11. nóvember 2008

Myndvarpaheilkennið

Ég vil kalla það myndvarpaheilkennið þegar brugðist er við skipbroti með kröfunni um að synda aftur til heimahafnar. 

Það er ekki langt síðan æðsta hnoss kennara var glæsilegt safn af glærum. Skjávarpinn og tölvan gerðu glæruna óþarfa á nokkrum árum. En í stað þess að nýta tölvutæknina af viti hljóp óðaþensla í menntakerfið. Tölvukostur margfaldaðist og varð sífellt dýrari og óhugglegur hluti launakostnaðar var tilkominn vegna tölva. 

En á meðan vantaði alla innviði. Alla stefnu. Tölvur voru misnotaðar. Frá þeim streymdi ekkert nema ógeðslegt safn Power Point sýninga. 

Það kom auðvitað að því að tölvunotkun skóla sigldi í strand. Upplýsingatæknistefnan varð gjaldþrota. Hún hefur ekki enn jafnað sig til fulls. Notkun tölva er í dag mjög á reiki, ómarkviss og því marki brennd að hafa komist í þrot.

Og þá birtist myndvarpaheilkennið. Sú rödd að nú ætti að bakka um hundrað skref. Dusta rykið af myndvörpum og hverfa til fortíðar. 

Sem er tóm þvæla. 

Myndvarpaheilkennið er vissulega sálfræðilegt haldreipi þeirra (sem oftast eru um eða yfir miðjum aldri) sem ekki ráða við að hugsa á fleti og eru farnir að hugsa á línu. Þá skortir sveigjanleikann til að leita nýrra leiða fram hjá vanda og reiða sig af mikilli hind á allt sem er gamalt. 

Nú er myndvarpaheilkennið að hellast yfir íslenskt samfélag. Fólk sem löngu var búið að kvitta fyrir sig og komið út úr þjóðmálaumræðunni birtist nú í hverju skúmaskoti með allra handa lausnir. Allar lausnirnar fela í sér stórkostlegt afturhvarf til einhvers sem annað hvort var eða hefði átt að vera. 

Eldgamlir örlagakommar halda í einfeldni sinni að byltingin sé á næsta leiti. Ringlandin í samfélaginu veldur því að ekki er hlegið að þeim. Það er allt svo klikkað að kommaklikkunin nær samhljómi.

Þessar vikur hafa hnitast um kröfur um afturhvarf. 

Nú kemur sóknin. 

Sóknin er nauðsynleg og þjóðin þarf að átta sig á því að það var ekki hún sem sigldi okkur í strand. Það sem vantaði var aðhaldsmeira umhverfi. Það var of auðvelt að sækja. Ákveðnir kimar blésu út eins og tölvuheimur skólanna gerði forðum. Svo sprakk blaðran.

Sókn er eina leiðin út úr klúðrinu sem við erum í núna. En í þetta skiptið er spilað á móti almennilegri vörn. Og þá má reikna með að hafrarnir sæki fram en sauðirnir sitji í vörn.

Engin ummæli: