Ég ætlaði ekki að blogga fyrr en í fyrsta lagi um miðja næstu viku. En ég má til. Þessi heimaskólaumræða krefst þess að fólk sem þekkir til tjái sig. Og þar sem aðrir þegja – þá stendur upp á mig að tala.
Það fór sem mig grunaði að Margrét Pála væri ekkert að sækjast eftir afnámi skólaskyldu. Hún var að stuða og vekja til umhugsunar. En það hvernig hún fór að því vakti um leið upp allskyns móra og skottur sem hefðu betur haldið sig í dróma.
Skólaskylda er tryggingarkerfi. Hún á að tryggja að allir Íslendingar njóti ákveðinna griða til menntunar. Og veitir ekki af. Íslendingar hafa alltaf valið skjótfengan gróða framyfir langtíma farsæld. Á meðan íslenskar fjármálastofnanir héldu að þær væru þær bestu í heimi soguðu þær fólk úr háskólunum til sín. Sem leiddi auðvitað til þess á endanum að þær voru fullar af hálfköruðu fólki með enga raunverulega starfsreynslu og sáralitla menntun. Þegar á reyndi kom í ljós hversu ofsalega áfátt okkur var. Á sama tíma héldu Íslendingar flestir að þjóðin væri sú gáfðasta, hugrakkasta og besta í gervöllum heiminum. Það var endalaust hægt að baða sig í peningum. Þessi stundargeðveiki mældist í börnunum í svonefndri PISA-könnun. Börnum af höfuðborgarsvæðinu og af svæðinu umhverfis Reyðarfjörð fór aftur í undirstöðunámi. Á sama tíma bættu börn á norðvesturlandi sig aðeins. Menntun er álíka lítils virði venjulegum mörlanda og umhverfisvernd þegar henni er stillt upp andspænis aurum.
Íslendingar hafa enn ekki áttað sig á því af hverju þeir heita Íslendingar. Þeir hafa ekki náð punktinum á bak við nafnið. Samt átti það að virka sem viðvörun. Eilífur minnisvarði um fyrstu íslensku lífskjarabóluna, sumarið sem Hrafna-Flóki dvaldi hér við að tína ber af runna og moka silungi úr ám. Eða réttara sagt minnisvarði um fyrsta íslenska hrunið. Veturinn eftir.
Ekkert ríki í heiminum kemst til velsældar og heldur sér þar nema tryggja góða undirstöðumenntun. Það eru eins örugg sannindi og þau að sá sem aflar ekki vetrarforða á vonda vist framundan.
En á Íslandi eru tímar velsældar alltaf notaðir til að kenna nýrri kynslóð að nám sé töpuð vinna.
Íslenska skólakerfið er í tætlum. Skólinn er dýr en laun eru lág. Svo lág að hlutfall karlmanna við kennslu hefur aldrei verið lægra. Í skólunum er rekin stefna sem kallast skóli án aðgreiningar án þess að þeirri stefnu fylgi hugur eða hönd. Stór hluti kennara trúir ekki á opinbera skólastefnu á landinu og veit sáralítið um hana. Kennarar eru gamlir og endurnýjun lítil. Aðalfundir kennara eru óttaslegnar samkomur þar sem menn standa margfalda varðstöðu um réttindi sem þeir trúa vinnuveitanda sínum til að reyna að stela. Nýliðun er léleg, margir brenna út. Og fjölbreytni fer hverfandi.
Nú er staðan í Reykjavík, sem vegna stærðar sinnar ætti að vera leiðandi í fjölbreyttu skólakerfi, þannig að börn fá ekki inni nema í sínum hverfisskóla. Vinsælustu skólarnir, þ.m.t. skólinn minn, Norðlingaskóli, þarf að vísa frá hópum barna sem reynt er að koma inn í skólann, oft á æðisgegnum flótta undan skóla- og lífsleiða annarsstaðar.
Búið er að breyta framhaldsskólanum aftur í hverfisskóla. Vegna þess að þeir gátu ekki druslast til að sýna smá metnað og hugsa út í það hvað þeir teldu æskilega kosti umsækjenda. Þegar samræmdu prófin voru tekin af framhaldsskólunum var það eins og að taka heróínið af langt leiddum fíkli. Þeir vissu ekkert hvað þeir áttu að gera. Og voru langt fram á haust að leysa málið. Hverfisskólaleiðin leysti þann vanda, menn raða nú á bása eftir augljóslega ranglátu kerfi.
Vinnudagur barna er skammarlega langur. Börn sem eiga foreldra sem eru svo heppnir að eiga pening þurfa að stunda tómstundir og æfingar utan skólatíma og jafnvel seint á kvöldin. Á sama tíma eru börnin verkefnalaus frá miðjum degi og frameftir öllu. Eini tíminn sem fjölskyldan á að eiga saman fer í æfingar. Það er ekkert því til fyrirstöðu að börn stundi tómstundir og íþróttir og séu búin með vinnudaginn klukkan fjögur eða fimm og geti eytt kvöldinu með fjölskyldum sínum. Ekkert nema metnaðarleysi og nurl.
Brottfall úr framhaldsskóla er gríðarlegt og menntunarstig þjóðarinnar að sama skapi lágt. Menntaðir karlar eru í útrýmingahættu. Úr hverjum árgangi detta burt 1000 til 1500 manns fyrstu árin eftir að skólaskyldu lýkur. Þetta kostar samfélagið einn og hálfan milljarð á árgang. Og þetta kostar brottfallsnemendurna í mörgum tilfellum áratuga fátækt í láglaunavinnum og á örorku.
Og á þessum tímapunkti stingur einhver virkilega upp á því að slaka á skólaskyldunni!
Að það sé barasta fínt að gefa sumum börnum frí frá skólanum. Og að börn megi barasta læra heima hjá mömmu og pabba þótt þau séu engir kennarar.
Það þarf ekki að koma á óvart að þeir sem skriðu fram úr tréverkinu á fréttavefjum og fögnuðu þessum hugmyndum reyndust vera forsvarsmenn heimskunnar. Menn sem komu fram og vældu yfir því að það væri bara litið niður á fólk sem segðist trúa á Jesú – og bættu síðan við að þróunarkenningin væri nú einu sinni bara kenning – en ekki eitthvað vísindalega sannað. Og hvað vissum við sosum um það hvað jörðin væri gömul?
Á virkilega að gefa þessu fólki kost á því að halda börnunum sínum frá menntun. Þessum arfaheimsku ösnum sem tortryggja skólann vegna þess að hann fæst ekki til að samþykkja vitleysuna í þeim?
Að afnema skólaskyldu er eins og að afnema skyldutannlækningar hjá börnum. Sumir myndu sjá um það áfram. Aðrir myndu illa sinna því. Hvernig er tannheilsan í dag hjá börnum?
Skólinn er ekki nærri því nógu góður eins og hann er. Það þarf að laga. Það þarf að auka fjölbreytni og val. Það þarf að leggja meiri áherslu á að mæta hverjum nemenda þar sem hann er. En til þess þarf góða og metnaðarfulla kennara. Og til að fá þá þarf að borga sæmileg laun. Ekki halda áfram með þessi smánarlaun sem í boði eru en duga vegna þess að það eru nógu margir rígfullorðnir kennarar á svæðinu sem hafa ekki efni á að missa eftirlaunaréttinn. Það þarf að lesa yfir hausamótunum á kennurum og segja þeim að hætta að vera svona stífir og stirðir og hræddir. Það þarf að vaða í vinnubrögðin og rjúfa einangrun. Það þarf að breyta ansi miklu. En ekki ein einasta lausn er fólgin í því að gefast upp á nemendunum og segja: „Veistu góði minn, slepptessubara.“
Það eru nógu margir nemendur sem detta út um leið og skólaskyldunni sleppir. Og þeir borga. Guð minn góður hvað þeir borga. Og börnin þeirra. Og viðhalda þessari hringrás forheimskunar og fátæktar sem óhugnanlega stór hluti þjóðarinnar er fastur í.
Hver einasta manneskja sem hættir í skóla, hver einn og einasti af þessum 1200 eða svo sem hættir í hverjum árgangi hefur yfir að búa möguleikum sem góð menntun eflir og tálgar. Hver einasta manneskja sem hættir í skóla vegna þess að henni líður ekki vel eða vegna þess að hún hefur ekki efni á því – er stórkostleg sóun fyrir samfélagið.
Við þurfum að leggja til hliðar fyrir framtíðina. Taka gæði í dag og breyta í forða fyrir morgundaginn. Það þýðir ekki að neyta rétt á meðan nefinu stendur. Íslendingar eru ein verst menntaða þjóð hins vestræna heims. Við borgum einhver þau verstu kennaralaun sem um getur og erum með háaldrað kennaralið. Kennararnir trúa ekki á þá hugmyndafræði að öll börn séu velkomin á eigin forsendum í skólann.
Skólakerfið á Íslandi í dag er til skammar.
En það er svo sannarlega ekki ástæða til að afnema skólaskyldu. Skólaskyldan setur byrðar á hendur kennurum og skólayfirvöldum. Byrðar sem erfitt hefur reynst að standa undir. Þessum byrðum á ekki að létta af neinum. Það á að fá sterkari burðarmenn.
Veikt skólakerfi er öruggasta leiðin til að eyðileggja samfélag. Þau börn sem eru menntuð utan almenna skólakerfisins í BNA til að mynda eru þar ýmist vegna jaðarhópa sem vilja ekki að börnin „mengist“ af öðrum börnum og venjulegu fólki – og síðan er stór hópur í heimakennslu vegna þess að skólakerfið hefur brugðist. Hefur verið látið drabbast niður á það stig að vanhæfir kennarar lúta vanhæfri stjórn með stjórnlausa nemendur. Þeir sem hafa haft efni á því – kippa börnunum sínum frekar heim en að láta þau marinerast í eymdinni í almennum fátæktargildrum sem skólarnir eru.
Þetta er öruggasta uppskriftin að stéttskiptu, ónýtu samfélagi.
Íslenskur skóli hefur eitt grundvallarmarkmið. Hann á að ala upp skapandi og hugsandi lýðræðisþegna. Ala upp fólkið sem nýtir þau tækifæri sem felast í Íslandi betur en þau hafa verið nýtt hingað til. Skólinn er samfélag.
Þú gerir engan að skapandi samfélagsþegn með því að kippa honum út úr samfélaginu sem er til staðar. Ef einhver passar ekki inn – þá þarf að leyfa honum að reyna inngöngu frá öðru horni og ef það dugar ekki þá þarf að búa til pláss.
Afnám skólaskyldu léttir þrýstingi af menntayfirvöldum. Fólk er þá sjálfviljugt með börnin sín í skólanum, sama hve lélegur hann er. Í því er fólgin ákveðin viðurkenning. Það á ekki að viðurkenna vonda skóla. Þeir eru óréttlætanleg sóun fyrir land og þjóð.
13 ummæli:
Þú misskilur mikið. Eða skilur fátt. Magga Pála kastaði þessu framm einmitt til þess að styrkja stöðu skólanna. Það kom ekki vel fram í Kastljósinu en hún skýrði það betur í morgunútvarpinu á Þriðjudagsmorguninn. Hlustaðu á það.
Hún veltir því nefnilega fyrir sér hvers vegna leikskólar njóti velvildar en grunnskólinn ekki og giskar á að partur af því sé skólaskyldan, þetta skrímsli sem drullar á tröppur foreldra á síðsumars og neitar að fara fyrr en hún hefur fengið ómótaða sál til að forrita.
Nokkuð til í þessu virðist mér.
Vandamálið sem Margrét Pála vill leysa er áhugaleysi foreldra um menntun barna sinna. Það leysist ekki með því að afnema skólaskyldu!
Varðandi leikskólana: Ég held að Margrét sé ekki endilega rétta manneskjan til að dæma um leikskólamenntun og árangur leikskóla hér á landi.
Hún er með mjög selectíft sjálfval í leikskólunum hjá sér - fólk sem er dedicated og involverað.
Í öðrum leikskólum er ástandið allt öðru vísi: Flestir foreldrar rétt stinga inn nefinu til að skilja barnið eftir og taka nákvæmlega engan þátt í starfi skólans heldur lita á hann sem stað þar sem hægt er að geyma börnin meðan þau eru í vinnunni. Þó allir séu ægilega "ánægðir" með starf leikskólanna þýðir það ekki að þeir séu að taka þátt!
Vandamálið í leikskólunum og grunnskólunum er því nákvæmlega það sama: Foreldrar hafa ekki tíma fyrir börnin, eða gefa sér ekki tíma.
Það leysist ekki með þvi að afnema skólaskyldu.
Það er enginn að ætla henni neinar íllar hvatir - en það er hins vegar klárt mál að þessi lausn, heimakennsla og afnám skólaskyldu, eru verulega vondar hugmyndir.
Rutseg, eina leiðin til að þetta styrki stöðu skólanna með þessum hætti er sambærilegt við að eiga ömurlegan eiginmann sem maður er samt fjárhagslega háður sem segir bara „dyrnar eru þarna“ ef hann er gagnrýndur fyrir að vera ömó.
Ragnar. Þetta er ekki að öllu leyti sambærilegt. Hún er mjög ofmetin menntunarþörfin og enginn háður skólum nema starfsfólkið vegna lífsafkomunnar og valdhafar til að hafa stjórn á lýðnum. Börn hafa að eðlisfari litla menntunarþörf. Ég er löngu búinn að átta mig á að skólakerfi eru ekki fyrir börn.
Nafnlaus, afnám skólaskyldu breytir yfirbragði skólakerfisins og gerir það vinalegra hugsa ég. Það er það sem hún er að pæla. Frelsi fækkar óvinum. Og foreldrum sem eiga völ líður betur en þeim sem enga eiga. Það er ég viss um. - Hún bendir á að fræðsluskylda sé í DK en ekki skólaskylda. Hvernig stendur á að DK er ekki hrunið til grunna og gersamlega allir í ógæfu þar?
!
Fjármálastofnanir fengu bestu meðmæli frá háskólakennurum, ekki frá ungu fólki með enga raunverulega starfsreynslu og sáralitla menntun. Hrunið hefur kennt okkur það að svínin eru víða, ekki endilega heima hjá sér.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=285550&pageId=4162682&lang=is&q=Vilji%20til%20vaxtar
"Á virkilega að gefa þessu fólki kost á því að halda börnunum sínum frá menntun. Þessum arfaheimsku ösnum sem tortryggja skólann vegna þess að hann fæst ekki til að samþykkja vitleysuna í þeim?"
Ég held að flestir þeirra sem tortryggja skólann geri það vegna þess að skólinn hefur ekki mætt þörfum þeirra og/eða barnanna þeirra og jafnvel brugðist þeim illa hvað eftir annað.
Ég held líka að það séu fáir kennarar sem ekki vilja bjóða öll börn velkomin á sínum eigin forsendum. Ég held hinsvegar að margir kennarar séu örvæntingarfullir yfir því að eiga að bjóða börn velkomin á sínum eigin forsendum án þess að hafa neinar aðstæður til að mæta þeim forsendum. Það er ekki boðlegt að heimta það að nemendur sem þrífast alls ekki í lokuðu rými með stífri dagskrá funkeri með börnum sem njóta sín í hefðbundinni skólastofu. Það er ósanngjarnt gagnvart barninu sjálfu, hinum börnunum sem verða fyrir stöðugu ónæði vegna þess og líka gagnvart kennaranum sem stöðugt þarf að velja á milli þess að halda 2-3 börnum rólegum í astæðum sem þau upplifa sem fangelsi eða sinna hinum 18 sem myndu í mörgum tilfellum læra meira ef þau fengju næði við eldhússborðið heima hjá sér.
Ég held hinsvegar að það sé stórhættulegt að afnema skólaskyldu án þess að bjóða upp á skóla sem raunverulega hentar þeim sem víkja frá norminu. Ég efast hinsvegar um gagnsemi mætingaskyldu.
Og svo skyldi ekki gleymast þegar óskað er eftir aukinni ábyrgð og þátttöku foreldra í menntun barna sinna að hlutfall fávita og hlandfatna í foreldramenginu er svipað og í heildarmenginu. Og að fyrir hvert barn sem þrífst ekki í skóla er eitthvað x hlutfall barna sem þrífast verr heima hjá sér en í skólanum. Eins og Larkin sagði:
They fuck you up, your mom and dad
They may not mean to, but they do.
Larkin, barnavinurinn góði.
Góður punktur hjá Varríusi. Það eru nefnilega líka til börn sem eiga hreinlega í skólanum (og jafnvel skólaskyldunni) athvarf frá foreldrum sínum.
Það vantar músík við þessa færslu. Mæli með Another Brick in the wall og Mother með Pink Floyd.
Rétt, en ég efast um grunnskólinn eigi að gegna því hlutverki að vera griðastaður frá heimilinu og þótt hann sé það í sumum tilvikum breytir það því ekki að einnig eru til börn sem þjást í skóla hvern einasta dag. Skólayfirvöld þykjast gera sitt með því að "taka á eineltismálum" sem venjulega merkir lítið fram yfir það að draga úr líkamlegu ofbeldi eða útvega alls kyns greiningar sem gera ekkert nema stimpla barnið og kannski sérkennslu, yfirleitt seint og um síðir.
Langoftast taka svo illa hugsandi foreldrarnir fullan þátt í ofbeldinu, með því að ljúga því að barninu að það VERÐI að fara í skólann og það sé EKKI HÆGT að neita því.
Skrifa ummæli