gátan mín fyllist af snjó. Og einu sinni var ég gripinn í bólinu og sá að ég færi ekki neitt þann daginn á bílnum mínum. Svo ég tók strætó í tvo daga. En þá var einmitt búið að moka götuna mína.
Ef manni finnst lífið erfitt í snjónum er um að gera að reyna að gera sér það bærilegt en streða ekki við að halda í venjur sínar þrátt fyrir aðrar aðstæður.
Þeir sem sinna snjómokstri hafa unnið frábært starf. Þetta eru ósköp venjulegir menn sem vakna um miðjar nætur og vinna meðan við hin sofum. Og fleiri, fleiri nætur eru sjálfboðaliðar í björgunarsveitunum úti um allt að bjarga þeim sem lenda í vanda. Og fá ekki krónu fyrir. Og ætlast ekki til þess.
Á sama tíma er ömurlegt að hlusta á barlóminn, frekjuna og vælið.
Og þegar menn heimta höfuð Gnarrs þá verð ég að segja. Í þessum málum er ég algjörlega á hans bandi. Ekki bara vegna þess að ég get ekki samþykkt þau rök að Borgarstjórinn beri ábyrgð á öllum gjörðum borgarstarfsmanna. Ef fagmennirnir í borginni ákveða að salta ekki eða sanda ekki þá er það þeirra mál. Borgarstjórinn á ekkert að skipta sér af því. Hann hefur ekki hundsvit á söltun og söndun. Ef mistök verða á að díla við þau hjá viðkomandi fagfólki. Það að segja ítrekað: Hafið þið ekki brugðist. Og eiga við Gnarr og borgarstjórn er álíka mikið rugl og að segja mikið hafið þið staðið ykkur vel þegar borgarstarfsmenn skara fram úr.
Stórnmálamenn vilja gjarnan eigna sér góð verk kjósenda. Kjósendur vilja eigna stjórnmálamönnum eigin ósiði.
Hvernig væri að reyna að lyfta umræðinnu upp úr stærstu sköflunum?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Kostnaðurinn er aðalatriði í þessu eins og svo mörgu öðru - ekki fagmennskan.
http://smugan.is/2011/11/oskemmtileg-thoggun/
Á að setja óþarfa mikin pening í söltun gatna borgarinnar fyrir svona ófyrirséðar aðstæður? Það snjóaði óeðlilega mikið í nokkra daga. Átti Jón Gnarr að bera ábyrgð á því? Það er löngu búið að ráðstafa þessum peningunum (kerfið virkar bara þannig) og ef við setjum meiri pening í þetta fer minna í annað.. hver á þá að kvarta?
Ég fyrirgef Grarrinum allt eftir að ég komst að því að hann stöðvaði sölu holræsanna til Finns Ingólfssonar. Ég þurfti að vísu að kaupa sand og skóflu til að komast út úr strætóleiðunum en þarf fyrir vikið ekki að fara í ræktina næstu 2 mánuði eða svo miðað við snjófjöllin sem ég handmokaði. Heildardæmið er allt í stórum stórum plús. Takk fyrir mig.
Bíddu nú hægur, hvenær stöðvaði Gnarrinn sölu holræsa borgarinnar til Finns Ingólfssonar?
Nafnlaus1: Hvernig tengist "stóra salt-sandmálið" leikskólum? Það er ekkert í greininni sem rökstyður það
Gnarr er held ég að reyna sitt besta.
Þetta er orðin þreytt síbylja að Gnarrinn eigi svo bágt og borgarstarfsmenn séu að standa sig svo vel og það snjóar svo mikið og Gnarrinn stjórni ekki veðurfarinu og bla bla bla.
Ég er LÍKA alinn upp úti á landi. Já já og sei. Ég hef líka búið hérna í bænum í 20 ár. Þegar snjóar og/eða það er hálka eiga borgarstarfsmenn að ryðja/sanda/salta. Að ryðja þýðir að ryðja líka gagnbrautir fyrir gangandi vegfarendur. Það hefur ekki verið gert.
Borgin á að veita okkur borgarbúum þjónustu. Í það fer útsvarið okkar. Í mínu hverfi hefur EKKERT verið gert til að ryðja/sanda/salta frá miðjum desember. Mér er andskotans sama þótt þú sért sprellánægður með "Grarrinn". Það er fullt af fólki, þ.m.t. ég sem er drulluóánægt með hann og "duglegu" borgarstarfsmennina sem vinna undir erfiðum kringumstæðum (og svo framvegis bla bla bla).
Borgarstjóri vill samræmd svör frá borginni. Hver á að veita þau samræmdu svör? Starfsmaður á plani?
http://www.visir.is/engin-thoggun-a-leikskolum-i-reykjavik/article/2011711129859
finnst gagnrýnin heldur mikil og mikið um væl en samt sem áður hefði mátt gera smááá... meira í mesta svellinu sem var(aldrei hægt að gera nóg en fjölförnustu göngugötur og stíga hefði mátt sanda e-ð og salta), budgetið fyrir snjóruðning o.s.frv. er hálfnað nú þegar var sagt um daginn, af hverju ekki bara að klára budgetið í þessari ótíð og segjast svo ekki geta gert neitt því peningarnir séu búnir, hitt er máske öfgasparnaður.
Skrifa ummæli