31. júlí 2011

Konan þín er ljót!


Við yngri dóttirin (11 ára) fórum í sunnudagsmessu í morgun. Heima tók sonurinn (1 árs í sept) sér hádegisblund með mömmu og unglingurinn (16 ára) svaf á sínu græna eyra. Veðrið var blítt og stillt. Regndropar sátu eins og gimsteinar á laufblöðum limgerðisins. Allt var gott.

Kirkjugestir voru, auk okkar, að mestu roskið fólk. Þó var verið að ferma eina stúlku. Fólkið hennar var með henni. Kirkjan var björt og falleg og presturinn ljúfur.

Ég leiddi dóttur mína gegnum messusiðina. Útskýrði jafnóðum hvað væri að gerast og hvað myndi gerast næst, kenndi henni að finna rétta sálma og hvernig ætti að lesa þá. Eftir messu kvöddum við prestinn og fermingarbarnið og gengum heim.

Ég er trúlaus. Meira að segja mjög trúlaus. Og ég held ég sé nokkuð róttækur trúleysingi. Að mínu mati er guðstrú næstum yfirgengilega óskynsamleg. En hvað var ég þá að gera með barnið mitt í messu? Og taka þátt í messunni?

Einfalda svarið er það að hún bað mig að fara með sig. Og ég hef haft það sem reglu að þegar börnin mín sýna frumkvæði í trúmálum þá reyni ég að styðja við það. Ég leyfi þeim að kynnast trúnni og kirkjunni og ég gæti þess að tala kirkjuna ekki niður. Það gæti margt verra hent en að börnin mín verði trúuð.

En af hverju segi ég börnunum ekki „sannleikann“? Það er örlítið flóknara svar. Ég held að sannleikurinn þurfi ekki á því að halda að ég festi hann í sessi í hugum barnanna minna þegar þau eru ung. Mér finnst sannleikurinn vera eitthvað sem þau megi sjálf taka þátt í að uppgötva. Ég nýt þeirra forréttinda að börnin mín trúa mér, treysta mér til að taka af skarið – jafnvel um flókin álitamál. Þegar við eigum heimspekilegar samræður með flóknum klípusögum kemur yfirleitt að því að vandræðin verða of mikil og þá er spurt: „Já, en hvað á þá að gera, pabbi?,“ „Hvað er rétta svarið?“

Ég vil frekar að börnin mín spyrji en að þau hafi öll svör á reiðum höndum. Því marki næ ég best með því að spyrja þau – í stað þess að segja þeim.

Meðan presturinn var að tala í dag rann upp fyrir mér ljós. Það er erfitt að vera kirkjan í dag. Einhverntíma heyrði ég að fræg söngkona hefði breytt sér í trúarlega fígúru og stofnað um sig söfnuð til að komast hjá sköttum. Í dag held ég að trúfélög myndu hagnast meira á því að þykjast vera eitthvað annað – t.d. stjórnmálaflokkar.

Mér varð hugsað til þess hvaða augum ég lít kirkjuna. Jú, ég held að hún sé risastórt hús byggt á sandi. Það er enginn guð. Trúaðir sækja sér tilgang og festu í ímyndaðar stoðir. En samt sem áður er yfirgnæfandi hluti þess sem kirkjan boðar næstum óumdeilanlega ágætt. Kirkjan hefur oftar en ekki rétt fyrir sér um það hvað beri að gera – þótt hún hafi næstum alltaf rangt fyrir sér hvers vegna. Ásteytingarsteinar mínir við kirkjuna eru miklu færri og lengra á milli þeirra en ég hef oftast haldið.

Ég fór að hugsa um kirkjuna sem stjórnmálaflokk. Sem boðaði nokkurveginn nákvæmlega það sama og kirkjan gerir nú. Yrði slíkur flokkur úthrópaður og umdeildur? Teldist flokkurinn uppbyggilegt afl í lýðræðissamfélaginu?

Skyndilega sá ég kirkjunnar menn fyrir mér sem vonbiðla. Menn sem eru yfir sig ástfangnir af stúlku. Stúlku sem mér finnst satt að segja ekkert spes. Stúlku sem þeir geta ekki hætt að dásama og semja um innblásin ástarljóð. Það er hægt að semja falleg ljóð um ljótar stúlkur ef maður elskar þær. Og sönnunargögnin um ást hinna ungu manna hrannast upp; málverk, blómvendir, ljóð. Og þessir hlutir eru í sjálfu sér voðalega fallegir.

Ég get svosem rætt við þessa menn og bent þeim á að stúlkan þeirra sé í raun ekki svona falleg. Hún hafi stórt nef og frekjuskarð, freknur og gisið hár. Og þeir andvarpa bara og segja: „Já, finnst þér það ekki dásamlegt?“

Það er þrátt fyrir allt ekki tilgangur opins lýðræðisríkis að allir séu skotnir í sömu stelpunni. Sumir mega meira að segja vera skotnir í stelpum sem ekki eru skotnar í þeim. Og aðrir mega vera skotnir í löngu dauðum kvikmyndastjörnum. Það sem skiptir máli er að menn séu skotnir í einhverjum. Því ástin, kærleikurinn, velviljinn – það er aflið sem á að fá að leika lausum hala. Hatrið, heiftin og úlfúðin eru óvinurinn.

Ég er sekur um að ofgera þeim þáttum í fari hinnar kristnu kirkju sem ég er ósáttur við. Og þessir þættir eru að miklu leyti nonissjú í raun og veru. Einhverjar guðfræðilegar árásir á gamlar syndir kirkjunnar. Skuggamyndir þeirra fordóma sem hinn hái aldur kirkjunnar er dæmdur til að hýsa. Flest í boðskap og starfi kirkjunnar (eins og það er í raun) truflar mig minna en stefnuskrá og störf venjulegra, íslenskra stjórnmálaflokka.

Það eru vitleysur og ranghugmyndir í öllum stjórnmálaflokkum. Sjálfstæðismenn ganga margir með þá einfölduðu ranghugmynd í kollinum að það sé öllum fyrir bestu að samfélagið sé samkeppnissamfélag og að fólk sé á einhvern hátt þannig innréttað að það muni aldrei hugsa um almannahag af sömu innlifun og sinn eigin hag. Vinstri grænir hafa tekið um borð allskyns ýkjur og hálfsannleik og enginn flokkur bindur trúss sitt jafn rækilega við „gagnlegar fleipur.“

Frá mínum bæjardyrum séð eru flestir samborgarar mínir sekir um að hafa rangt fyrir sér um allskyns mikilvæg mál. Menn ganga með grasið í skónum á eftir skuggamyndum og ljótum kvenskössum. Og það er ofsalega freistandi fyrir mig að sækja mér sápukassa og gjallarhorn og hrópa. Keisarinn er berrassaður!

Það er skoðanafrelsi á landinu því ætti að vera augljóst að maður má hafa rangt fyrir sér.

Það er full ástæða til að veita kirkjunni ríkulegt aðhald. Hún er ekki gallalaus og hún þarf að glíma við óumburðarlyndi, sleggjudóma, hégóma og hatur – eins og öll mannanna félög. En hún verðskuldar ekki allar þær árásir sem hún fær. Við leggjum hana mörg í einelti. Ýkjum lesti hennar og gerum lítið úr dygðunum.

Ég held að sannleikurinn um að það sé ekki til neinn guð (og það sem meira er að það þurfi engan guð) sé einhver þau bjargföstustu sannindi sem hægt er að koma niður á. Þetta er svo augljóst þegar maður víkkar út hugann og leggur saman öll þessi agnarsmáu litlu dæmi sem maður sér út um allt. Og ég held að barn sem er alið upp til víðsýni í stað fordóma sé miklum mun líklegra til að verða trúlaust en trúað. Manneskja sem hugsað er vel um er ólíklegra til að „þurfa“ að trúa á yfirnáttúrulega réttlætingu, makleg málagjöld og umbun en sú sem hefur lent í hremmingum. Ekkert púslar betur saman sundraðri sál en fullvissa.

Ég mun í mínu uppeldi ekki beita áhrifum mínum og úthluta börnum mínum stjórnmálaflokki og trúfélagi (eða vantrúarfélagi). Ég mun reyna að nesta börnin til ferðalagsins. Og treysta á að áfangastaðurinn verði góður ef nestið og viðlegubúnaðurinn er viðunandi.

Á vegi þeirra verða margir fullyrðingaglaðir sölumenn ýmissa hugmynda. Sumir munu selja tóma vitleysu. En vonandi munu þau þá hafa lært mikilvægustu lexíuna í að díla við slíkt fólk.

Þau hafa vonandi lært að spyrja.

10 ummæli:

Birgir Baldursson sagði...

Prestarnir mega mín vegna alveg vera bálskotnir í stórnefjaðri stelpu með frekjuskarð, svo lengi sem þeir eru ekki að pimpa hana og reyna að véla börnin í skólunum til að sofa hjá henni.

Og ef það er enginn guð, til hvers þarf þá kirkju?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ásælni presta í börn af því þau eru móttækileg er óréttlætanleg nema með vilja og samþykki foreldra.

Ef Liverpool vinnur aldrei titil, hví þarf þá Anfield?
Til hvers þarf Eurovision forkeppni á Íslandi?

Það þarf kirkju því nógu margir trúa.

Nafnlaus sagði...

Vona að börnin þín lesi bloggið þitt. Gott blogg.

Baldur McQueen sagði...

Ljómandi gott, Ragnar Þór.

Illugi Jökulsson sagði...

Vel að orði komist.

Kristinn sagði...

Ljómandi fín hugleiðing.

Við guðleysingjarnir látum stundum eins og það sé fullsannað að raunhyggja með vissu óþoli fyrir trúarlegri menningu muni skila heimsbyggðinni fegurri framtíð en allt annað. Það er vitaskuld í sjálfu sér bara veðmál, þótt það megi færa ágæt rök fyrir því að það sé skynsamlegt veðmál.

Þetta er snúið mál. Það er allavega ágætt að lesa um þetta ólíkar vangaveltur.

mbk,

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir kommentin.

Kristinn, skemmtileg pæling. Ég persónulega held að sjálfstæð, gagnrýnin afstaða + umburðarlyndi sé ekki aðeins líklegast til að skapa fegurri framtíð – heldur stuðli líka að fegurri samtíð.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Síðan má reyndar deila um það í hvaða hlutföllum gagnrýni / umburðarlyndi á rétt á sér.

Ég hallast að því að meiri gagnrýni sé betri – það sé enda mikilvægara að umbera (heiðarlega og vandaða) gagnrýni en að umbera þá þætti sem slíkri gagnrýni er beint gegn.

Óli Sindri sagði...

Amen.

Theodor Gunnarsson sagði...

Ég er alveg ferlegur trúleysingi, en hef lítið haft mig í frammi sem slíkur. Ég reyndi líka að vera ekki að troða trúleysi mínu upp á börnin mín, en er hræddur um að mér hafi ekki tekist vel upp. Þrjú þeirra af 5 eru ófermd að eigin ósk.

Þetta er prýðileg hugvekja hjá þér og það gæti bara vel verið að maður ætti ekki að vera að láta rökleysuna í trúarbrögðunum fara of mikið í taugarnar á sér. Ég hef svo sem heldur ekki neinn sérstakan ímigust á venjulegum hálfvolgum og áhugalausum meðlimum þjóðkirkjunnar, en bókstafstrúaðir þjarma ansi mikið að mér.