11. september 2011

Prófessorinn og kynlífsferðamennskan

Athugið: Mig langar að biðja þá sem ætla að dreifa þessari grein að gera ráðstafanir svo börn sjái hana ekki. Og áður en einhver spyr þá mun ég ekki taka hana út. En skal meira en glaður leiðrétta allt sem rangt er haft eftir. Ég vil skrifa satt.

Í gær gerðist það í fyrsta skipti að ég eyddi burt færslu af Maurildunum vegna þess að ég vissi að hún fór fyrir brjóstið á fólki. Efni hennar var eldfimt. En það var ekki þess vegna sem ég eyddi henni út. Ég eyddi henni út vegna þess að ég sakaði þar fólk um illkvittni sem reyndist aðeins sekt um fljótfærni og dómgreindarskort. Og með því að stilla því þannig upp lét ég ábyrgðina af umfjöllunarefninu falla á aðra en sjálfan mig.

Ég er ábyrgðarmaður þessarar síðu og skrifa efnið á hana. Fari ég yfir strikið þá vil ég að það sé algjörlega á kristaltæru að ábyrgðin liggur hjá mér. Ég reyni eins og mér er framast unnt að vera málefnalegur og heiðarlegur og láta hvorki stjórnast af þórðargleði né öðrum ómerkilegum nautnum.

En ég ætla ekki að vera hræddur um að fjalla um erfið mál. Ég vil bara að það sé gert þannig að ég standi undir ábyrgðinni. Þess vegna skrifa ég þessa færslu í stað þeirrar sem ég tók út.

Hafi einhver lesið skrif mín þá vita menn að mér er frekar í nöp við við sumt í umræðunni. Ég vil ekki tilheyra neinu klappliði. Og ég segi nákvæmlega það sem mér finnst þótt það komi manneskju illa sem var sammála mér í síðustu viku. Ég er til dæmis oft sammála frjálshyggjumönnum en oftar ósammála. Hið sama gildir um femínisma, sem ég er oft sammála, en upplifi óþægilega oft sem alræðissinnað heilaþvottarafl. Aktívistar fá í minni bók stjörnu fyrir sjálfstæða, persónulega afstöðu sem þeir fylgja eftir með aðgerðum – en stóran mínus í næstum hvert einasta skipti sem ég heyri þá færa rök fyrir afstöðu sinni.

Eitt af því sem ég þoli illa er vændi. Ég hef alltaf verið í prinsippinu á móti því. Ekki út af því að ég trúi ekki á tilvist hamingjusömu hórunnar (mér finnst tilvist hennar álíka líkleg og tilvist hamingjusömu „druslunnar“). Ég hef bara þá persónulegu afstöðu að kynlíf sé best stundað með reisn (!) og gagnkvæmri virðingu. En ég viðurkenni að þetta er viðkvæmt mál sem á endanum byggir á persónulegri afstöðu, umburðarlyndi og fjölbreytni. Og boj ó boj hvað þetta umræðuefni er umvafið hræsni.

Ég þekki persónulega yfirlýsta femínista, menn sem starfa innan vébanda Vg sem trítluðu inn á hóruhús í Amsterdam til að safna í reynslubankann.

Það sem ég þoli verst af öllu í þessum efnum eru kynlífstúristar. Á sama tíma og öldur óhamingjunnar skella á sterkbyggðum strandvarnargörðum Íslandsstranda (sem hópar flóttamanna) eru íslenskir (oftast) karlar á ferðalögum um fátækari hluta heimsins til að svala holdlegum fýsnum í umkomuleysi innfæddra. Það finnst mér ekki lengur snúast um það hvort hórur séu hamingjusamar eða hvort fólk megi vera slöttí. Við eigum ekki að halda fólki með handafli í eymdinni og nýta okkur það. Punktur.

Og einna verst þykir mér þegar fátæktin ýtir fólki út í það að láta skera sig upp og umbreyta útliti sínu til að verða markaðsvara fyrir ríka Vesturlandabúa. Þegar líkami fátækra verður markaðsvara þeirra ríku þá finnst mér komið yfir þau mörk sem frjálslyndi mitt setur.

Mér fannst t.a.m. ekkert sniðugt eða sætt við það þegar Sverrir Stormsker skrifaði minningargrein um Hannes Þór Helgason (fórnarlamb Gunnars Rúnars) og gaf mjög eindregið í skyn að þeir hefðu verið stórtækir vændiskaupendur í paradísinni Tælandi. Og mér fannst ekki sætt eða sniðugt efnið sem rataði í fjölmiðla í gær í augnablik og datt þaðan út næstum umsvifalaust aftur.

Hér koma staðreyndir málsins:





Árið 2008 birtist um allt netið stolið aðgangsorð að síðu sem virðist vera síða fyrir transvændisfólk í Brasilíu. Þetta aðgangsorð var netfang Hannesar Hólmsteins við Háskólann. Svo fylgdi einhver dularfullur tilbúning sem leyniorð.

Strax hér kemur bara tvennt til greina. Annað hvort er prófessor við háskólann að nota netfang sitt við skólann til að kaupa sér aðgang að vændisfólki í Brasilíu eða einhver annar er að stunda persónurán á prófessornum í sama tilgangi.

Hvorttveggja er fréttnæmt.

En til að flækja málið enn frekar birtist síðan lykilorðið á síðu HHG í sumar. Þetta sama lykilorð og notað var með netfangi hans inn á þessa vændissíðu. Alveg samhengislaust. Bara ein færsla með þessu orði og engu öðru.

Fjölmiðlamenn tóku eftir þessu en virðast ekki hafa gúglað orðið, því það hefði leitt þá þráðbeint á síðuna sem myndin er af hér að ofan.

Í staðinn var búin til einhver baggalútsk færsla um að HHG væri farinn að tala geimverumál.

En mér finnst þetta meira mál en svo að menn þagni bara hér. Og þótt ég trúi því að fjölmiðillinn hafi ekki vitað af samhenginu þegar geimverufréttin birtist þá vil ég fá að vita hvernig stendur á því að persóna prófessors við HÍ er notuð sem kaupandi að vændisþjónustu í fátæku landi.

Mér finnst alls ekki sjálfgefið að HHG standi sjálfur á bak við þetta. En hann veit eitthvað um málið. Hann birti leyniorðið á síðunni sinni.

Lágmarkið er að hann tjái sig um þetta.

Ég veit að það er þjóðaríþrótt að hata Hannes Hólmstein. Hann nýtur ekki sannmælis. Ég hef töluverða samúð með honum þess vegna. Og mig langar að trúa því að hér sé um að ræða enn eina atlöguna að heiðri hans og mannorði. Að nafn hans hafi verið notað í þessum tilgangi. Helst hefði ég viljað að þetta hefði hent einhvern óumdeildan og flekklausan. En það er sem er.

Það er ein frétt sem þarf að koma í fjölmiðla í dag. Annað hvort er hún þessi:


„Háskólaprófessor notar netfang sitt við skólann til kaupa á vændi.“

eða

„Óprúttnir aðilar stela persónu háskólaprófessors til kaupa á vændi.“


Svo lengi sem fréttin er þögguð niður munu allir trúa því að fyrri fréttin sé sú sanna.

Á Íslandi er ekki aðeins neðanjarðarhagkerfi, það er líka neðanjarðarumræða. Ákvarðanir um flest mál eru teknar fjarri almenningi. Elíta ræðir saman. Þingmenn eru einangraðir í flokkum ef þeir segja of mikið við fjölmiðla.

Lýðræðið virkar ekki nema tekist sé á um mál fyrir opnum tjöldum. Vissulega eru einkamál heilög. En það er tvennt við þetta mál sem gerir það opinbert. Í fyrsta lagi er netfang í eigu háskólans notað sem aðgangur að vændi og í öðru lagi er um að ræða vændi í fátæku landi sem, þrátt fyrir að vera með óljós lög gegn vændi – er plagað af vændistúrisma. Og vændistúrismi eru ekki bara viðskipti. Heldur skipulögð aðför að ungum kynslóðum og uppbyggingu þessara landa.

25 ummæli:

Eva sagði...

Það sem mig langar að kommenta á hér er ekki aðalefni greinarinnar heldur lítið aukaatriði sem samt skiptir máli.

Þú segist ekki hrifinn af rösktuðningu aktivista fyrir afstöðu sinni. Nú geng ég út frá því að þú hafir í huga borgaralega óhlýðni (sem er aðeins ein hlið aktivisma) eins og hún hefur birst hér á landi síðustu ár. Rökin sem íslenskir aðgerðasinnar hafa fært fyrir afstöðu sinni eru nánast alltaf tilbrigði við sama stefið: "kapítalismi setur eignarrétt ofar öllu öðru og þessvegna er ekki hægt að vinna gegn umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum nema takast á við rót vandans, sem er stórfyrirtækjavæðing og eignarhald fárra á náttúruauðlindum og öðrum gæðum sem allir ættu að hafa aðgang að." Þetta eru rökin fyrir því að rétt sé að beita líkama sínum til að tefja framkvæmdir sem skaða náttúruna (t.d. að festa sig við vinnuvél), til að vernda fólk og dýr gegn níðingshætti (t.d. að flytja flóttamann sem á að vísa burt í öruggt skjól) til að valda þeim óþægindum sem níðast á lítilmagnanum (t.d. að safnast saman inni á skrifstofu stofnunar með háreysti) og knýja fram endurskoðun á hugmyndum yfirvaldsins um eignarrétt (t.d. með pólitískum hústökum eða hindrunum á nauðungaruppboðum) svo eitthvað sé nefnt.

Mig langar að vita hvort þér þykja þessi rök léleg eða hvort þú ert með í huga einhver atvik þar sem allt öðrum rökum hefur verið beitt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk, Eva.

Ég átti von á hliðarumræðu. En þá frekar fyrir að efast um tilvist hamingjusömu drusluna. En gott þú veitir mér aðhald.

Það sem angrar mig við málflutning (margra) aktívista er þessi sjálfsblekking og vanvirðing fyrir lýðræðinu.

Það, að þegar manni mislíkar e-ð við samfélagið þá reynir maður að vinna gegn teknum ákvörðunum með líkamlegu valdi.

Það að menn skuli skilgreina óvin (t.d. kapítalisma) og telja að sannfæring manns um illsku hans réttlæti ólýðræðisleg vinnubrögð.

Slíkar aðgerðir tel ég að séu þá aðeins réttlætanlegar ef lýðræðisfrelsi er skert að verulegu leyti (ekki sem abstrakt túlkun).

Fyrir utan það að á endanum eru þessar aðgerðir alveg jafn áhrifslausar eins og að skrifa grein í moggann. Þetta er gert til að friða eigin samvisku, ekki til að hafa raunveruleg áhrif. Raunveruleg áhrif krefjast þess að menn hafi áhrif á aðra – laði þá til fylgis við „sannleikann“ – ekki standa undir svörtum fána og fæla alla frá.

Grímur Sæmundsson sagði...

Nú er búið að stofna user account á þessa brasilísku transvændissíðu sem heitir ragnar.thor.petursson@reykjavik.is. Ég hef sent erindi til barnaverndarnefndar um að kennari í barnaskóla í Reykjavík stundi stórfeld vændiskaup með skólanetfanginu sínu. ...nei, djók!

En þarf málið að vera nokkuð flóknara? Einhver hefur kópíerað netfangið hans Hannesar og stofnað account sem heitir það sama. Það liggur ekkert fyrir um að e-mailinn sem tengdur er við user accountinn sé sá sami og heitið á accountinum.

En, það er sama hvað Hannes segir úr þessu. Hluti þjóðarinnar kemur til með að trúa þessu upp á hann.

Þessu hefðirðu alveg getað sleppt Ragnar.

Grímur

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sá hluti þjóðarinnar sem kemur til með að trúa þessu trúir nú þegar öllu illu upp á Hannes.

Það er rétt, það liggur ekkert fyrir. Og ég held ég ítreki það rækilega. Hinsvegar birtist lykilorðið á síðu Hannesar, þar sem hann virðist hafa sett það fyrir slysni.

Það er skrítið.

Og auk þess er alvarlegt mál ef einhver stundar það að stela með þessum hætti persónu annars manns. Ef þú hefðir í alvöru tengt mína opinberu persónu með þessum hætti við vændi hefði ég tilkynnt það til lögreglu.

Ég hefði vel getað sleppt þessu. Og ég hugsaði mig vel um. Svo prófaði ég að ímynda mér að þetta væri annað land og hvort í fjarlægð hlutleysis maður hefði haldið að svona yrði opinberað. Og svarið er já.

Hannes þarf ekki nema að koma fram og segja hvernig málin standa.

Grímur Sæmundsson sagði...

"Hannes þarf ekki..." Ég geri fastlega ráð fyrir að Hannes viti jafn mikið um hvernig málin standa og þú hefðir gert ef ég hefði stofnað user account með póstfanginu þínu og sleppt að láta þig vita. Gefið einhverjum krossfaranum nafnlaust hint og látið slefberana um að dreifa sögunni.

Ert þú tilbúinn að trúa manni sem kemur fram í fjölmiðlum til að lýsa fáfræði sinni um notkun á eigin netfangi? Ég held að það skipti engu máli hvað Hannes segir opinberlega um þetta mál. Að því leiti er þetta óvenjulega eitraður viðbjóður sem þú ert að áframsenda hérna.

Ég prófaði að gúgla netfangið hans Hannesar og þetta er ekki eina klámsíðan sem kemur upp. Hann virðist hafa óvenju fjölbreyttan smekk þegar kemur að kynlífi. ;-)

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú gleymir einni staðreynd, Grímur. Það er að HHG birti sjálfur lykilorðið á síðunni sinni.

Hann veit því örugglega eitthvað.

Ég gúglaði hann líka og þótt þessar upplýsingar kæmi víða fram gat ég ekki annað séð en að þær vísuðu alltaf á sömu síðuna. Sem ég gúglaði líka. Því ef það hefði verið venjuleg klámsíða hefði ég ekki látið mér detta í hug að skrifa um þetta. Klám er almennt notað á landinu. En allar þær upplýsingar sem ég gat aflað mér voru þannig að þetta væri escort-síða með nákvæmum upplýsingum um hæð, brjóstmál, þyngd o.fl.

Kynlífstúristar frá vesturlöndum eru gríðarlega alvarlegt mál. Og við erum einstaklega sofandi fyrir þessu. Mér finnst kynlífstúrismi nákvæmlega ekkert eðlilegur eða ásættanlegur sem þáttur í samskiptum ríkra og fátækra landa. Hvað þá þegar menn afbaka líkama sinn til að geta selt hann.

Þarna er því annaðhvort einhver að þykjast vera HH í slíkum erindagjörðum eða hann sjálfur að sækja í svona þjónustu (og það með auðkenni sitt úr HÍ).

Ef það er hið fyrra þá er það einn liður í mjög alvarlegri áróðursherferð sem rekin er gegn manninum hér á landi. Hann er kallaður fífl og fáviti, sakaður um hrunið einn og persónulega og annað slíkt – og enginn virðist kippa sér upp við það.

En ef hann er að stunda þetta þá verð ég að segja að það klúður að bendla sjálfan sig við þetta með einhverju kopípeist-klúðir gefur ástæðu til að þetta sé rætt og skoðað.

Og raunar er löngu kominn tími á það að við stingum á þessu kýli sem kynlífstúrismi er hér á litla Íslandi.

Teitur Atlason sagði...

Ertu að segja Grímur, að það sé verið að freima HHG? Mér datt það nú reyndar í hug þegar ég sá þetta, eftir að hafa klórað mér duglega í hausum yfir þessu.

Ef það er málið, þá er það sannarlega fréttnæmt. það er líka fréttnæmt ef að prófessor við HÍ er (svo vitlaus) að nota netfangið sitt í svona surfi.

Ég er viss um að það eru til reglur um opinbera starfsmenn sem banna svonalagað

Hvernig í fjáranum fer þetta leyniorð á Facebook hjá HHG?

Eva sagði...

Það er reyndar ekki rétt hjá þér að beinar aðgerðir hafi ekki áhrif. Öll helstu mannúðarmál mannkynssögunnar hafa verið unnin með beinum aðgerðum, hvort sem það er kosningaréttur kvenna, afnám þrælahalds, afnám aðskilnaðarstefnu eða eitthvað annað.

Allar þessar hreyfingar endurskilgreindu lýðræðið. Það sem við teljum lýðræði er nefnilega ekki meitlað í stein.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

takk, Eva.

Ég var ekki að meina að beinar aðgerðir hafi aldrei áhrif. Aðeins að þær aðgerðir sem íslenskir aktívistar standa fyrir hafi ekki haft áhrif – og það hafi verið meira en lítið fyrirsjáanlegt. Og því hafi samfélagsbreytingar ekki verið markmiðið (a.m.k. ekki nærri því raunhæft) heldur persónulegt kikk hvers og eins.

En kannski meira um þetta í rýninni á ge9n á eftir.

Eva sagði...

Aktivismi hefur ekki verið áberandi hér fyrr en síðustu 7-8 árin og það eru innan við 50 manns sem hafa verið sérstaklega virkir um lengri tíma þótt mun fleiri hafi tekið þátt í einstaka aðgerð. Við sjáum þegar töluverð áhrif þótt auðvitað vilji maður gjarnan sjá meiri árangur. Það tekur tíma að ná alvöru árangri, þrælastríðið var ekkert unnið á einni nóttu og suffragetturnar þurftu að brenna kirkjur og brjóta rúður til að ná árangri.

Aðgerðir Saving Iceland endurvöktu umræðuna um Kárahnjúkavirkjun þegar hún var dottin niður og SI hafa haft gífurleg áhrif inn í náttúruverndarhreyfinguna, m.a. með því að skipuleggja ráðstefnur og fræðsluerindi. Viðhorfin til þess hverskonar aðgerðir séu viðeigandi hafa gjörbreyst. Árið 2002 fólst andófið aðallega í ljóðalestri.

Það voru aðgerðasinnar sem knúðu mótmæli vetrarsins 2008-2009, sú uppreisn hefði ekki orðið að neinu ef ekki hefði komið til annarsvegar fjöldinn sem raddir fólksins söfnuðu saman og hinsvegar aðgerðir anarkista sem slitu lögregluborðana og fóru inn á "bannsvæði".

Það er vegna beinna aðgerða og síðan hófsamra mótmæla í kjölfar þeirra sem Paul Ramses er á lífi. Það er vegna samstarfs aktivistahreyfingarinnar No Borders og Helenu Harsita, með stuðningi Kolfinnu Baldurs og hennar pacifistahóps sem Noor Aldin var bjargað frá Grikklandi. Það er vegna aðgerða No Borders sem Henry Turay er á lífi og Mohammde Lo er ekki í höndum þrælahaldara. Fleiri mætti nefna.

Japanir eru hættir hvalveiðum vegna aðgerða Sea-Shepherds, ISM og sambærilegar hreyfingar hafa bjargað fjölda Palestínumanna frá ofbeldi landnema og hers, bara með veru sinni á staðnum. Heldur þú virkilega að beinar aðgerðir, sem um allan heim og á öllum tímum eru hvati allra breytinga í lýðræðisátt, virki eitthvað öðruvísi á Íslandi?

Eva sagði...

Annars er ég líka alveg til í debat um hamingusömu hóruna/drusluna.

Ég er hin mesta drusla sjálf og þótt það henti þér að stunda kynlíf með ákveðnum formerkjum þá bara eru ekkert allir eins.

Ég skrifaði einu sinni svargrein við grein prests sem taldi sig vita allt um það hverskonar kynlíf væri gott og heilbrigt. http://www.norn.is/sapuopera/2007/09/post_86.html

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Eva, ég vildi gjarnan halda þessari umræðu áfram (um róttæknina) við gagnrýnina á Ge9n, ef þér væri sama.

Um hamingjusömu drusluna þá veit ég ekki hversu mikið ber á milli okkar í því, óháð ufirborðsfjarlægð. Með druslu á ég einfaldlega við manneskju sem stundar kynlíf sem grefur undan sjálfsmynd hennar. Og þetta er fólk af báðum kynjum – mikil ósköp. Ég á ekki við um fólk sem er tilraunaglatt eða lauslátt í neinum venjulegum skilningi. Heldur aðeins fólk sem stundar kynlíf af sömu hvötum og af sama heilbrigði og aðrir gúffa í sig óhollustu eða áfengi.

Eva sagði...

Ef þetta er þín skilgreining á druslu þá erum við nokkurnveginn sammála og samkvæmt því getur maður auðveldlega verið drusla innan vébanda hjúskapar. Hinsvegar er orðið drusla jafnan notað um lauslátar konur eða bara daðurdrósir.

Þú tengir þetta hórunni sem vekur það hugboð að þú álítir að "hamingjusama hóran" (það eru þeir sem gera lítið úr vændiskonum en ekki þær sjálfar sem nota þetta hugtak) stundi sinn bissniss af eða vegna einhverskonar fíknar og/eða að það líferni grafi undan sjálfsmynd hennar. Þetta er algengt viðhorf sem frjálsar hórur á vesturlöndum hafna með öllu. Það þykir bara yfirleitt engin ástæða til að hlusta á þær.

Hlakka til að sjá rýni þína á GE9N.

Nafnlaus sagði...

Eina sem ég vil bæta við þetta er að ef maður gúglar lykilorðið þá hefur því verið deilt til aðila á netinu svo hægt sé að fá aðgang á þessari síðu, og þeim hinum sama m.a.s. þakkað fyrir að deila téðu notandanafni og lykilorði.

Ef lykilorðið gilt, þá hefur eflaust þurft að virkja þennan reikning með því að smella á hlekk í staðfestingarpósti, sem tíðkast almennt á síðum þar sem skráningar er þörf. HHG (eða hinn óprúttni aðili) hefur því að öllum líkindum þurft að hafa aðgang að pósthólfi netfangsins hannesgi@hi.is.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Við skulum ekki hrapa að ályktunum. Það er ekkert sem bendir til þess að aðilinn hafi þurft aðgang að netfanginu. Hann hefði getað skráð netfangið sem notendanafn og e-ð allt annað netfang.

Harpa Hreinsdóttir sagði...

"En til að flækja málið enn frekar birtist síðan lykilorðið á síðu HHG í sumar. Þetta sama lykilorð og notað var með netfangi hans inn á þessa vændissíðu. Alveg samhengislaust. Bara ein færsla með þessu orði og engu öðru."

Hvað áttu við með "síðu HHG"? Var þetta á FB-síðunni hans? Og var hann sjálfur sendandi skilaboðanna / statussins? Eða birtist þetta lykilorð sem nafnlaust comment á blogg Hannesar (þ.e.a.s. ég veit ekki hvort hann rekur blogg en velti fyrir mér hvað þú átt við með "síðu HHG")

Hafi HHG ekki sjálfur sent lykilorðið inn sem stöðufærslu á eigin FB er lítið að marka þennan pistil þinn og spurning af hverju þú ert að skrifa hann ... nema til að rægja HHG. Hafi hann sent inn lykilorðið sem status á eigin FB er málið orðið heldur snúnara.

Vinsamlegast upplýstu.

Eva sagði...

Hvernig gerir maður ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að börn sjái grein sem birt er á opinni vefsíðu? Er einhver barnasía á þessari síðu?

Eva sagði...

Og svona til að gæta sanngirni þá er það að einhver skoði netsíðu ekki sönnun þess að hann hafi keypt eða einu sinni hugleitt að kaupa þá þjónustu sem auglýst er á síðunni þótt vissulega sé athyglisvert að netfang hgh sé tengt síðunni.

Hildur Lilliendahl sagði...

Eva: Það er auðvitað erfitt að gera slíkar ráðstafanir en ég til dæmis gef mér að sonur minn hafi ekki maurildið inni í daglega bloggrúntinum sínum og þegar ég deildi færslunni á Facebook læsti ég hann fyrir utan hana, ásamt tveimur öðrum vinum mínum sem eru undir lögaldri.

Harpa: Lykilorðið fræga birtist sem status frá Hannesi á Facebook-síðu Hannesar. Hann mun síðar hafa eytt því. Það er auðvitað fráleitt að ætla að einhver hafi upphaflega reynt að koma þessari sögu af stað með því að nota netfang HHG sem notandanafn á brasilísku síðuna og sá hinn sami hafi síðan einhvern veginn hakkað sig inn á Facebookið hjá HHG mörgum árum seinna til að búa til svona faux-status. En aðrar mögulegar skýringar eru t.d. að Hannes hafi fundið þetta orð einhvers staðar á internetinu eftir að hafa gúglað sjálfan sig og síðan klúðrað því í gegnum copy/paste óvart í status.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Allt rétt hjá Hildi.

Eva, þetta snýst ekki um að skoða svona síðu. Þessi tiltekna síða er escort-síða sem kaupa þarf aðgang að. Hið stolna lykilorð virkaði, sem segir okkur það að notandinn með þetta netfang keypti sér aðgang.

Og ég get raunar ekki séð annað en að þetta sé ólögleg starfsemi því þótt Brassar hafi ekki bannað vændi þá er allt hórmang bannað.

Atli sagði...

Hmmm.. allt er nú til.

Eru þetta karlar sem eru búnir að láta setja á sig brjóst eða er þetta konur með tippi?

Sumir þarna eru með kvenlegan vöxt, mjaðmir og brjóst en hins vegar með tippi, pung og karlmannleg andlit.

Afar undarlegt allt saman.

Hannes, Hannes, Hannes.

Stefán Pálsson sagði...

Kjaftasagan um væntiskaup HHG í Brasilíu og kynlífsferðir hans þangað hefur gengið í mörg ár. Er ekki eðlilegt að líta á þetta mál sem framhald af þeim söguburði?

Einhverju sinni fékk Sigursteinn Másson hann í viðtal á Skjá einum og bar upp á hann söguna. Hannes neitaði henni staðfastlega. Hann hefur því opinberlega neitað þessum orðrómi og spurning hvort eðlilegt sé að gera þá kröfu til hans að hann hlaupi til í hvert sinn sem sú saga er endurtekin?

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Skrítið að hann skuli sjálfur hafa birt þetta lykilorð á eigin status á FB ... Og þú ert viss um að það hafi virkað? (Ég prófaði náttúrlega í gærkvöldi og lykilorðið + netfangið virkaði ekki á síðunni ...)

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Stefán, ég vil trúa því að hér sé ekki um að ræða söguburð eða gróusögur. HHG skrifaði undarlegt orð á FB og þegar orðið er gúglað kemur í ljós að það er lykilorð að vændissíðu í fátæki landi, og ekki nóg með það, tengt netfangi HHG við Háskóla íslands.

Það virðist sem svo að einhver hluti manna telji að vændiskaup HHG séu staðreynd en einkamál. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki inni í því slúðri. Ég hafði heyrt af viðtali Sigursteins en minnti að það hefði snúist um handtöku eða eitthvað álíka.

Hannes á að mínu viti rétt á einkalífi – og rétt á miklu betri umfjöllun en hann hefur fengið. Maðurinn hefur verið lagður í einelti árum saman. Og ég hef oft borið blak af honum. Hann er ekkert fífl.

En að sama skapi er það alvarlegt mál ef netfang háskólaprófessora poppar upp í tengslum við kynlífstúrisma.

Hafi hann ekki staðið á bak við það sjálfur er þetta ærumorð – andstyggileg en langsótt árás á fræðimanninn HHG. Hafi hann staðið á bak við þetta sjálfur er það jafnframt alvarlegt, því hann er að nota auðkenni sitt við skólann og taka þátt í siðlausu og hugsanlega ólöglegu athæfi. Því hórmang er ólöglegt í Brasilíu og ég get ekki betur séð en þessi síða sé hórmangsíða.

Þegar myndskeið birtist þar sem Pálmi Gests og Unnur Steins voru að að strjúka lim hests birtist á dýraklámsíðu var umsvifalaust haft samband við þau og gerð frétt. Engum datt í hug að þau hefðu sjálf einhverjar hvatir til dýra og hefðu tekið þátt í að tengja persónur sínar við slíkt.

En nú þegja allir. Samt vofa fjölmiðlar yfir þessu eins og gammar. Kíkja á þessa færslu oft á dag. Væntanlega til að sjá næsta leik.

Ég er engan að reyna að níða. Það er persónuleg sannfæring mín að kynlífstúrismi sé ofbeldi og kúgun. Ég vona, í allri einlægni, að hér sé verið að freima manninn. Og ef hann hefði verið tengdur þessu án þess að notað væri hákskólaauðkenni hans hefði ég þagað. Það hefði svo margt getað komið í veg fyrir að ég talaði um þetta. En þetta reyndist perfect storm. Of margt kallaði á það að þetta yrði rætt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Harpa. Það sem bendir til þess að lykilorðið hafi virkað eru þeir fjölmörgu sem þakka fyrir það á síðunni sem það birtist á. Það bendir eindregið til þess að það hafi verið nothæft á sínum tíma.

Mér finnst þetta líka mjög skrítið með FB. En vil trúa því að hann hafi séð þetta og verið að gúgla það. Tímalengdin þarna á milli gerir það frekar líklegt.