29. ágúst 2008

smávegis um flugferðir.

Ég ferðast oft með flugvélum. Ég fer reglulega erlendis og nýti mér innanlandsflug á Íslandi mjög mikið, stundum nokkrum sinnum í viku....stundum sjaldnar. Í hvert einasta skipti sem ég sest uppí flugvél sækir sama hugsunin á mig. Rétt áður en farið er í loftið og fótaber flugfreyjan þylur ræðuna sína í kallkerfinu fer ég alltaf að brosa og hugsa um hvað þetta sé nú alveg út úr korti fáránlegt. Ég er alls ekki flughræddur, en ég get ekki varist þeirri hugsun þó, að ég myndi líklega steindrepast ef flugvélin myndi hrapa á miðri leið.
En hvað er þá svona broslegt ? Jú, ég er á leiðinni til Reykjavíkur og klár í brottför. Þegar flugvélin er stopp úti á miðri flugbrautinni bendir flugfreyjan okkur á að slökkva nú örugglega á farsímunum okkar, þó svo að það sé vitað mál að það er ekkert örbylgjusamband í 10.000 feta hæð. Gott og vel, ég slekk alltaf á símanum mínum, til að vélin hrapi nú síður. Þá er okkur sagt að hafa nú sætisbökin upprétt af öryggisástæðum við flugtak og lendingu. Afhverju í ósköpunum veit auðvitað enginn. Sjálfsagt er betra að smyrja smettinu á sér aftan á sætisbakið, en framan á það, þegar vélin fer í klessu. Að lokum tilkynnir flugfreyjan að ljósin í farþegarýminu verði nú slökkt af ÖRYGGISÁSTÆÐUM, en bendir jafnframt á, að það séu lesljós fyrir ofan okkur. Hverslags dómadags drasl eru þessar flugvélar ef það eykur flugöryggi þeirra ef það eru slökkt ljósin í farþegarýminu ? Það er lokað inn til flugstjóranna, og ég bara hreinlega skil ekki hvaða máli það skiptir, að ljósin séu kveikt í farþegarýminu. Eins og það skipti mig einhverju máli hvort það logi smá ljós í skottinu á bílnum mínum þegar ég keyri hann ? Hver vill vera í þeirri aðstöðu að vera að fara að fljúga á yfir 500 kílómetra hraða, í margra kílómetra hæð, og hafa þá vitneskju að það skipti máli fyrir flugöryggið hvort ljósin séu kveikt eða slökkt ?? Er það hughreystandi tilhugsun, að öryggið standi og falli með þessu atriði.. ljósunum í farþegarýminu? Ef flogið er yfir vetrartímann, þá kveikja allir 50 farþegarnir lesljósin og það verður jafn bjart í vélinni og var áður en aðalljósin voru slökkt. Yndisleg tilhugsun og afar hjálpleg fyrir flughrædda að velta fyrir sér á meðan vélin klýfur loftið á leið upp í skýin.

Síðast þegar ég fór í millilandaflug, þá var ég svo heppinn að ferðast á Saga Class. Þar má maður allt. Maður getur valið um tvær tegundir af vondum mat, þarf ekkert að borga fyrir pepsíið sitt og getur fengið teppi til að hlýja sér með í 100 gráðu heitum, loftlausum stál-sívalningnum. Maður má bora nefið þar og biðröðin á salernið er styttri. Það er ekki einu sinni sama svita og andfýlan þar, og á almennarýminu. Nei.. þar er svona snobb svitafýla, og þar er tíska að fara úr skónum, og leyfa hinum að finna táfýluna af sér líka. En einmitt þegar ég sat þarna síðast, í góðu svita-táfýlunni og vélin var um það bil að taka á loft, þá kemur til mín flugfreyja og biður mig um að hafa ekki “dregið fyrir gluggann”. Þar sem maður er á Saga Class, þá má maður nöldra aðeins og ég spyr þess vegna: Afhverju ekki ? Þá var mér bent kurteisislega á að það væri bannað í flugtakinu. Ég varð auðvitað að fá aðeins nánari skýringu á þessu og spyr þess vegna afhverju í ósköpunum það sé bannað. “ Af öryggisástæðum” var svarið og svo gekk flugfreyjan í burtu til að sinna kampavínsþyrstum farþega fyrir aftan mig. AF ÖRYGGISÁSTÆÐUM ????? Á þessari stundu, þá lá við að ég neitaði að fljúga með vélinni, fyrst það ógnaði öryggi hennar ef ég hefði dregið fyrir gluggann ! Það er að vísu ekki ólíklegt að flugfélagið vilji gera þá stund eftirminnilega fyrir þig, ef vélin hrapar og sjá til þess að þú missir ekki af neinu og sjáir hvað er að gerast. Þú átt jú aldrei eftir að upplifa það aftur, það er víst. En sé það raunin, þá eiga þeir bara koma hreint fram og segja það.

Það eina sem mér finnst óþægilegt við flugferðir er að ganga út úr vélinni með fleiri spurningar í kollinum varðandi flugið, en áður en ég gekk inní vélina. Ef einhver veit svarið, þá er ég alveg til í að fá að vita, afhverju það er bannað að hafa dregið fyrir gluggann í flugtaki og lendingu.

Góðar stundir.
Bóla

p.s: Afhverju eru björgunnarvesti í flugvélum sem fljúga aldrei yfir sjó ? Eins og á milli Reykjavíkur og Egilsstaða eða Akureyrar ?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það má ekki draga fyrir gluggann, svo kafarar eigi auðveldar með að sjá að allir séu dauðir ef vélin lendir í sjó.

Nafnlaus sagði...

Langt síðan ég hef hlegið jafn hressilega yfir netpistli. Skemmtilegar pælingar.

Ágæt uppástunga þess nafnlausa hér að ofan.