15. nóvember 2008

Mótmælin


Fór á mótmælin. Tók mér stöðu fyrir framan Alþingishúsið. Var mættur snemma.

Lögreglumenn biðu handan hornsins í hvítum Econoline. Einhver horfði á í beinni útsendingu í gegn um hreyfanlega, augnlagaða myndavél í glugganum undir bergrisanum. Geir Jón spakur í námunda við húsið með heyrnartól límt við vinstra eyrað.

Það dreif að fólk úr öllum áttum með salernisrúllur. Sumir hentu krónum. Einn laumaði danskri krónu með. Trukka-Sturla vildi ekki henda sínum nema einhver tæki mynd. Reynir Traustason stóð í námunda og blés sígarettureyk í átt að barnavögnum.

Splatt!

Fyrsta eggið lenti í Alþingishúsinu.

Splatt! Splatt! 

Mótmælin voru rétt byrjuð. Allan tímann flaug matur reglulega í húsið. Sumt í umbúðunum. Þeir sem hentu voru brosandi börn. Öll í dýrum fötum. Báru góssið í bakpokum og pokum frá Tíuellefu. Ekki einn Bónuspoka að sjá. María Antoinette á gelgjunni hefði líklega hent kökum.

Mótmælin voru dauf. Efldu engan. Mér var réttur miði um borgarafund á Nasa. Stúlkan sagði: „Þett' er sko alvöru.“ Fundurinn í dag var feik. Hápunkturinn þegar Hörður fékk hópinn til að jarma „já!“ í kór. Misheppnað útspil anarkista sem hrökkluðust af svölunum þegar þeim var sagt að þeir þyrftu ekki grímurnar. Víst þurftu þeir grímurnar. Það var partur af aktinu. Þeir áttu von á stuðningshrópum en Hörður sá í gegn um gervið. Fúlt fyrir þá.

Annars var myndin af þeim í fréttum S2 mér að þakka. Ég sá þá bauka á svölunum og benti myndatökumanninum á þá rétt áður en þeir létu fánann rúlla. Flott mynd. Fegurðin framar öllu.

Myndatökumenn eggjuðu unglingana (og einstaka viðbrenndan fullorðinn) áfram með ákafa sínum. Samtaka köst vöktu mesta lukku. Gaman þegar melónu var kastað. Enn meira gaman þegar eina rúðan brotnaði. Úúú, hvað gerir löggan nú?

Ekki neitt.

Geir Jón og félagi horfa bara á og taka við hvítum blómum. Hlusta af þolinmæði á einkennilega, sköllótta fitubollu sem rífst við dverg með blútúþ um það hvort virðingu þjóðarinnar væri ekki stórlega misboðið með grýtingunni. Skallinn vill fá bakköpp frá Geir.

Þegar hrópað er „Hvar er Geir?“ segir Geir Jón skrýtlu. Skallinn hlær og segist líka heita Geir. Gaman hjá þeim.

Unglingar fara fleiri ferðir með námsmannadebetkortin í Tíuellefu. Kaupa skyr. Það kemur svo fallega út á steinveggnum. Kastið búið að gera þá svanga. Stela eggjum úr salatbarnum og éta á leið á kassann.

Það er kalt. Ekkert meira að gerast. Flest fullorðna fólkið farið heim. Krakkarnir einir eftir með ljósmyndurunum. Reyndu að fá stuð með því að brjóta rúðuna. Ekkert gerðist. Kveiktu í klósettpappír og hlógu þegar ráðþrota kona reyndi að slökkva eldinn með annarri rúllu af pappír. Hættu að hlæja þegar Geir Jón slökkti eldinn með því að stíga á hann.

Pínulitlir krakkar prófa að kasta líka. Sköllótti maðurinn þusar. „Eitthvað kostar að þrífa þetta.“ „Eina milljón um síðustu helgi.“ segir Geir Jón. 

„Það er verktaki hjá borginni sem sér um að hreinsa þetta sem stendur á bak við kastið.“ segir nálægur maður og hlær. 

Skallinn spyr: „Hvenær eru jólatónleikarnir?“ „Nú, ekki hægt að fá miða.“ „Ojæja.“ „Ætli ég komist í kórinn?“

Blútúþ-dvergurinn er afskiptur.

Hörður hringir í Geir Jón. Geir Jón hrósar honum. „Ekki undir sex þúsund manns.“ „Þetta var svo þétt.“ „Nei, það hefur verið snemma, það var örugglega sex þúsund þegar mest var. það var svo þétt. Þéttnin skiptir svo miklu.“ Kveðjast með virktum.

Fúlir anarkistar kasta líka. Búið að eyðileggja fyrir þeim. Atriðið ónýtt. Þeir á leveli með börnum. Næst gera þeir eitthvað stórt.

Sá hvergi Illuga með fyrsta skilti ævinnar. Sá Egil Helga. Hann sagði „já“ með kórnum. Vill Davíð burt. Röddin hljóðnaði og varirnar bærðust minna eftir því sem spurningum fjölgaði. Honum fannst þetta eitthvað óþægilegt. Var kvikur til augnanna og brosandi. Spennandi tímar. Skyldi eitthvað gerast? Hefur líklega farið vonsvikinn heim.

Mótmælin eru komin á leiðarenda. Þau verða ekki mikið lengur í þessari mynd. Fóll vill ekki láta koma aftan af sér. Það vill vita hvað það á að hrópa áður en það mætir. Ekki láta ginna sig til að hrópa já við einhverju þegar það er komið á staðinn. Sjötta jáið gæti verið falskt, kríað út með skriðþunga hinna jáanna.

Næsta laugardag fara ljósmyndararnir niður að tjörn og taka mynd af mávunum.

Nema einhver komi fram með eitthvað spennandi í millitíðinni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hvaðahvaða pabbalabbi, ég gat ekki betur heyrt en að fjölnir tattú meinti hvert einasta já sem hann öskraði. en kannske var hann bara að hugsa um ofbeldi. apli