Siðfræðihlutinn vakti athygli mína. Fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er augljóst, þegar haft er í huga að rannsóknarnefndin miðaði í ályktunum sínum aðeins við yfirborðskennd regluverksábyrgðarhlutverk, að siðfræðinefndin var sú sem átti að gaumgæfa stjórnmálamenninna. Hjá henni hefði Ingibjörg Sólrún til að mynda ekki átt að komast upp með að hafna allri ábyrgð með því að segjast bara hafa verið vesæll Utanríkisráðherra. Hún hélt sig fjandakornið ekki innan valdssviðs þess ráðuneytis þótt rannsóknarnefndin sjái ekki ástæðu til að láta hana sæta ábyrgð í samræmi við hið tekna vald.
Og þótt siðfræðinefndin byrji á því að segja að þótt verkefni sitt sé vandasamt þá titri það í raun og veru í sömu tíðni og þjóðin öll þegar hún bannar börnunum sínum að ljúga og stela - þá missir nenfdin sjón, heyrn og þefskyn þegar blessunin hún Ingibjörg gerist sek um það sem virðist vera hreinræktuð lygi. Nefndin vitnar nefnilega í Ingibjörgu sem segist hreinlega forviða á því að bankamálaráðherrann skyldi ekki kallaður til um Glitnishelgina (8. bindi : 141). Henni bara hugkvæmist ekki hvernig geti staðið á því!
Annað sem ég skil ekki er þetta: Hvers vegna var þetta tiltekna fólk fengið til að gera skýrsluna? Fólk sem allt á lifibrauð sitt, með þráðbeinum eða þvísemnæst hætti, undir þingmönnum og ráðherrum - auk ýmissa annarra tengsla. Einn er systir stórskuldugs þingmanns, annar er vinsæll ræðumaður hjá stjórnmálaflokki sem ítrekað hefur verið orðaður við framboð og sá þriðji er fyrrum vopnabróðir ráðherra í pólitískt skipuðu embætti.
Var nema von að þetta fólk veigraði sér við að munda breiðu spjótin?
Það þarf ekki lengi að lesa til að sjá fingraför Vilhjálms Árnasonar út um allt. Ég skal tilfæra tvö dæmi. Hann hefur um árabil barist fyrir starfstengdri siðfræði og innleiðingu siðareglna. Siðareglur voru mjög í tísku rétt fyrir góðærið og varla var til svo ómerkilegur félagsskapur að hann setti sér ekki siðareglur. Fæstir fóru eftir þeim að sjálfsögðu enda virðist ekki marktækur munur í hrunadansinum hjá þeim sem höfðu siðareglur og hinum sem höfðu engar. Nema hvað, siðfræðinefndin stingur ítrekað og af töluverðum ákafa upp á að bólusetja samfélagið gegn framtíðarhruni með siðareglum. Hvað annað.
Annað dæmi. Vilhjálmur skrifaði einu sinni grein um kvótakerfið þar sem hann reyndi að sýna framá að það væri ranglátt í ljósi úthlutunar. Útgerðarmenn hefðu ekki einir verðskuldað kvóta enda aðeins einn þráður í hinum margslungna vef samfélagsins. Útgerðarmaðurinn kæmist illa af án netagerðarmannsins, Moggablaðberans og mjólkursölukonunnar. Hann þyrfti á grunnskólakennaranum sínum að halda, sóknarprestinum og stefnuvottinum.
Og þótt Vilhjálmur hafi auðvitað rétt fyrir sér að samfélagið sé að mörgu leyti svona margslunginn vefur þá kemur svona greining að afar takmörkuðu gagni við að úthluta gæðum. Og að jafnlitlu gagni við að draga til ábyrgðar. Því þótt flestir séu sammála því að það minnki ekki ábyrgð morðingjans á glæp sínum að hann hefði ekki átt jafn auðvelt með að fremja ódæðið án leigubílsstjórans sem kom honum á staðinn, verslunareigandans sem seldi honum kúlurnar og greiðastúlkunar sem sá til þess að hann gæti framið morð með mettan maga - þá er það gallinn í hugmyndafræði Vilhjálms um samfélagsvefinn að ábyrgðin skorðast ekki þar sem hún á heima. Ekkert frekar en hagnaðurinn einskorðist við byssumanninn ef hann hefði beint byssunni að rjúpu en ekki manneskju.
Á mikilvægum stöðum í skýrslunni gegnsýrist allt af þessu viðhorfi:
Ef einblínt er á sekt einstakra manna er líklegt að við missum bæði sjónar á flóknu samspili einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti og að við förum á mis við þá lærdóma sem draga þarf af svo miklum atburðum.
Og því rokkar skýrslan á milli þess að vera almennt (vinstrisinnað) blaður um að þjóðin þurfi að endurskoða neysluhyggju sína og frekari afmörkunar ábyrgðar. En þegar sektinni er smurt jafnt á alla þá hættir hún að skipta máli.
Nefndin var ekki nærri nógu huguð. Og þess vegna voru lærdómar hennar tómt fyrirframvitað innihaldslítið blaður.
Og stjórnmálamennirnir sluppu úr rannsókninni án teljandi meiðsla.
Og haga sér eftir því.
1 ummæli:
Engum treysti ég betur til að dæma um gildi þessa siðfræðikafla en þér og forsetanum enda tel ég ykkur báða í hópi 16 gáfuðustu manna landsins. Um gáfur forsetans þarf augljóslega ekki að fjölyrða og þú ert án vafa vel skólaður í rökfræði.
Þannig að ekki sé ég ástæðu til að lesa ósköpin. Hafðu þökk fyrir að stytta lesturinn.
Kv.
Hefner
Skrifa ummæli