11. september 2011

Ge9n lífræðinu

Ég fór að horfa á Ge9n áðan. Mætti snemma því ég vildi vera öruggur um að fá sæti. Ég hefði getað sparað mér þær áhyggjur. Klukkan sex var ég enn einn í salnum. Svo bættust örfáir við á lokasprettinum.

Sumt er virkilega vel gert í myndinni. Þar eru nokkur mjög myndræn móment. Og þar sem vantaði upp á að myndmálið skilaði sínu var það bara búið til. Sérstaklega frábær augnablik voru atriði þar sem gríðarlega stór maður stingur upp í sig pínulítilli flautu í skrúðgöngu og atriðið þar sem mynavélin nær augnsambandi við fjallkonuna eitt augnablik – sem endar á því að hún lítur undan.

Myndin er auðvitað ekki hlutlaus – og reynir ekki einu sinni að vera það. Hljóð og mynd á að styðja við ákveðna túlkun og ákveðna niðurstöðu. Eða kannski ekki ákveðna niðurstöðu – meira svona ákveðið hugarfar. Myndin er upphafning á ákveðnu hugarfari.

Boðskapur myndarinnar er þessi: Fólk er grandvaralaust og dáleitt í neyslukapphlaupi. Það gerir sér ekki grein fyrir fánýti lífs þess og skorti á afstöðu. Í stað þess að fá útrás með því að gera eitthvað – þótt það væri ekki nema með því að öskra – þá heldur það áfram neyslunni og rígheldur í lífsstíl sem kominn er að fótum fram og heldur áfram að vera fótgönguliðar í valdakerfi sem byggir á allskyns rembum og rugli.

Myndmálið er áhugavert. Óvinir myndarinnar eru smáborgarar, uppfullir af andúð á anarkistum og róttæklingum. Goddur leikur þá innan um dauðhreinsaðar IKEA-innréttingar. Hetjurnar, 9 menningarnir, eru til mótvægis alltaf með lífrænan bakgrunn. Eða réttara sagt blandaðan bakgrunn. Þar sem greipum neyslusamfélagsins er stillt upp við hlið lífrænunnar sem hún er að reyna að virkja og hamla. Ávextir vs ávaxtakassar, arfi vs gangstétt, sjórinn vs hvalveiðiskip, hraun vs steypa.

Markmiðið er að áhorfandinn sjái að fólkið sem ruddist inn í Alþingi var eins og aldan sem skellur á fjörugrjótinu. Allskyns fólk sem búið var að síga og hníga með reiðiöldunni í þjóðfélaginu og úti á Asuturvelli sem þarna braut sér leið upp stigaganginn í átt að þingpöllum. Og að málsóknin á hendur þeim hafi verið pólitísk. Og byggð á lygum.

Þetta fólk hafi einhvernveginn opinberað ofbeldið og kúgunina sem heldur samfélaginu saman en enginn verður var við – svo lengi sem allir ganga í takt.

Svo lengi sem arfinn lætur sér nægja að vaxa milli gangstéttarhella er hann ekki upprættur.

Auðvitað er það svo að fólkið sem ruddist inn á Alþingi og var sótt til saka reynir að göfga aðgerðir sínar. Sá hluti myndarinnar fannst mér heldur slappur. Það minnti mig sannast sagna á það þegar drukknir eða skakkir vinir eða kunningjar sjá sig tilneydda af einhverri innri hvöt til að réttlæta eigin neyslu í löngum, ómarkvissum vaðli þess sem hefur ekki hönd á neinu en fálmar þess í stað eftir því sem best hljómar. Ég hef eytt miklum tíma í að hlusta á slíkt röfl um ævina og á tímabili fanns mér ég staddur í partíi úti í horni í einhverju eldhúsi þar sem voteygður kunningi með hálflokuð augnlok og augnaráð sem sígur alltaf í átt til jarðar eftir því sem líður á setninguna lætur dæluna ganga.

En þessi ómarkvissi vaðall virkar í Ge9n alls ekki fráleitur því fyrri hluti myndarinnar felur í sér það að kapítalisminn og samfélagið er ýkt upp í gróteskt og óskiljanlegt ferlíki. Og í því samhengi virka ruglingslegir viðmælendurnir eins og einhver sem hefur fundið nýtt bragð eða nýja lykt og er að reyna að útskýra reynsluna fyrir öðrum.

Það er auðvitað ekki hlutverk Hauks að gagnrýna þetta fólk. En þegar menn reyna í einhverri orðaleikfimi að sannfæra fólk um að Íslendingar séu nasistar – þá er það merki um að vélin hafi verið látin rúlla aðeins of lengi.

Myndin er eins og hellismannasaga Platóns. Tilraun til að fá fólk til að sjá að raunveruleikinn er skuggamynd. Og sýna fólki að sendiboði þeirra sanninda sé enn tekinn af lífi.

Smám saman fór mér að þykja pínulítið þreytandi framsetning myndarinnar á öðru fólki. Mér fannst satt að segja gert lítið úr venjulegu fólki, þingvörðum og lögreglumönnum. Í tilraun til að útskýra heiminn sem valdapíramída neysluhyggjunnar þá hættir fólk að vera persónur og verður táknmyndir. Löggan verður búningur og þingvörður verður varðmaður. Allt er metið frá einum sjónarhóli, sjónarhóli þess sem talar í myndinni. Gert er grín að því að þingverðir hfi upplifað sig undir árás. Það er beinlínis hlegið af svip manns sem lýsir ótta. Farið er gegnum myndasafn og hlegið eða hæðst að fólki, sem þarf ekki mikið ímyndunarafl til að skilja að var óttaslegið. Leið illa.

Þá er hæðst að prestinum sem reyndi að fá fólk til að forðast það að verða múgur. Og er sú sena öll hin undarlegasta. Á tímabili er eins og Hrfn Gunnlaugsson hafi valið persónur og leikendur.

Áhrifamesta röksemd myndarinnar er frá gamla dópistanum. Sem bendir á að sem dópisti og glæpamaður hafi hann átt vinsamleg samskipti við lögguna en sem aktívisti njóti hann engrar miskunnar. Það er sterkt. Og það er rétt. Það er lítið umburðarlyndi gagnvart aktívistum.

En myndin sannar samt að aktívisti er ekkert eitt. Það var engin heilsteypt hugmynd á bak við það að ryðjast í þinghúsið. Einhver vildi lesa upp tilkynningu – aðrir voru bara með. Það er engin heilsteypt hugmyndafræði eða tiltekið ranglæti sem verið er að berjast gegn. Þetta eru bara gamaldags róttæklingar, eins og alltaf hafa verið til – og alltaf hafa verið úti á jaðrinum, því þeir hafa sáralítinn áhuga á að efna til samtals. Þá skortir grundvallarvirðingu fyrir óvini sínum. Þeir eru aðeins of tilbúnir að afgreiða fólk sem táknmyndir – en ekki persónur sem bera þarf virðingu fyrir – jafnvel þegar maður er ósammála.

Og þar liggur synd þeirra sem gera Ge9n, sem er undarlegt því þar liggur einmitt líka synd þeirra sem sóttu 9menningana til saka.

9menningarnir eru andlýðræðislegir lífræðissinnar en Alþingi er andlífræðisleg lýðræðisstofnun. Uppspretta beggja er vanvirðing fyrir þeirri lífssýn að mennskan í hverjum manni sé þúsundfalt meira virði en hvert það tákn sem menn þykjast sjá í honum.

Auðvitað eiga ekki örfáir að vera að horfa á þessa mynd í bíó. Þessi mynd er á margan hátt listaverk og merkileg heimild. Hún skilar sínu og vel það. Og þótt maður sé ekki endilega sammála þeim straumum sem um hana fara þá verðskuldar hún athygli manns og sinn sess á umræðupalli lýðræðisins. Það er nefnilega svo að þrátt fyrir að rambl margra í myndinni hafi verið samhengislítið og útblásið (og upphafið vegna sakborningsstöðu viðkomandi) þá var meiri glóra í mörgu sem þar var sagt heldur en þeim vaðli sem fólkið ætlaði að trufla af pöllunum. Og nokkrir viðmælendur hafa ofsalega karisma. Þannig að nú átt þú að drífa þig í bíó og afsanna það að allir sem hafa áhuga á róttækni í íslenskum stjórnmálum hafi fengið boðsmiða á frumsýninguna. Og ef þú fékkst boðsmiða átt þú að fara aftur og bjóða einhverjum með þér. Þessi mynd var gerð fyrir þig. Án hennar hefði merkilegur hluti af íslenskri sögu ekki varðveist.

13 ummæli:

Eva sagði...

Takk fyrir ágæta rýni.

Göfga aðgerðir sínar? Ekki sé ég neina sérstaka göfgun, þeim fannst bara sjálfsagt að fara á pallana og láta þingheim vita hvað þau væru að hugsa. Því er mótmælt að þetta hafi verið ofbeldisfull aðgerð, hvað þá árás sem varðar við 100. greinina. Það mat var staðfest með dómi.

Ég get tekið undir það að ræður nímenninganna voru á köflum ómarkvissar, maður fær á tilfinninguna að þau séu að hugsa upphátt án undirbúnings og ég gæti trúað að þessi hluti hefði orðið sterkari ef þau hefðu fengið ákveðnar spurningar. Þau koma inn á áhugaverð mál sem tengjast kapítalismanum; ofneyslu, markaðshyggju, hernaðarhyggju, umhverfisspjöll, spurninguna um eignarréttinn, yfirgang yfirvaldsins og múgmennskuna. En þetta verður grautarlegt í meðförum þeirra og hefði mátt vinna betur.

Ég er fullkomlega ósammála þér um að það sé fráleitt að tala um nazisma á Íslandi. Við sendum að meðaltali 28 flóttamenn til helvítis á hverju einasta ári á móti hverjum 5-6 sem við hjálpum, eftir að hafa sett þá í að meðaltali 30 daga fangelsi (það er brot á mannréttindasáttmálum) og látið þá svo bíða árum saman eftir úrskurði. Þrátt fyrir ömurlegar aðstæður þessa fólks þarf yfirleitt fjölda manns, bréf eftir bréf og fund eftir fund til að berjast fyrir tilverurétti hvers þeirra.

Mér fannst ljósmyndirnar renna stoðum undir þá hugmynd að átökin hafi verið meira í ætt við það sem þáttakendur í aðgerðinni hafa lýst, (minniháttar stimpingar) en stórfelld líkamsárás eins og kæran hljóðaði upp á en já það er rétt, allt yfirvald er afmennskað í þessari mynd og það má deila um réttmæti þess. Hinsvegar var ekki komið inn á hið augljósa, að þingverðir gengu þarna í hlutverk lögreglu sem er alls ekki í þeirra verkahring en það er áhugavert hversu oft fólk tekur slíkt að sér ótilkvatt.

Presturinn er dæmi um mann sem án nokkurs umboðs ætlar að taka sér einhverskonar leiðtogahlutverk, stjórna fólki sem greinilega er mætt í þeim tilgangi að mótmæla yfirvaldi. Tilraun hans fer út um þúfur og múgurinn setur hann á sama stað og annað yfirvald, út með prestinn, út með lögguna. (Við erum hér á okkar forsendum, ekki til að hlýða einhverjum sem við báðum ekki um leiðsögn) Að mínu mati er þetta einhver sterkasta senan í myndinni.

Eitt í þessari gagnrýni kemur mér undarlega fyrir sjónir. Það er þessi setning: "En myndin sannar samt að aktívisti er ekkert eitt." Það er þetta "samt" sem vefst fyrir mér. Maður fær á tilfinninguna að þú hafir reiknað með að hún sýndi að aktivismi væri einhverskonar lokað kerfi, endanleg afstaða, sem hann er náttúrulega ekki. Þarna var ólíkt fólk með ólíkar áherslur, það eina sem sameinaði það voru efasemdir um að það sem fer fram á alþingi (með litlu a) verðskuldaði heitið "lýðræði".

Fullyrðing þín um að róttæklingar hafi sáralítinn áhuga á að efna til samtals finnst mér úr takti við viðhorf þín sem oftar en ekki lýsa nokkuð góðum skilningi á mannlegu eðli. Það er ekki það að róttæklinga skorti almennt áhuga á umræðu eða virðingu fyrir andmælendum sínum. Málið er að róttæklingar eru alltaf í minnihluta allsstaðar. Þeir hafa lengst af búið við þöggun, margir frá grunnskólaaldri. Þeir mæta oftar en ekki fjandskap og fordómum þegar þeir opna á sér þverrifuna og jafnvel bara við það að sjást á götu. Þar fyrir utan eru flestir svo fastir í trú sinni á að lýðræðishugmyndin sem þeir ólust upp við sé óumdeilanleg og ógagnrýnanleg að það er leitun að fólki sem er fært um að rökræða hana. Flestir ganga að henni jafn vísri og 19. aldar klerkur að guðstrúnni og allar tilraunir til að draga hana í efa eru afgreiddar sem þvæla og/eða ofstæki. Það eru eðlileg varnarviðbrögð að svara skít með skít þótt það sé ekki árangursríkt. Þessi mynd er í aðra röndina tilraun til að rétta þann hlut.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

1. Það samhengi sem Lalli setti upp til að fullyrða að við værum nasistar var fráleitt. Lýsir grundvallarskilningsleysi á stjórnarfari alræðisríkja.

2. Ljósmyndirnar sýndu þetta ágætlega. Enda var ég ekki að gagnrýna þær heldur hvernig talað var um fólk á myndunum.

3. Presturinn gerir ekkert annað en annar maður hafði gert örstuttu áður í myndinni. Þeir tóku sér báðir samskonar „vald“ en annar var hetja, hinn skúrkur. Ef eitthvað þá sannar þetta að anarkistar eru tilbúnir að dansa með æsingarmönnum en ekki þeim sem reyna að stilla til friðar. Og plís. Horfðu aftur á myndina. Horfðu á senurnar við ammríska sendiráðuð, þar sem lítll hópur róttæklinga eltir Lalla sjúkraliða um eins og andarungar. Það er stórkostleg afneitun að halda að myndin sýni afneitun valds.

4. Það má vel vera að róttæklingar telji sig vera að svara skít með skít. Það breytir engu um það að gagnvirkt skítkast er ekki samtal. Auk þess er HMH enginn sakleysingi með innbyrgða reiði sem brýst út í skítkasti. Hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Samtal krefst þess að hlustað sé á þá sem eru ósammála. Í þessari mynd var ekki einn einasti gagnrynandi, ekki ein einasta andstæð skoðun. Myndin hæðist að og gerir skringilega alla nema róttæklingana. Venjulegt fólk er vanhugsandi vélmenni, gagnrýnendur eru smáborgaralegir asnar.

Þetta er ekki samtal. Þetta lýsir ekki vilja til að ræða við samfélagið sitt og bæta það.

Viðhorfin minna mig satt að segja á einhverja snarruglaða byssuhólkelskendur eða tráurnöttera. Tilgangurinn er ekki að upplýsa, vera sanngjarn eða heiðarlegur. Tilgangurinn er að mölva niður eitthvað sem öðrum er kært vegna þess að sjálfur gefur maður ekki rotturass fyrir það.

Á meðan mannkynið venur sig ekki á að sjá hvern einasta mann sem manneskju með ákveðin grundvallarréttindi og stillir sig um að gera fólk að táknmyndum – þá þrífst fjandskapurinn og grimmdin. Það er auðvelt að senda flóttamenn úr landi vegna þess að þeir eru ekki fólk, ekki einu sinni með kennitölu, þeir eru bara slembiúrtak úr hjörð sem inniheldur misjafna sauði. En það er nákvæmlega jafn auðvelt að sitja við eldhúsborðið heima hjá sér og hæðast að þingvörðum, ótta þeirra og vanlíðan.

Haukur Már Helgason sagði...

Blessaður, Ragnar.

Takk fyrir góða umfjöllun – mér finnst athugasemdirnar sem þú gerir meika sens, það er fela í sér spurningar sem skipta máli í samhengi við þessa mynd. Ég veit ekki hvort ég ætla mikið að taka þátt í umræðu um hana sjálfur, og hef svosem ekki endilega neina forgangsstöðu gagnvart henni þegar hún er tilbúin – það sem er í henni er það sem sést og heyrist, og hvað var hugsað áður en það sást og heyrðist skiptir ekki endilega öllu máli. Líklega raunar ekki neinu máli.

Samtal krefst þess að hlustað sé á þá sem eru ósammála – en ekki allt sé sagt í einu. Það er auðvitað mjög meðvituð ákvörðun að þessi mynd er tekin, líklega ekki beinlínis frá sjónarhóli níumenninganna, enda er hann ekki einn, en einhverjum sjónarhóli rétt við hliðina á þeim. En það er þessi hugmynd um að það sé hlegið að ótta fólks í myndinni – þingvarðanna, geri ég ráð fyrir – sem truflar mig.

Í gegnum dómsmálið varð ljóst að enginn fulltrúi yfirvaldsins sem stóð að baki kærunni var tilbúinn að verja kæruna. Enginn leit á hana sem sinn verknað, heldur virkni, jafnvel sjálfvirkni, í kerfi. Persónulegt álit lögreglustjóra, ráðherra, þingmanns eða þingvarðar, á málinu kemur því ekki beint við, á sama hátt og persónulegt álit hvers níumenninganna kemur þeim við. Því málshöfðunin er ekki einkamál heldur opinbert mál. Þar sem yfirvaldið birtist og beitir sér sem stofnun með mörg andlit. Það sem ég hlæ að, þegar ég heyri sögumann segja söguna inni í stigaganginum, er ekki ótti eða viðbragð einstaklinga, heldur mismunurinn á aðstæðunum og opinberu sögunni sem var haldið fram. Þar sem ráðamenn beittu meðal annars fyrir sig frásögnum af upplifun starfsmanna, sem er einmitt ekki að sjá á myndunum. Ég man ekki eftir einni ljósmynd þar sem „ótti“ birtist í andliti. Þarna er reiða löggan, auðvitað, og margir hissa. En enginn birtist óttasleginn á þann hátt sem einhverjir þingmenn og stuðningsmenn málaferlanna héldu síðar fram. Heldur sallarólegir, upp til hópa. Og ég skildi hlátur, bæði sögumanns og áhorfenda, sem svo að hann beindist einmitt að þessu, að þvættingnum sem áður hafði heyrst, jafnvel sem léttir.

(frh.)

Haukur Már Helgason sagði...

(frh. …)

Þessi mismunur getur verið fyndinn. Honum er ekki ætlað að vera á kostnað starfsmanna Alþingis – enda held ég að sá sem þó heyrist í, í myndinni, virki afar sympatískur á flesta, þar sem hann lýsir því að þarna hafi ekki verið beitt „neinu afli eða ofbeldi“. Sympatískur og órafjarri frásögnum ráðamanna af upplifun þingvarðanna.

Í átökum við ríkisvald mætir maður ekki persónulegum skoðunum lögreglumanns, heldur embættisgjörðum hans og búningi. Tilvera hans sem táknmyndar skiptir máli, og er hvorki ákvörðuð af aktífistum né kvikmyndagerðarmanni. Að sýna „manninn bakvið búninginn“ getur verið bölvað persónuklám, raunar beinlínis blekking, til að horfa fram hjá valdastofnuninni.

Satt að segja reyndi ég hins vegar að tala við alveg utanaðkomandi og spyrja spurninga, fyrir framan myndavél, um málið, nota form skylt þvi þegar sjónvarpsfréttir spyrja „fólkið á götunni“ – en rak mig á að enginn tók jafn djúpt í árinni, í persónu, og ýmsir höfðu gert á netinu. Þó þótti mér mikilvægt að birta einmitt umfjöllunina eins og hún kom fram þar, sem er líka raunveruleiki – og úr urðu þessar sviðsetningar, ekki á „smáborgurum“ eða „almenningi“ heldur tilteknum ómaklegum svívirðingum.

Hitt hins vegar, hvort áhorfanda finnst aktífistarnir „snarruglaðir byssuhólkaelskendur“ eða eitthvað betra, er ég afar sáttur við að myndin skilji eftir opið – þó það nú væri. Sjónarhóll hennar er skýr, en í mínum huga er hún þó heimildamynd, ekki áróðursmynd – hún miðlar hugarfari, eins og þú segir, kannski upphefur hún það, kvikmyndir gera það – það er upphafning að sýna það sem manni finnst þess vert að sjást – en eftir það er það ekki krafa eða ásetningur minn eða myndarinnar að áhorfandi sé sammála mér, myndinni, eða einhverjum sem í henni tala. Sem eru, þrátt fyrir tengsl eða skyldleika, þrjú ólík fyrirbæri, hið minnsta.

Nóg um það. Ég vildi bara koma að orði um þennan hlátur. Kannski uppgötva ég eftir tíu ár að þetta sé bara rangt hjá mér, og allir séu að hlæja að þingvörðunum þegar flett er gegnum myndirnar. En það er hvorki ásetningur minn né upplifun mín núna.

Takk, hins vegar, fyrir að taka myndina til alvarlegrar skoðunar.

Samræða gengur vissulega út á að hlusta á það sem aðrir hafa að segja, en hún gengur ekki endilega út á að segja allt í einu.

Haukur Már Helgason sagði...

Annars nei, líklega ætti ég að sitja á mér. Ef maður gerir svona mynd er það vegna þess að blaðagrein eða bók rúmar ekki það sem ætlunin er að sýna. Ef myndin heppnaðist á annað borð er í henni einhver leikur, eitthvert spil, sem ég fer á mis við um leið og ég opna munninn og ætla að segja „hvað það er“. Eins og myndatexti við ljósmynd í dagblaði róar lesendur með því að útskýra hvað þeir eru að horfa á. Ég finn að þetta gengur ekki, þagna aftur þangað til ég læri að tala á einhvern annan hátt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Meðtekið.

Eva sagði...

Það samhengi sem Lalli setti upp var ósköp einfaldlega veruleiki sem við viljum ekki horfast í augu við. Sérðu engan samhljóm við stjórnarfar alræðisríkja í því að maður skuli hafa verið dæmdur fyrir að smána erlenda þjóð með því að segja óumdeilanlegan sannleika? Sérðu virkilega ekkert nazískt við þau ummæli fyrrverandi forsætisráðherra að menn verði að fara varlega í það að biðjast afsökunar á því að hafa stutt Gyðingaofsóknir? Finnst þér að við getum sleppt því að horfast í augu við þá aðskilnaðarhyggju sem er að opinberast í stjórnmálunum, hjá menntaelítuinni og í undirheimum Reykjavíkur? Eða má bara ekki kalla það nazisma af því að það er svo ljótt, rétt eins og má ekki kalla Tom Metzger illmenni af því að hann er sennilega ekki alvondur?

Þú ert dálítið á villigötum þegar þú berð saman prestinn og Lalla. Það er algengur misskilningur að anarkí merki algert stjórnleysi. Anarkí merkir ekki að allri verkstjórn sé hafnað eða að einn geti ekki haft meiri áhrif en annar. Anarkí merkir að enginn má taka sér vald yfir öðrum. Þegar ég bið nokkra félaga um aðstoð við einhverja aðgerð, þá er það ég sem stjórna henni. Aðrir geta haft tillögur eða sett skilyrði fyrir þáttöku en fólk tekur ekki fram fyrir hendurnar á mér. Það er grundvallarmunur á fámennri aðgerð sem er skipulögð fyrirfram og á ábyrgð eins eða fárra eða fjöldamótmælum þar sem tugir, hundruð eða jafnvel þúsundir koma saman úr öllum áttum. Þetta er svipað og munurinn á því að vinna undir stjórn skólastjóra sem þú valdir að vinna með og að mæta á kennararáðstefnu, þar sem einhver ókunnugur besserwisser ryðst upp í pontu og tekur upp á því að krítisera kennslustefnuna og leiðbeina öllum hinum án þess að hafa til þess nokkurt umboð.

Ég er sammála þér um hættuna sem afmennskunin hefur í för með sér en þetta er ekki einfalt mál. Eina stundina horfirðu á manneskju og finnur til samkenndar. En um leið og þú horfir á manneskju dúndra kylfu í hnéð á ástvini þínum eða þegar hún ber ljúgvitni gegn þér í réttarsal, eða eltir þig bæjarenda á milli í þeim tilgangi einum að hrella þig, eða ryðst inn á heimili þitt í heimildarleysi og gerir oreganó plönturnar upptækar fyrst ekkert áhugaverðara er að sjá, þá gerist eitthvað í kollinum á þér. Þú áttar þig á því að þú ert object og þá getur tvennt gerst. Annaðhvort gengstu inn á það eða þú ríst gegn því. Og eina leiðin sem þú kannt til að rísa gegn því er þessi afmennskun, því ef það er marktæk manneskja sem gefur þér þau skilaboð að þú sért object, þá hlýtur eitthvað að vera til í því. Manneskjan verður í huga þínum búningur, táknmynd valds, áður en hún er manneskja. Það er þannig sem óvinir verða til. Og ég veit ekki hvernig er hægt að komast hjá þessum vanda en ég held að það gerist ekki einhliða.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

1. Lalli sagði að á landinu væri þjóðerniskennd + velferðarkerfi = þjóðernissósíalismi = nasismi.

Þetta þarf ekkert að ræða meira, þarna var hann farinn að þvæla.

Ég held raunar að „afmennskunin“ sé miklu skýrara afkvæmi fasisma en nokkuð annað úr íslenskum veruleika.

Þórbergur var dæmdur fyrir að kalla Hitler öskurapa heilum fjórum árum áður en Chamberlain tók Hitler upp á arminn og sannfærði sjálfan sig um að Hitler hefði ekkert illt í hyggju. Þórbergur ætlaði alltaf að skrifa langa grein sér til málsvarnar en endaði með smá broti sem hljómar allt voða vel og skynsamlega þar til maður flettir og hann fer að bulla um að Þýskaland ætti að taka sér Sovétið til fyrirmyndar. Þórbergur var ekki þessi fagri málsvari öfgaleysis og sannleikans, ekki brjóstvörn gegn fasisma. Hann var bullandi fasisti sjálfur ef einhver verðskuldar þann titill. Það vildi bara svo til að hann hélt með hinum fasistanum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sá sem tuðar yfir nasisma vegna ýmissa gremjumála og taktleysis gerir sér enga grein fyrir þeim reginmun sem er á íslensku stjórnarfari, hversu gallað sem það kann að vera, og nasisma. Og ég held að þessi glámskyggni stafi dáltið af því að sumir róttæklingarnir eru engir sérstakir aðdáendur þeirra varna sem við höfum komið okkur upp gegn fasisma. Sem er lýðræðið. Andúð og engin trú á lýðræðinu og krafan um að berjast utan hins lýðræðslega vettvangs er alls ekki göfug. Raunar er hún rauði þráðurinn í málatilbunaði Breiviks og annarra fávita. Sem telja að þeirra sannfæring trompi dásvefn allra annarra.

Ef aktívistar vilja breytingar þá ber þeim að vinna fólk til fylgis við þær beytingar. Aðeins með kröfu um það vinnum við gegn gróðrastíum fasismans. Það fyrsta sem Hitler gerði var að stofna sínar eigin sveitir sem fóru um og „kipptu hlutum í lag“ sem hið opinbera megnaði ekki.

2. Lalli labbar um eins og ungamamma með hjörð á eftir sér. Það er ekkert anarkí. En ég var ekki einu sinni að vísa í hann. Ég var að vísa í hinn manninn, þennan með gleraugun, sem var í stigaganginum. Þann sem hélt ræðu yfir liðinu um hvað löggurnar væri fáar og þau mörg. Sá maður var ekki að gera neitt annað en presturinn. Ekkert. Það var enginn grundvallarmunur. Nema að hann var að æsa fólk upp – presturinn að reyna að róa fólk niður. Og það er ekkert sem bendir til þess að sá með gleraugun hafi verið meiri málssvari hópsins. Þetta voru örfáar sálir sem hrópuðu út með prestinn. Miklu fleiri þögðu á því augnabliki.

3. Þótt að þú sért objekt í augum annarra þá er fráleitt að halda því fram að því sé aðeins hægt að svara með því að hlutgera aðra. Til hvers settu friðarsinnar blóm í byssuhlaup? Til að mynda mannleg tengsl við þjóðvarðliða og hermenn. Það má vel vera að búið sé að hlutgera þennan litla hóp róttæklinga og leggja í einelti – m.a. þannig að sífellt sé verið að snuðra eftir hassi eða einhverju slíku. En þessi hlutgerving er almennur löstur á þessu blessaða samfélagi. Hvaða sýn hefur fólk sem þú þekkir á útrásarvíkingum og þingmönnum. Hvernig er um þá talað? Hvaða orðbragð er notað um sjálfstæðismenn eða aðra óvinsæla hópa.

Jú, það er sami hatursfulli fordómaboðskapurinn og snýr að þeim róttæku.

Sama heimskan. Sama þröngsýnin. Sama viðringarleysi fyrir því að hver manneskja skiptir svo miklu máli að þér ber að vinna hana á þitt band í stað þess að hnýta þig við hana að henni forspurðri.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Lastu lýsingu útsendingastjórans á því þegar klippt var á Kryddsíldina? Fannstu fyrir mennskunni? óttanum? Lastu þetta og fannstu hvernig var að vera að berjast á móti án þess að vera bara númer eða varinn með skildi?

Það eru mjög mörg öfl í samfélaginu sem vilja sniðganga lýðræðið til breytinga. Þau eru langflest afar ill. Og þau sem ekki eru ill gætu flest náð markmiði sínu með lýðræðislegum aðferðum.

Með því að láta eins og almenningur sé heimskur eða sofandi og nasískur þá eru menn að festa í sessi ranghugmyndir í kolli sínum. Menn eru að berjast við eina heimsku með annarri.

Horfðu á WBC - klikkaða trúsöfnuðinn sem mætir út á horn og gargar að BNA séu á leið til heljar fyrir hommameðvirkni. Horfðu á hvernig andúðin og heiftin sem mætir þeim þar verður til að festa betur í sessi ranghugmyndir þeirra um samfélagið.

Það er ýmsilegt í fari þeirra sem heimfæra má á þá sem tala hæst um fasisma, nasisma og kúgun á Íslandi.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er eignlega meira en óforskammað að halda því fram að þetta:

http://www.english.illinois.edu/maps/holocaust/essaypics/mizocz2.jpg

Sé það sama og að fjarlægja kryddplöntu úr eldhúsi manneskju.

Það er næstum eins og ný tegund af helfararafneitun.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://www.english.illinois.edu/maps/holocaust/photoessay.htm

Þarna sérðu myndir af konum með ungabörn í fanginu sem verið er að fara að skjóta, lítinn, nakinn dreng með húfu við hlið eldri manna á barmi fjöldagrafar.

Þarna sérðu hvað nasisminn fól í sér. Og af hverju þoldi mesta menningarþjóð Evrópu þetta?

Hún þoldi þetta vegna þess að það tókst að taka mennskuna af hópum fólks. Það var horft á það sem tákn (gula stjörnu) og svo (tattúverað) númer.

Suboxsoner sagði...

You People :)

-ismar eru leiðinlegir, alveg þræl-drep-leiðinlegir..Meiri lætin og kýtingurinn útaf örlítilli heimsókn, hmm Ragnar þú spyrðir mig saman við öfl sem eyða táknmyndum, eða and-þetta og hitt-þetta og fullt af fólki er buið að gera manni upp hugmyndir, atburði og allskyns dótarí, fyrir mér varð þetta nefnilega svolítið persónulegt allt saman og ég aðhyllist í sjálfu sér enga-isma, fannst samt anarkistatáknið cool á sínum tíma hehe, en vil svo taka það fram að bæði að verða einhver bjánalegur fjölmiðlamatur og vera ákærður fyrir ÞETTA SHIT og hótað öllu illu, kom eilítið niður á margrómuðum leikhæfileikum mínum hehe. En Haukur nálgaðist minn part amk vel og flott og gaf mér í raun skaplegt rými og eg hefði getað sagt allan andskotann í kameruna án þess að hafa hugmynd um hvað ég væri að þvæla (semsagt ekki kameruvanur), en mér finnst myndin snilld og gott að einhver tók að sér að skrá vitleysuna og frekjuna og yfirganginn í yfirvaldi sem hikar ekki við að misnota þegna sína og þjóna afþví við ösnuðumst til að freta örlítið í smettin á þeim, gaman að því...eða ekki!!!, Eva mín þú ert bara algert æði en eg hef ahyggjur af því að þú springir hreinlega í loft upp og það yrði skaði mín kæra:)....EN málið er eining og virðing.

peace

Nonni 9