20. desember 2010

Vantrú vs. Gídeon



Afstaða mín er að trúboð eigi ekki heima í skólum. Sú sannfæring mín byggir á þeirri skoðun minni að hlutverk uppalenda sé að efla og stæla skilningsgáfu barna en ekki virkja hana til stuðnings við vafasamar skoðanir. Raunar finnst mér trúboð ekki heldur eiga heima á heimilum fólks. Ég stunda ekki trúboð á börnum mínum. Ekki vantrúboð heldur. Um daginn bað dóttir mín mig um að fara með sér á samkomu hjá Fíladelfíu. Ég fór. Svo sat ég samkomu á meðan hún fór í sunnudagaskólann. Hún er tíu ára. Eldri dóttir mín fór í Krossinn á almenna ungmennasamkomu um daginn. Það hvarflaði ekki að mér að banna það.



Ég er alltaf til taks að ræða við þær um trúmál og það spjall er alltaf hlutlaust. Við ræðum hvað einum eða öðrum finnst og af hverju – og ég segi þeim aldrei hvað þeim eigi að finnast. Og ég segi þeim ekki hvað mér finnst sjálfum fyrr en eftir að þær fermast (eða ákveða að fermast ekki). Árið sem eldri stelpan átti að fermast gerði ég átak í að ræða þessi mál við hana, fór með hana í messur í öðrum trúfélögum og kynnti hana fyrir Siðmennt. Afleiðingin var sú að hún tók sér ár í umhugsunartíma – og fermdist svo held ég meira eða minna út á gjafirnar.

Þegar ég var sjálfur barn fór ég oft í sunnudagaskóla, í Hjálpræðisherinn, á hvítasunnusamkomur og ég söng einsöng í kirkjum á jólum. Ég kann stóra hluta úr Biblíunni utanað. Í menntaskóla bjó ég hjá ömmu og afa og fór að agitera gegn trú og þá sigaði amma Vottunum á mig. Næstu árin rökræddi ég reglulega við Vottana, fór meira að segja stundum í heimsókn til þeirra. Reglulega hafði ég betur í þessum viðureignum. Smám saman myndaði ég mér andtrúarlegarlífsskoðanir, sem í fyrstu voru auðvitað öfgafullar og eindregnar en urðu smám saman fágaðri og afslappaðri.


Góð lífsskoðun er afleiðing ferðalags. Ferðalags sem stælir skilningsgáfuna og gerir mann smám saman hæfan til að velja réttasta kostinn á þeim fjölmörgu krossgötum sem verða á vegi manns.

Hlutverk uppalenda er að draga fram skilningsljósið í hugum barnanna. Það er ekki til marks um að uppeldið hafi heppnast þegar maður sér sitt eigið ljós speglast í augum þeirra.

Hráefni skilningsins eru staðreyndir. En ekki eingöngu þær. Hlutverk andagiftar, innblásturs, fegurðar og allra mannlegra tilfinninga er ekki síðra.

Skóli getur aldrei orðið vettvangur einberra staðreynda. Manneskja sem skilgreinir sig aðeins út frá staðreyndaforða sínum er holmenni. Skólinn á að ýta undir mennskuna í öllu sínu veldi. Í skóla eiga börn að rannsaka, hrasa, misreikna sig og vinna sigra. Og skólinn á að stæla anda þeirra og skilning.



Svanur læknir svarar grein Fjalars kennara og Gídeonsmanns með því að benda á nokkra hluti:


1. Aðeins foreldrar hafi upplýstar trúarskoðanir og börn þeirra hafa óupplýsta framlengingu þeirra. Með því að láta skólastarf taka mið af „trú“ barnanna er starfsfólk skólanna að tjá sig um skoðanir foreldranna án heimildar.

2. Núverandi siðir skólanna (jólahald, afmælisdagar o.s.frv.) er ekki boðandi og truflar ekki „kennsluna“.

3. Það er ekki tekin afstaða til trúmála í vísindakennslu því trúmál eru ekki til umræðu í kennslunni. Telji trúmenn að ákveðnir þættir vísindakennslu séu árásir á trúna er það túlkun á aðstæðum en ekki staðreynd.

4. Skólinn á að vera hinn „hlutlausi“ vettvangur samfélagsins í anda upplýsingarinnar.

Allt ofangreint er rangt. Fjalari Frey tókst nefnilega að rekast á kjarnann í allri þessari umræðu í grein sinni.



Kjarninn er þessi:

Skólinn er ekki hinn „hlutlausi“ vettvangur samfélagsins í þeirri merkingu að þar séu menn aðeins að fást við það sammannlega, það sem öllum er sameiginlegt. Skólinn er hlutlaus miklu frekar að því marki að hann tekur ekki afstöðu með eða gegn einstaklingum. Þú mátt vera sá sem þú ert. Hvort sem það felur í sér að þú sért lesblindur, ofvirkur eða trúaður. Og þú átt að fá að vera þú sjálfur í skólanum eins og annarsstaðar. Sá ofvirki á að fá að hreyfa sig, sá lesblindi fær glærur og sá trúaði fær að iðka trú sína.

Þetta eru helvíti mögnuð rök. Miklu sterkari en maður hefði kannski fyrst talið. Í skólann máttu mæta í fótboltatreyju og skrifa ritgerðir um uppáhaldsleikmennina þína. Þú mátt baka köku með uppáhaldsávextinum þínum. Þú mátt vera sá sem þú ert heima hjá þér. Og foreldrar þínir eru velkomnir í skólann líka. Þannig er skólinn í dag þar sem hann er bestur.

Sá sem ætlar að hafna trúboði í skólum verður að svara því hvers vegna börn eigi ekki að fá að iðka trú sína á skólatíma. Hvers vegna börn megi ekki vera þau sjálf að öllu og fullu leyti meðan þau eru í skólanum.

Við því eru svör. En Svanur læknir skaut framhjá í svari sínu til Fjalars.



Að lokum. Ég kenni vísindi. Ég dreg trú, guð og guðleysi miskunnarlaust inn í kennsluna. Í síðasta tíma reyndum við að sanna að Guð væri til. Þú skilur ekki Newton nema átta þig á þeim undarlegu trúarbrögðum sem hann aðhylltist. Þú getur ekki rætt um Darwin og sleppt sköpunarsögunni og kirkjunni. Þú forðast ekki spurningar um tilgang í náttúrulögmálunum eða upphaf veraldar.

En ef þú slakar á og hættir að reyna að troða þínum hugmyndum í koll barnanna og dregur sérhverja skoðun upp á yfirborðið til öfgalausrar skoðunar þá muntu fyrr eða seinna stæla skilningsgáfu barnanna. Og sá sem hefur kynnst notkun hennar hjá sjálfum sér áttar sig á því að manneskjur taka tíma. Það sýnir ótrúlegt vantraust á sannleikanum að þurfa stanslaust að fóðra börn á staðreyndum, þau þrífast miklu betur á spurningum.

Skólinn á ekki að vera vé. Því með því að banna nærveru trúarinnar í skólanum er maður um leið að gefa henni fullkomið skjól. Börnin hafa þá aðeins aðgang að því sem misvitrir foreldrar troða í kolla þeirra heima. Börn eiga að fá að þroska þessa hlið sína eins og allar aðrar í skólanum.

Ekki satt?

9 ummæli:

Hjalti sagði...

Ég er ekki viss um að hve miklu leyti það sem þú segir eigi við, t.d. þetta:

"Í skólann máttu mæta í fótboltatreyju og skrifa ritgerðir um uppáhaldsleikmennina þína. Þú mátt baka köku með uppáhaldsávextinum þínum. Þú mátt vera sá sem þú ert heima hjá þér. Og foreldrar þínir eru velkomnir í skólann líka. Þannig er skólinn í dag þar sem hann er bestur."

Í skólann máttu mæta með krosshálsfesti og skrifa ritgerðir um Jesú. Þú mátt baka köku sem líta út eins og Jesú. Þú mátt vera sá sem þú ert heima hjá þér.

Það er að ég held ekki ætlunin að banna eitthvað svona. Svo veit ég ekki hve mikið þetta fjallar um að banna börnum að "iðka trúna" sína í skólunum, frekar en að skólinn sé ekki að standa skipulega að trúariðkunum (og að láta þá vera útundan sem vilja ekki taka þátt í iðkuninni).

En þarna ertu þá líka að tala um trúariðkun, en ekki beinlínis trúboð. Og það er auðvitað aðalvandamálið, einhverjar svona uppákomur sem er verið að reyna að koma í veg fyrir.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er alveg sammála að nefna má ófá dæmi þar sem farið er alveg yfir strikið í trúboði meðal skólabarna. En svona mál er aldrei hægt að meta út frá dauðaugljósum málum, þau þarf einmitt að meta út frá stefnunni.

Ef markmiðið er að halda í „hófsama“ iðkun og tjáningu trúar þarf það að koma einhverstaðar fram ásamt einhverskonar skilgreiningu á óhóflegri iðkun, tjáningu og boði trúarinnar.

Staðreyndin er eftir sem áður þessi: „trúuð börn“ sæta „mismunun“ vegna fæðar sinnar en mega ekki njóta mismununar vegna fjölda síns. Er það sanngjarnt?

Ég held að svo sé, en það þarf að rökstyðja betur og almennar en út frá einu og einu ósmekklegu dæmi.

Hjalti sagði...

Ok, hvernig reglur værir þú sáttur við sem myndu taka á svona dæmum sem þér finnst fara yfir strikið?

Ég er nefnilega hræddur við að umræða um einhver mál á gráa svæðinu muni orsaka það að það verði ekki settar reglur sem hjálpa foreldrum sem lenda í svona málum eins og sagt var í greininni á Vantrú.


Staðreyndin er eftir sem áður þessi: „trúuð börn“ sæta „mismunun“ vegna fæðar sinnar en mega ekki njóta mismununar vegna fjölda síns. Er það sanngjarnt?

Ég skil þetta ekki alveg hvað þú átt við með því að þau sæti mismununar.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Svona dæmi eru daglegt brauð. Skólastjóri er ábyrgur, ekki spurning. Foreldrum eru opnar kæruleiðir. Að auki eru nemendur aldrei í svona aðstæðum án kennara. Kennari hefur siðferðilega skyldu til að grípa inn í eða gera athugasemdir við ósæmilega framkomu við nemendur. Kirkjur sem misnota aðgang að börnum finnst mér að eigi að útiloka frá samskiptum við börnin, ekki spurning.

Hinn punkturinn er þessi: Nonni trúir að risaeðlur hafi drukknað í Syndaflóðinu og að það sé synd að halda upp á afmælisdaga - en haldi hann þessu fram á prófi er hann felldur og kennarinn segir þetta rangt auk þess sem hann þarf að hlusta á afmælissönginn tuttugu sinnum á vetri og neita sér um ískex og smákökur sem hin börnin fá. Nonni trúir ennfremur að það sé hollt og gott að biðja, sérstaklega fyrir lítil börn, en það má hann ekki gera í skólanum því Palli á pabba sem er ósammála því.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Og Nonni má ekki fara í tveggja daga fermingarferðalag á skólatíma því Palli ætlar ekki að fermast þótt Palli fari í tveggja daga fótboltakeppnisferð á sama tíma.

Hjalti sagði...

Allt í lagi, skólastjóri er ábyrgur, foreldrar hafa opnar kæruleiðir og kennari hefur siðferðilega skyldu til að grípa inn í eða gera athugasemdir. En ég veit ekki hvað foreldrinn getur gert ef t.d. skólastjórinn er sáttur við þetta (um árið var t.d. frétt af þar sem skólastjórinn lét krakka fara með bænir í upphafi hvers skóladags, þetta var í Keflavík ef ég man rétt)? Hvað á foreldrinn að kæra?

Ég get alveg tekið undir það að dæmið með vottann og afmæli er erfitt, á gráa svæðinu.

En ég skil ekki hvað þú átt við þegar þú segir að Nonni megi ekki biðja í skólanum fyrir litlum börnum. Auðvitað má hann það.

Hvernig reglur værir þú sáttur við sem myndu taka á þessum málum sem snúast um ágang ríkiskirkjunnar í opinbera skóla?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er nokkuð sáttur við tillögur MR. Sérstaklega endurskoðaða útgáfu af þeim.

Vandinn liggur ekki í reglunum. Vandinn er fræðilegur og það á að vera að tækla hann í kennaranáminu. Kennaradeildin á að kalla til sín Vantrú, Siðmennt, kirkjuna og önnur trúfélög - ræða málið í þaula og hafa þetta sem lið í menntun kennara.

Svo á að samþykkja tilmæli MR og gera þennan sjálfsagða greinarmun á fræðslu og boðun.

Hjalti sagði...

Ég er sammála því að endurskoðaða útgáfan sé betri.

Já, og það þarf eflaust að tækla þetta vel í kennaranáminu.

Sýnist við bara vera frekar sammála. En eitt atriði í viðbót í greininni:

"En ef þú slakar á og hættir að reyna að troða þínum hugmyndum í koll barnanna og dregur sérhverja skoðun upp á yfirborðið til öfgalausrar skoðunar þá muntu fyrr eða seinna stæla skilningsgáfu barnanna. Og sá sem hefur kynnst notkun hennar hjá sjálfum sér áttar sig á því að manneskjur taka tíma. Það sýnir ótrúlegt vantraust á sannleikanum að þurfa stanslaust að fóðra börn á staðreyndum, þau þrífast miklu betur á spurningum."

Mér hefur fundist það að það séu aðallega trúmenn (eins og t.d. prestar) sem stunda það að innræta börnum sínum trúarskoðanir sínar sem staðreyndir, en eru ekki að velta upp spurningum, eins og þú stingur upp á. Held að þeir séu ekkert svakalega fylgjandi þessari leið ;)

Ég veit til þess að foreldrar, sem vilja fara þessa leið, lenda í vandræðum þegar í skólanum er verið (með aðkomu kirkjunnar) verið að beinlínis boða þeim kristni, og hafa þá ákveðið að "verjast" með því að innræta þeim að einhverju leyti trúleysi, svona til mótvægis.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég held innræting trúleysis sé ekkert betri en innræting trúar. Innrætum börnum heilbrigða, almenna skynsemi og þá kemur hitt af sjálfu sér. Páfagaukur sem orgar "höfuðborgin í ástralíu er sidney" er í sjálfu sér hvorki betri né verri en sá sem orgar að það sé canberra.

Og svo er þetta spurning um hvernig við skilgreinum eðlilegt hlutleysi skólans í eilífðarmálunum.

Ég óska eftir góðri skilgreiningu á því.